07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (1501)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Frsm. (Ólafur Proppé*):

Eins og tekið er fram í greinargerð þessa frv., eru mjög skiftar skoðanir manna um það, af hverju stafi það verðfall, sem orðið hefir á íslensku krónunni á síðari tímum. Eins og lætur að líkum, hefir nefndin ekki haft tækifæri til að rannsaka það mál til hlítar, því að hún hefir hvorki þeim mönnum á að skipa, sem færir eru til þess, nje heldur hafa þeir haft tíma til slíkra rannsókna. Það er þó eftir talsverða rannsókn og athugun, að samvinnunefnd viðskiftamála kemur með frv. þetta inn í hv. deild.

Nefndin hefir borið sig saman við ýmsa málsmetandi menn um atriði það, sem frv. fer fram á, og mjer er óhætt að taka það fram, að næstum undantekningarlaust allir, sem málefnið hefur verið rætt við, hafa verið sammála um það, að núverandi fyrirkomulag og óvissa væri allsendis óviðunandi, og að kringumstæðurnar og ástandið krefðist þessara ráðstafana. Um hitt hafa aftur á móti verið talsvert skiftar skoðanir, hvenær byrja skyldi að skrá gengið, og það hefir þess vegna orðið að samkomulagi að láta þetta atriði vera nokkuð á valdi stjórnarinnar og nefndar þeirrar, er til stendur að skipuð verði.

Það er óhugsandi, að vjer til lengdar, eins og Þjóðverjar, getum trássast við að fylgja alþjóðaviðskiftalögmáli. Og enda þótt, því miður, megi gera ráð fyrir því, að íslenska krónan verði ef til vill lág fyrst í stað, er þó hitt augljóst, samkvæmt þeim gögnum, sem nefndin hefir haft fyrir sjer, og þá sjerstaklega þegar litið er til þess, hve góðar eru nú allar framleiðsluhorfur, að gengi vort verður eigi lengi í þeirri niðurlægingu og óvissu, sem það nú er.

Samkvæmt ábyggilegum heimildum voru banka- og viðskiftaskuldir Íslendinga erlendis um síðustu áramót hjer um bil 27 miljónir króna. Aftur á móti voru inneignir erlendis á sama tíma hjer um bil 4,7 miljónir, og einnig voru á sama tíma, eftir ágiskun, óseldar Íslenskar afurðir erlendis fyrir um 4 miljónir. Dragi maður þessar 8,7 miljónir frá, verða eftir 18,3 miljónir. Af sömu skýrslum er það sjáanlegt, að af upphæð þessari skulduðu kaupsýslumenn, aðrir en bankar, um 5,2 miljónir, en það má telja alveg víst að í minsta lagi helmingur þessarar upphæðar sje samningsbundnar vöruskiftaskuldir, og er þó síst of djúpt tekið í árinni. Dragi maður nú þennan helming frá, sem óhikað má fullyrða að eigi hafi nein áhrif á gengi vort, verða eftir 15,7 miljónir. Frá þessari upphæð mun leyfilegt að draga 2 miljónir, af vissum ástæðum, sem ekki skal skýrt frá hjer. Þá verða eftir 13,7 miljónir. Af þessari upphæð skuldar annar bankinn um 7 miljónir, sem allar líkur eru þó til að hægt verði að fá fasta afborgunarskilmála um, og það jafnvel til langs tíma. Hugsi maður sjer þessu komið í framkvæmd, en það er einmitt það, sem gert er að skilyrði fyrir byrjun skráningar, í greinargerð frumvarpsins, verða eftir 6,7 miljónir, sem eigi er ráðstafað, og vil jeg þó bæta þar við fyrir vanhöldum 1,3 milj. Þetta yrðu þá samtals áætlaðar um 8 miljónir svokallaðra dægurskulda, eða þeirra skulda, sem telja má sennilegt að meiri eða minni áhrif gætu haft á gengi hinnar íslensku krónu. Það skal þó í þessu sambandi tekið fram, og er það haft eftir bankafróðum manni, að venjulegar dægur- eða fljótandi skuldir fyrir ófriðinn muni eigi hafa verið langt frá þessari upphæð, eða eigi undir 5–6 miljónum.

Mætti maður nú gera ráð fyrir því, að báðir bankarnir væru búnir að afla sjer tryggra viðskiftasambanda erlendis, sem þegar er staðreynd um annan bankann, má telja það nokkurn veginn víst, að „kredit“ sú, sem bankarnir hefðu, mundi að minsta kosti nema því, sem jeg áður taldi óráðstafað. Er þá eftir að tryggja sjer það, sem þarf til daglegs innflutnings. Talsvert miklar ráðstafanir um innflutning mun þegar vera búið að gera, og að minsta kosti fyrir Faxaflóaútgerðina fengin trygging fyrir nægum innflutningi salts og kola, sem skiljanlega hlýtur að vera mjög stór liður í búskap vorum, og yfirleitt má enn fremur gera ráð fyrir, að innflutn. þessa árs muni eigi valda neinum vandræðum. Að vísu eru ekki enn þá fyrir hendi neinar áreiðanlegar skýrslur um það, hve innflutningur til landsins hafi verið mikill síðan á áramótum, en jeg þykist samt ekki byggja á röngum grundvelli þá ágiskun mína, sem einnig hefir við þó nokkur rök að styðjast, að innfluttar vörur frá nýári, að undanteknum kolum og salti, muni síst nema meiru en þær vörur, sem við höfum flutt út á sama tíma.

Innflutningurinn, og það jafnvel á hinum algengustu nauðsynjum, hefir aldrei verið jafnlítill og á þessu tímabili, og birgðirnar í landinu af þeim vörum eru sáralitlar. Því miður. Þessu til sönnunar nægir að taka það fram, að ekkert einasta skip, sem komið hefir til landsins síðan á áramótum, hefir haft fullfermi að flytja, og venjulegast ekki meira en einn þriðja eða fjórða af lestarrúminu. En til þess að fá einhvern flutning hafa þau neyðst til að taka kol fyrir mjög lág farmgjöld.

Önnur fullgild sönnun fyrir því, að jeg muni hjer fara með rjett mál, er sú staðreynd, að hið óskráða gengi íslensku krónunnar hefir ekkert lækkað síðan í október eða nóvember, og mun krónan nú vera, eins og þá, 70–72 danskra aura ígildi, en sterlingspund stendur óhaggað í 27 krónum.

Mjer er persónulega kunnugt um það, að fráfarandi forsætisráðherra hafði fullan skilning á alvöru þessa máls, og að hann hafði þegar í síðustu utanför sinni undirbúið málið nokkuð erlendis, en um framhald þess undirbúnings eða þeirra málaleitana, sem þá voru á döfinni, er mjer eigi nógu kunnugt, en sennilegt þykir mjer, að hin nýja stjórn hafi lítið gert til framhalds málinu, vegna fjarveru sendiherrans íslenska, sem okkur er öllum kunnugt um. En mál þetta mun hafa hvílt í höndum hans að miklu leyti. Á hinn bóginn mun jeg mega segja það með fullri vissu, að málaleitun þessari mun hafa verið mjög vel tekið á þeim stöðum, sem borið hefir verið niður, og jeg má einnig fullyrða, að opinber skráning mundi óneitanlega vekja meiri samúð og betri skilning en núverandi óvissa og óreiðufyrirkomulag hlýtur óumflýjanlega að valda.

Að öllu þessu athuguðu virðist það liggja í augum uppi, að líkurnar til þess eru mjög miklar, að ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, geti undir engum kringumstæðum skaðað okkur. — Slíkar ráðstafanir virðast miklu fremur beinlínis stefna að því að bæta úr og kippa í lag því vandræðafyrirkomulagi á verslun og viðskiftum, sem vjer nú búum við.

Um einstakar greinar frv. skal jeg ekki við þessa 1. umr. tala neitt sjerstaklega; sennilega gefst tækifæri til þess síðar. En frá eigin brjósti vil jeg er bygt á hafa flestir þeir menn, sem aðeins bæta því við, og leggja áherslu á það, að hina sömu skoðun og frv. vit hafa á þessum málum, og það er persónuleg sannfæring mín, án þess að jeg áþreifanlega geti sannað öðrum það, að opinber skráning gengis muni hafa þau læknandi áhrif á viðskiftalíf vort, að ekki einungis gengismismunurinn muni minka, okkur í hag, heldur muni einnig komast meiri festa á viðskiftin og peningaveltan muni komast í þann farveg, sem eðlilegastur er og heillavænlegastur, sem sje til bankanna. Þetta er óbifanlega trú mín, sem jeg veit að mun rætast, og sjálfur er jeg svo bjartsýnn að halda því fram, að gengismunur íslenskrar og danskrar krónu muni að mestu leyti, ef ekki alveg, horfinn fyrir næstu áramót.

Áður en jeg sest niður get jeg ekki stilt mig um að geta þess, að Bretum, þessari hagsýnustu og „kritiskustu“ fjármálaþjóð heimsins, hefir eigi fundist það ósamboðið virðingu sinni að meta ríkisskuldabrjefin okkar fyrir breska láninu frá því í haust á 98, eða með öðrum orðum tveimur undir nafnverði. En að sú virðing sje handahófsvirðing, mun víst enginn treystast að halda fram.

* Ó. P. hefir ekki farið sjálfur yfir handrit skrifaranna að ræðum sinum í þessu máli.