11.04.1922
Efri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (1497)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Karl Einarsson:

Jeg ætla ekki að halda neina ræðu um þetta mál; deildinni er það svo kunnugt, að þess gerist engin þörf.

Það eru harla skiftar skoðanir um málið, og undarlegt, að það skuli hafa komið fram, þar sem stjórnin hefir lýst yfir því, að hún ætli að taka embættaskipun landsins til nákvæmlegrar athugunar og gera till. um fækkun embætta, eftir því sem unt er. Af þessum ástæðum tel jeg eigi rjett að samþykkja nú frv. þetta, enda gæti svo farið, að sameining þessara embætta færi í bága við niðurstöðu stjórnarinnar að athuguðu máli. Jeg vil því gera till. um, að deildin vísi málinu til stjórnarinnar.