07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (1509)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Jeg fæ ekki betur sjeð en að háttv. nefnd hafi farið hjer fram með allri varkárni. Það er hjer ekki talað um annað en að stjórninni sje gefin heimild til að setja þessa nefnd, og svo einnig tekið fram, að sú nefnd skuli ekki taka til starfa fyr en stjórnin vill. Það er því auðsætt, að það er einungis undir því komið, hverju fram vindur, hvenær nefndin tekur til starfa. Auk þess er svo skipun manna í nefndina; þar sem Verslunarráðið og Samband íslenskra samvinnufjelaga eiga að tilnefna einn manninn, en hins vegar gæti komið fyrir, að þau geti ekki komið sjer saman um hann, þá verður það að líkindum stjórnin, sem í raun rjettri tiltekur hann. Hún kæmi þá til með að ráða tveim mönnum í nefndinni, svo ekki er undan neinu að kvarta í því efni.

Sumir háttv. þm. hafa barið því við, að þetta geti ekki orðið til neins gagns, en aðrir hafa mælt í móti. Jeg held, að þetta liggi í því, að menn tali sinn um hvað. Það er augljóst, að þessi nefnd getur ekki orðið til neins gagns, þegar miðað er við ástandið, sem nú er. En það er heldur ekki meining nefndarinnar, sem flytur frv. Það er einmitt tekið fram, að margt muni þurfa að hafa gerst áður en nefndin taki til starfa. Er það t. d. tekið fram, að fyrst þurfi að ná samningum á lausaskuldum þeim, sem á oss hvíla erlendis, og auk þess að afla bönkunum viðskiftasambanda og trausts erlendis.

Hv. þm. Ak. (M. K.) tók það fram, að ekki sje nóg að losast úr þeirri skuldakreppu í bili, sem við sjeum í, nefnd á alls ekkert skylt við það að koma þessu í horfið. Hún á einmitt þá fyrst að taka til starfa, þegar þetta er komið í horfið. Nú munu sumir menn ef til vill segja, að þegar svo sje komið, þá verði þessi nefnd þýðingarlaus. En svo er ekki að öllu. Þegar gott skipulag er komið á, þá er einmitt nauðsynlegt að halda því í horfinu. En það er einmitt þetta, sem þessi nefnd ætti að hjálpa til að gera. Það verður ávalt, eins og ástatt er hjer á landi, hætta á því, meðan gengið er ákveðið af bönkunum, sem altaf líta á dægurviðskiftin, að það verði nokkuð brokkgengt, og er því full þörf á slíkri matsnefnd, til þess að hjálpa til að stöðva gengið. En úr því að jeg er að tala um væntanlegt ástand, þegar fjármálin eru komin í lag aftur, skal jeg taka það fram, að allar þjóðir, sem ekki hafa gefið upp alla von um fjárhag sinn, vinna eftir megni að því að ná aftur gullmyntinni, að fá aftur innleysanlega seðla. Sumar eru enn langt frá þessu takmarki, aðrar hafa nærri því náð því, en við virðumst, því miður, eiga enn alllangt í land til þess. En á þessu takmarki megum við aldrei missa sjónir.