07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (1492)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Lárus Helgason:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, en vildi aðeins láta í ljós þá skoðun mína um þetta mál, að jeg tel rökstuddu dagskrána fullkomlega rjettmæta.

Jeg hefi orðið þess var síðan jeg kom á þing, að hjer hafa verið ýms þau mál á döfinni, sem betur væri að ekki hefðu komið inn í þingið; og svo er um þetta mál. Jeg fæ ekki sjeð, að neinn sparnaður yrði að því, þó að þetta frv. yrði að lögum, því að í báðum þeim sýslum, sem talað er um að sameina, eru ungir sýslumenn, og yrði að sjá fyrir þeim, eða öðrum þeirra, að miklu leyti af fje landsins, að minsta kosti fyrst um sinn, svo sem áður hefir verið sýnt fram á hjer í hv. deild. Sparnaður sá, sem af þessu máli leiðir, er því sá, að þingið lengist og kostnaðurinn við það eykst. Auk þessa finst mjer næsta undarlegt að grípa, að mjer virðist úr lausu lofti, tvö embætti og vilja sameina þau. Hitt er miklu heilbrigðara, að taka alt launakerfið til rannsóknar í heild sinni, eins og hæstv. stjórn hefir lýst yfir að gert verði.

Vegna þessa, sem nú er talið, mun jeg greiða atkvæði móti frv., en með rökstuddu dagskránni.