12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (1512)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Jakob Möller:

Við 1. umr. þessa máls vakti jeg athygli á því tvennu: að vegna þess, hve verslunarvelta landsins er lítil, gæti oss stafað alveg sjerstök hætta af gengis-„spekulationum“, ef tekið yrði upp að skrá íslenskt gengi, ekki síst vegna þess, hvernig peningaviðskiftum vorum við útlönd væri háttað, og í öðru lagi á því, að svo framarlega sem þeim skilyrðum fyrir framkvæmd gengisskráningar, sem sett eru í greinargerð frv., yrði fullnægt áður en skráning yrði upp tekin, þá væri heldur ekki nein knýjandi þörf fyrir sjerstaka, íslenska gengisskráning.

Að vísu hafa þeir tveir menn úr nefndinni, sem talað hafa í heyranda hljóði um þetta mál, ekki verið á eitt sáttir, hvernig skilja beri þau orð nál., sem hníga að því, hvernig eigi að samningsbinda hinar lausu skuldir. Mjer skildist á hv. frsm. (Ó. P.), að allar lausar skuldir ætti að samningsbinda, eða þá að greiða, en aftur fanst mjer háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) gera ráð fyrir, að 4 milj. þessara skulda verði skildar eftir.

Þessa upphæð tel jeg ekki svo litla, að ef nefndin gengur út frá því, að opinber skráning verði upp tekin áður en henni er komið í lag, þá geti hún gert rugling í reikningnum, því að talsverðar sveiflur má vafalaust gera á gengi íslenskrar krónu með minni upphæðum.

Því er nú haldið fram, að ef opinber gengisskráning kæmist hjer á, þá myndi það greiða mjög fyrir því, að gengi íslenskrar krónu rjetti við, samfara batnandi verslunarjöfnuði. En hjer ber þess að gæta, að hægt er að halda gengi innlends gjaldeyris svo lágu sem vera skal, að minsta kosti meðan útflutningurinn fer ekki langt fram úr innflutningi. Þeir, sem umráð hafa yfir erlendum gjaldeyri, munu í lengstu lög reyna að halda honum í sem hæstu verði; þó að gengið sje skráð opinberlega, geta þeir haft mikil áhrif í þessa átt, með því að bjóða gjaldeyrinn dræmt út, og hægðarleikur að mynda samtök um að halda verðinu uppi. Og meðan engar ráðstafanir eru gerðar til að verka á móti slíkum tilraunum til að okra á erlendum gjaldeyri, getur algerlega brugðið til beggja vona um viðrjetting gengisins.

Því mun nú verða haldið fram, að með skipun gjaldeyrismatsnefndar verði úr þessu bætt, að nefndin hafi eftirlit með þessu.

En þá er þess að gæta, að árangurinn af starfi hennar hlýtur að fara eftir því, hvernig hún er skipuð. Jeg verð nú að líta svo á, að eins og frv. ætlast til að nefndin sje skipuð, þá sje engin trygging fengin fyrir því, að árangurinn verði sá, sem til er ætlast.

Í frv. er svo fyrir mælt, að nefndin skuli skipuð einum manni tilnefndum af Fjelagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Sá nefndarmaður ætli alveg ákveðinna hagsmuna að gæta í nefndinni og gæti aldrei orðið hlutlaus matsmaður. Annan nefndarmann á að skipa eftir till. Verslunarráðsins og Sambands íslenskra samvinnufjelaga í sameiningu. Það er fyrst við þetta að athuga, að það virðist ekkert sjerlega líklegt, að þessi maður yrði nokkurn tíma löglega skipaður, því að mjög óvíst er, að þessir tveir aðiljar gætu komið sjer saman. Ef svo yrði ekki, ætti stjórnin að skipa manninn á eigin spýtur, en gæti þó farið eftir till. annarshvors þessara aðilja, og leiði jeg engum getum að því, að hvors till. þá yrði farið. En þó að þessir tveir aðiljar, Verslunarráðið og Sambandið, gætu komið sjer saman um manninn, þá er þó engin trygging fyrir því, að hann yrði ekki alveg sama sinnis og fulltrúi útgerðarmannanna, því að vitanlega á Verslunarráðið og Samband íslenskra samvinnufjelaga margskonar hagsmuna að gæta, og alveg óvíst, hvað ofan á yrði. Um skipun þriðja mannsins, sem stjórnin á að vera einráð um, er alt óákveðið, en eitt er víst, að í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að neytendur, almenningurinn, sem ekki hefir neinar útflutningsvörur að selja, eigi neinn fulltrúa í nefndinni, og er því nokkur ástæða til að ætla, að nefndinni sje einmitt ætlað að gæta alveg einhliða hagsmuna framleiðendanna.

En loks er þess að geta, að engin trygging er fyrir því, að nefndin geti haft samvinnu við bankana, sem þó vitanlega hljóta altaf að geta ráðið mestu um það, hvert gengið er á hverjum tíma. Þar gæti meira að segja alt orðið hvað upp á móti öðru.

Hv. frsm. (Ó. P.) gat þess, að það hefði vakað fyrir meiri hl. nefndarinnar, að 3. maðurinn yrði skipaður af stjórninni eftir till. bankanna. Um þennan mann er sama að segja og hina fyrri, að fyrst og fremst er engin trygging fyrir því, að bankarnir vilji skipa hann, eða kæmu sjer saman um hann. Það eru meira að segja fremur litlar líkur til þess, því að svo gæti farið, að fulltrúi bankanna yrði áhrifalaus á ákvarðanir nefndarinnar, þó að hins vegar sjeu engin ráð til þess að þröngva bönkunum til að fara eftir þeim ákvörðunum, ef þeir ekki vilja.

Um gengisskráninguna er það að segja, að óþarft er að setja nokkur lög til þess, að hún geti komist hjer á. Ef þörf er á að skrá íslenska krónu, þá getur stjórnin látið gera það í samráði við bankana. En jeg hygg, að æskilegast væri að komast sem lengst hjá slíkri skráningu, og hefi jeg áður fært ástæður fyrir þeirri staðhæfingu. Það liggur í augum uppi, að gengisskráningin ein aflar oss ekki fjár eða lánstrausts. Hún er gagnslaus í því efni. Eina leiðin til þess að losna úr kröggunum er að greiða lausaskuldir landsins, og þær verðum við að greiða, annaðhvort með framleiðslunni eða með föstum lánum. Og jeg er ekki í minsta vafa um, að ef að því ráði væri horfið, þá mundi vera hægt að hækka gengið upp í jafnvægi við danska krónu um næstu áramót. Hærra getur gengi vort varla farið, vegna þess hve viðskifti okkar eru háð Dönum, og þýðir því ekki að skilja íslensku krónuna frá hinni dönsku, meðan þannig er háttað viðskiftum og meðan bankarnir hjer skulda dönskum bönkum stórfje.

Af því jeg sje, að gengisskráning bætir ekki á nokkurn hátt úr fjárhag landsins, og af því jeg hygg, að aðrar leiðir eigi að fara til þess að hækka gengi ísl. krónu eða bæta úr raunverulegu verðfalli hennar, þá get jeg ekki annað en greitt atkv. á móti þessu frv. Hins vegar óttast jeg það, að við opinbera gengisskráning mundu koma fram ýms áhrif á gengið, utan frá og innan, sem ekki yrði auðvelt að ráða við, og að þá gæti svo farið, að mörg ár eða áratugir liðu áður en það kæmist í samt lag aftur. En með samþykt þessa frv. væri þingið beinlínis að hvetja til gengisskráningar og ýta undir stjórnina í því efni. Vil jeg ekki, að slíkt frv. verði hjer samþ., og geri því það að till. minni, að málinu verði vísað til hæstv. stjórnar.