07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (1502)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Magnús Kristjánsson:

Jeg verð að segja, að jeg hefi ekki haft tíma eða tækifæri til þess að kynna mjer mál þetta sem skyldi. En í fljótu bragði virðist mjer þó jeg mega segja, að frv. þetta muni vera bæði meinlaust og gagnslaust og muni ekki ráða bót á því stóra meini, sem við eigum við að búa, sem er verðfall íslensku krónunnar og þar af leiðandi skortur á gjaldeyri til nota erlendis.

Jeg get ekki stilt mig um að minna á það, sem jeg hefi svo oft tekið fram hjer á þingi, þegar rætt hefir verið um gengismálið, að til þess að halda uppi verðgildi okkar peninga þurfum við að hafa gát á því, að það, sem inn er flutt, fari ekki fram úr því, sem útfluttar afurðir landsins nema. Eða, sem er enn ákjósanlegra, að útfluttar vörur nemi meira en inn er flutt.

Mjer er ekki ljóst, hvernig stjórnin getur metið erlendan gjaldeyri og skipað fyrir, hvers virði okkar króna eigi að vera og það þótt hún hafi menn sjer til aðstoðar. Og jafnvel þótt hægt sje með lögum að banna sölu á erlendum peningum, þá er erfiðara að framfylgja þeim, og vandasamt að hafa slíkt eftirlit með höndum.

Þess vegna verða þessi lög gagnslaus, þó að þau næðu samþykki, og hafa engin bjargráð í sjer fólgin út úr þeim vandræðum, sem þeim er þó ætlað að bæta úr.

Hitt er ráðið til að bjarga gengismálinu, að flytja inn á þessu ári alt að 10 miljónum minna en andvirði afurða landsins nemur á þessu ári.

Vilji hv. Alþingi ekki fallast á innflutningshöft í sambandi við eftirlit á afurðasölunni, þá er jeg sannfærður um, að allar aðrar ráðstafanir reynast kák eitt, og þetta frv. líka.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta nú, enda læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvað um frv. þetta verður, því jeg lít svo á, eins og jeg hefi áður tekið fram, að það sje gagnslaust og bæti ekki úr á nokkurn hátt.

Það mun eflaust gefast tækifæri síðar til að benda á, hve margfalt tap og skaðleg áhrif við erum búnir að hafa af gengishruninu, og lítið útlit um, að fram úr rakni, nema tekið sje öfluglega í taumana. Ráðin eru einföld til þess að komast fram hjá þessu skeri, en þau felast ekki í þessu frv.