12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (1514)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Frsm. (Ólafur Proppé):

Hvorki um innflutningshöftin eða um gengisskráninguna hefir ræða hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) breytt skoðun minni hið minsta.

Margt bendir ótvírætt til þess, að fullkomin nauðsyn sje á skipun gjaldeyrisnefndar. Hv. þm. (Jak. M.) hefir sjálfur viðurkent, að þörf sje á að laga gengið, og hæstv. fjrh. (Magn. J.) hefir þar tekið í sama streng, enda taldi hann nefndarskipuna til mikilla bóta.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) mintist á skuldirnar, sem þyrfti að binda samningum. Jeg þóttist hafa gert ljósa grein fyrir þeim í framsöguræðu minni. Áætlaði jeg þá 7 miljónir króna, sem Íslandsbanki skuldar erlendis, en síðan munu þær hafa minkað um 1 miljón, og eru þá eftir 6 miljónir í lausaskuldum. Jeg er sannfærður um, að þessar skuldir muni mega binda samningum, ef gerð er gangskör að því.

Við hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) erum sammála um það, að þá, þegar þessar skuldir eru samningsbundnar, muni vera eftir um 4 miljónir króna í lausum skuldum. En eftir því, sem bankafróðir menn hafa sagt mjer, mun fyrir ófriðinn venjulega hafa verið sú upphæð ósamningsbundinna skulda við útlönd. Þessar 4 miljónir ættu því ekki að þurfa að hafa mikil áhrif á gengi vort.

Jeg vil geta þess hjer, að það hefir þegar verið leitað hófanna við 3 danska banka um að kaupa þessar lausu skuldir. En ef til vill er hæstv. stjórn ekki vel um það kunnugt, vegna þess, að sá maður, sem átti að annast þetta, er nú suður á Spáni. En fyrv. stjórn taldi meiri líkur fyrir því, að þetta mundi takast. En vel getur farið svo, að til þessa þurfi ekki að koma, vegna þess, að afurðir eru nú óðum að seljast, og verður því þessi hjálp dönsku bankanna oss ef til vill óþörf.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) fór allmörgum orðum um skipun gjaldeyrismatsnefndarinnar og sagði, að hagsmunir landsmanna rækjust allmikið á að því er gengið snerti. Þetta er rjett, og þess vegna voru sett þau ákvæði í frv., að höfuðaðiljar þessa máls, innflytjendur og útflytjendur, hefðu tillögurjett um tvo nefndarmenn. Því að það er vitanlegt, að innflytjendur hafa hag af háu gengi, en útflytjendur af lágu. Síðan átti stjórnin að skipa þriðja mann, og hann bankafróðan, og eru þá komnir þeir þrír aðiljar, sem gengið kemur mest við.

Sami hv. þm. (Jak. M.) talaði um, að nefndarskipunin væri óframkvæmanleg á þeim grundvelli, sem frv. gerir ráð fyrir. En jeg geri ekki mikið úr þeirri mótbáru. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að bankamir geti ekki komið sjer saman um mann í nefndina. Og ef svo ólíklega skyldi fara, þá skipar stjórnin auðvitað mann í sætið. Sama er að segja um þann mann, er Verslunarráðið og Sambandið útnefna. Ef þau koma sjer ekki saman, þá skipar stjórnin manninn.

Enn fremur sagði þessi sami hv. þm. (Jak. M.), að þessi nefnd mundi litla þýðingu hafa, ef bankamir risu á móti henni. Jeg veit nú satt að segja ekki, á hverju hann byggir þessi ummæli, því fátt er ólíklegra en að bankarnir yrðu á móti nefndinni, því að hún leysir þá úr hinum mesta vanda, sem er að ákveða gengið.

Um óreiðuna, sem nú er á þessu, má til dæmis benda á það, að bankarnir hafa notað aðstöðu sína gagnvart viðskiftamönnum þeim, er þeir hafa lánað, til þess að láta þá skila erl. mynt, sem þeir hafa fengið fyrir vöru sína, með jafnvirði við þá íslensku. Veit jeg, að þetta er svo, og er það þegar stórfje, sem framleiðendur hafa þannig orðið að punga í bankana. Þessu verður endilega að koma í rjett horf, og það sem fyrst.

Það má í þessu sambandi geta þess, að það er alment álit viðskiftafróðra manna, bæði hjer og erlendis., að hjer þýði ekki að spyrna á móti broddunum. Ef öryggi og festa eigi að nást í viðskiftunum, þá verði eitthvert ákveðið, opinbert gengi að vera á gjaldeyrinum, til þess að í viðskiftunum verði haft fast land undir fótum og eitthvað til að byggja á. Jeg skal játa það, að hagur landsins er nú að batna. Útfluttar vörur nema nú meiru en innfluttar, og útlit er fyrir, að gott verði í ári, og þá von um, að verslunarjöfnuður á komandi ári verði okkur stórum í hag. En þetta breytir engu um skráning gengisins. Á meðan jafnvirði við danska krónu er ekki náð verður að hafa eitthvað fast til að miða við. Vel gæti líka svo farið, að íslenska krónan yrði innan skamms hærri en sú danska, og yrði gengisskráningin oss þá í vil. Að vísu er slíkt best í hófi, og ekki væri óskandi, að eins færi hjá oss og Svíum, að hátt gengi yrði til að drepa atvinnuvegina.

Sami háttv. þm. (Jak. M.) taldi það nauðsynlegt, að dönsk og íslensk króna hjeldust í hendur, þar sem aðalviðskifti vor sjeu og verði bundin við Danmörku. Jeg hefi þegar mótmælt þessu, og geri það enn. Þær bankaskuldir, sem vjer erum nú í við Danmörku, eru í raun rjettri aðallega dægurskuldir, — það er skuldir, sem borgaðar verða upp fyrir áramót. Sama er að segja um skuldir annars bankans hjer við England; þær eru líka aðeins dægurskuldir. Þegar nú þannig bæði ríkið, bankarnir og einstakir menn eru farnir að taka lán í Englandi og auka lánstraust sitt þar, þá get jeg ekki sjeð, að neitt sje því til fyrirstöðu, að svo kunni að æxlast, að viðskifti vor færist smám saman frá Danmörku og yfir til Bretlands. En þegar svo er komið, er ekki lengur nein ástæða til að binda sig við dönsku krónuna.

Hv. þm. (Jak. M.) vildi að síðustu vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg verð nú að segja það, að eftir ræðu hans í gærdag finst mjer þetta koma úr hörðustu átt. Jeg tók þá svo eftir, að hann segði henni algerlega upp hollustu í viðskiftamálunum. Ef það því er alvara hans að trúa henni fyrir þessu þýðingarmiklu viðskiftamáli, þá er hann fljótari að skifta um skoðun en jeg hefði trúað honum til.