07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (1505)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Frsm. (Ólafur Proppé):

Hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) álitu frv. þetta meinlaust og gagnslaust; skil jeg vel afstöðu þeirra, þótt sitt gangi hvorum til.

Afstaða hv. þm. Ak. er vel skiljanleg, þegar athugað er frv. það, um innflutningshöft o. fl., sem nú er komið í dagsljósið. Hann er þeirrar skoðunar, að eina ráðið sje hömlur á hömlur ofan, bæði á útfluttum og innfluttum vörum. Ræða hans var nú nokkuð á við og dreif, en aðalinnihaldið var þó það, að ef flutt yrði inn 5–10 miljónum minna en út er flutt, þá mundi bót fást.

Jeg hefi nú sannað, að útflutningur var miklu meiri en innfl. á síðastl. ári, án þess að nokkrum hömlum væri beitt, og þetta ár mun sýna, að áframhald verður á þessu.

Ummæli hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) snerust aðallega um 1. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að gengisskráning komist ekki á fyr en vissum skilyrðum er fullnægt.

En nefndin vill með þessu herða á stjórninni að halda áfram þeim ráðstöfunum, sem fyrv. stjórn var byrjuð á, um að bæta gengið, strax er þingi er lokið.

Jeg gat þess einnig, að danskir bankar mundu ekki ófúsir á að hlaupa undir bagga með okkur.

Þá vildi þessi hv. þm. (Jak. M.) halda því fram, að gildi ísl. krónu ætti að vera það sama og danskrar, því að útflutningur hjeðan og verslun væri aðallega til Danmerkur.

Það er rjett, að svo var það fyrir 10–12 árum, en nú horfir þetta öðruvísi við, og þær upphæðir eru teljandi, sem nú ganga í gegnum danska banka.

Mestallur gjaldeyririnn fyrir fiskinn gengur í gegnum breska og spanska banka, og því er nú ómögulegt að halda því fram, að dönsk og íslensk króna sjeu óaðskiljanlegar. Viðskifti vor við Breta hafa aukist svo, að þau eru orðin alveg yfirgnæfandi, og væri því full ástæða til að miða ísl. krónu við sterlingspund.

Þá vildi þm. (Jak. M.) halda því fram, að í frv. væri gefið í skyn, að það bæri að trássast við það að skrá gengið. En eftir að stjórnin hefir heyrt framsöguræðu mína vona jeg, að gengið verði skráð svo fljótt sem unt er.

Þá vildi hann og halda því fram, að gengisskráning væri óþörf, ef samið væri um „dægurskuldirnar“, því að þá mundi gengið lagast af sjálfu sjer. En það er full ástæða til að skrá gengið fyrir því, því að vel má vera, að þær ráðstafanir leiði til þess, að krónan komist yfir „pari“, og þá er auðsætt, að hagur væri að því, að gengisskráningin væri komin á.

Þá hjelt hann því fram, að bankarnir hefðu ekki „spekulerað“ á gengismuninum. Hjer er jeg honum heldur ekki sammála. Mjer er svo kunnugt um skifti bankanna við útflytjendur sl. ár, að jeg er viss um, að það má telja það í hundruðum þúsunda, sem bankarnir hafa haft af viðskiftamönnum sínum með því að gefa þeim ekki það raunverulega verðmæti fyrir „valutu“ þeirra. Enda bera reikningar Íslandsbanka þetta fullkomlega með sjer, þar sem gróðinn er 2,2 miljónir. Slíka upphæð gæti bankinn ekki grætt af vöxtum einum. Raunverulegt gengi ísl. krónu er auðvitað háð framboði og eftirspurn, og verður það jafnt, hvort sem gengisskráningin kemur eða ekki. Nefndin á því ekki og getur ekki búið til sjerstakt verð á krónunni, heldur á hún að meta til sannvirðis gengið á hverjum tíma.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem er einn nefndarmanna, var forfallaður síðasta daginn, en hefir nú lýst sjerskoðun sinni. Kemur hún nokkuð eftir dúk og disk, einkanlega er hann hafði áður ekkert við þetta að athuga. Tók hann í strenginn með hv. þm. Ak. (M. K.), um að þetta væri gagnslítið og annað myndi ekki stoða en samþykt hins frv., um innflutningshömlur, en það liggur nú ekki fyrir til umræðu, og á því ekki við að ræða það nú.

Hann sagði og, að jeg teldi þetta frv. leið út úr ógöngunum. Það er rjett, og þó að jeg geti máske ekki fært full rök að því, þá segir mjer svo hugur um, að með þessu komist á það skipulag, sem lagi gengið.