07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (1506)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Jakob Möller:

Jeg ætla að halda mjer við efnið, en ekki að fara að deila um það, hvort innflutningshöft eða aðrar þvingunarráðstafanir muni verða líklegar til þess að hafa áhrif á gengið. Þetta, sem jeg vil segja, er því aðeins nokkrar athugasemdir við ræðu hv. frsm. (Ó. P.). Hann sagði, að búið væri að undirbúa það, að fullnægja þeim skilyrðum, sem greinargerðin getur um að fullnægja þurfi, áður en gengisskráningin kemst á. Þetta gleður mig. En hann hreyfði ekki við því, að þá er horfin sú ástæða, sem var fyrir gengisskráningunni. Þá sagði hann, að heppilegt mundi að hafa gengið skráð, ef íslensk króna færi yfir „pari“. Jeg held, að það þurfi nú að breytast nokkuð mikið til þess, að það verði. Hann talaði einmitt um að fá aðstoð danskra banka, og þá kemur að því, að peningaviðskiftin verða aðallega bundin við Danmörku, og því er eðlilegt, að gengi danskrar og íslenskrar krónu sje hið sama, en með öllu óhugsandi, að gengi ísl. kr. komist upp fyrir danskrar. Hv. frsm. (Ó. P.) fór nokkuð út fyrir málið, er hann fór að rifja upp, hvernig viðskifti vor við útlönd hafa breyst. En til skamms tíma hefir því verið svo varið, að andvirði útfluttra vara hjeðan hefir að vísu verið greitt af kaupendum í enska banka, en síðan verið flutt þaðan beint til danskra banka, viðskiftabanka þeirra íslensku. Ensku bankarnir hafa aðeins verið millistöð. Það er því ekki nema eðlilegt, að gengi ísl. krónu sje það sama og danskrar, og enn er þess að gæta, að verslun vor er líka bundin við Danmörku á þann veg, að við kaupum flestar vörur okkar þaðan.

Enn er og það kunnugt, að dönsk verslunarfjelög hafa í sínum höndum mikið af innlendu versluninni.

Þá gerði hv. frsm. (Ó. P.) ráð fyrir því, að ísl. krónan mundi fljótt komast í „pari“. Má vel vera, að svo verði, en hann tekur ekkert tillit til eins, og það er, hver áhrif gengisspekulationirnar kunna að hafa á gengið. Spekulationirnar geta verkað allóþægilega, þar eð dönsk firmu, sem alveg eru óháð hag landsmanna, ráða yfir svo og svo miklu af gjaldeyrinum.

Þá sagði hann, að jeg hefði sagt, að bankarnir „spekuleruðu“ ekki í genginu. Jeg sagði það aldrei, en jeg sagði, að þeir ættu ekki að gera það. Og það ætti að vera auðvelt að sjá um, að þeir gerðu það ekki, þar sem þeir eru undir eftirliti landsstjórnarinnar, svo að hún getur gripið í taumana, ef með þarf. En hafi hann það álit á bönkunum, að þeir sjeu gengisspekulantar, þá er enn hættulegra að skrá gengið, því að það verða altaf bankarnir, sem ráða genginu. Þeir hljóta ávalt að hafa mest ráð á gjaldeyrinum, og þeir hafa mest lánstraustið erlendis. Það breytir engu um þetta, þótt frv. geri ráð fyrir skipun sjerstakrar nefndar, og bankarnir hafi þar engan fulltrúa, því eftir hverju á nefndin að ákveða gengið, nema eftir upplýsingum frá bönkunum? Og hvernig ætti nefndin að halda uppi gengi, sem bankarnir vildu ekki hlíta?

Háttv. frsm. (Ó. P.) sagði, að gengið hlyti að fara eftir framboði ísl. kr. og eftirspurn. Þetta mun nú vera rjett í „teoriunni“, en í „praxis“ koma „spekulationir“ einstakra manna og ýmislegt fleira til greina.

Þá sagði hv. frsm. (Ó. P.), að ekki væri það meiningin að koma hjer á neinni falsgengisskráningu, heldur ætti að skrá hið sanna gengi íslensku krónunnar. Nú er það vitanlega mjög óhentugt, ef þessu væri stranglega framfylgt, að gengið sje skráð nákvæmlega eftir ástandi þess tíma, sem yfir stendur. Með því móti yrði útlendur gjaldeyrir í lægra verði þegar útflutningur væri mestur, og öfugt. Jeg hefi líka altaf heyrt því haldið fram, að það ætti einmitt ekki að skrá gengið eftir þeim tíma, sem yfir standi, heldur reyna að ná sem mestu jafnaðargengi. Hitt hlýtur annars óhjákvæmilega að hafa í för með sjer, að útfluttar vörur verði feldar í verði, en innfluttar hækkaðar. Í raun rjettri verður því um þvingað gengi að ræða, en ekki um sanngengi. En meðan svo er, að farið er í kringum hið raunverulega gengi, þá er þar altaf opin leið „spekulöntunum“.