07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (1491)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Hv. frsm. allshn. (J. Þ.) taldi mig hafa farið með rangt mál, er jeg gat um, af hvaða orsökum þetta frv. væri upp runnið. En það er þó hárrjett, sem jeg sagði. Það er að vísu satt, að sá maður, sem flytur þetta frv. hjer, hefir aldrei verið við heimastjórn kendur, og því engin börn við henni getið, enda átti jeg ekki við hann. Það kemur heldur ekki málinu við, hvað gerðist í tíð feðra vorra, er ellefu manna þingmálafundur í Dalasýslu gerði ályktun. Það hefir verið sýnt, að vilji Dalamanna er allur annar nú. Jeg hefi ekki sagt, að sá uppruni væri af þeim ástæðum. En jeg átti við fæðing frv. í milliþinganefndinni. Hún var af þeim ástæðum, sem jeg greindi. Nefndin fjekk áskorun frá mjer um að rannsaka, hvort eigi væri hægt að aðskilja umboðsvald og dómsvald; þótt hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) rengi það og vilji siga á mig hinum mikla sagnfræðingi, þá er það þó satt. En upp úr þessu varð svo aðeins frv. um sameining tveggja lögsagnarumdæma. Parturiunt montes, nascitur ridiculus mus. Það voru að vísu ekki eingöngu heimastjórnarmenn í þessari nefnd, en heimastjórnarmaðurinn í nefndinni kunni betur að koma sínum málum fram en hinir og vissi vel, hvað hann söng, er hann bar fram þetta frv.

Jeg hefi þóst verða þess var, að hv. þm. bæru svo mikla virðingu fyrir hv. kjósendum, að þeir vilji ekki gera sjer leik að því að gera þeim gramt í geði.

En það er gert hjer, er Dalasýsla er rekin hjer út úr og á að sameina hana Strandasýslu, að íbúum Dalasýslu þvernauðugum. Hjer er að ástæðulausu verið að áreita kjósendur Dalasýslu. Jeg vænti þess, að dagskrá mín verði samþykt, en hún fer fram á, að stjórninni verði falið að rannsaka málið. Jeg hugsa, að fylgismenn stjórnarinnar muni samþykkja hana. Væri jeg í stjórnarinnar sporum, teldi jeg það móðgun við mig, ef þingið færi að grípa með blettum inn í það verk, sem jeg væri búinn að lýsa yfir að jeg ætlaði að framkvæma.