12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (1517)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Jón Þorláksson:

Jeg hefi ekki getað sannfærst um það af umræðunum, að skipun þessarar nefndar sje nauðsynleg eða til nokkurs gagns. Frv. segir, að nefndin eigi að meta verð á erlendum gjaldeyri. En mjer skilst, að hennar verkefni sje bara að auglýsa það verð, sem er á hverjum tíma á gjaldeyrinum í bönkunum. Finst mjer engin ástæða til að skipa sjerstaka nefnd til þessa.

Það, sem liggur hjer til grundvallar, mun vera það, að landsstjórnin bannaði bönkunum hjer að selja danskar krónur með gengismun. Var þetta í því skyni gert, að reyna að halda íslensku krónunni til jafns við þá dönsku. Það kom síðar á daginn, að þetta var óframkvæmanlegt, og þá fóru bankarnir óátalið að kaupa og selja aðrar gjaldeyristegundir, t. d. sterlingspund, fyrir hærra verð að ísl. krónutali en samsvaraði verðinu í dönskum krónum.

En bannið um sjerstakt gengi á danskri krónu var látið haldast, og held jeg, að það standi enn, í von um, að það geti þraukað svona áfram, þangað til eitthvað hægist um.

Ef þetta bann væri felt úr gildi, gætu bankarnir á hvaða tíma sem er sett verð á danska krónu, eins og þeir gera nú um sterlingspund. Það geta ekki aðrir en bankarnir ákveðið verð á útlendum gjaldeyri. Gerðu þeir það áður með því að festa upp auglýsingu um það í afgreiðslustofum sínum. Skilst mjer, að nefndin hafi ekkert vald yfir bankastjórnunum, svo að hún geti tekið fram fyrir hendur þeim, ef á þyrfti að halda. En þá er augljóst, að verðið á gjaldeyrinum yrði bankaverð. Skráningin fer eingöngu fram á þann hátt, að hlutaðeigandi bankar ákveða hvern dag, hvaða verð skuli vera á krónunni til næsta dags.

Mjer skilst nú, er krafist er skráningar á bankaverði krónunnar, að hver og einn eigi að geta fengið keyptan erlendan gjaldeyri eftir vild; en jeg hygg, að bankarnir muni ekki á næstu árum geta fullnægt eftirspurninni eftir honum, og ekki heldur heppilegt, að þeir þyrftu að afla sjer þess lánstrausts erlendis, sem nægði til þess, að þeir gætu fullnægt öllum kröfum. Það mundi verða til þess, að skuldirnar, sem nú eru að minka, færu aftur vaxandi. Býst jeg við, að bankarnir verði fyrst um sinn að haga sjer eftir því, hve mikill gjaldeyrir er fyrir hendi, fullnægja þeim beiðnum, er þeir telja nauðsynlegastar, en neita hinum.

Jeg sje því ekki nokkurn ágóða við að setja upp svona lagaða stofnun, sem yrði alveg valdalaus og ráðalaus með að koma fram vilja sínum.

Í þessu sambandi skal jeg minnast á meðferð bankanna á gengi erlends gjaldeyris, eins og hún hefir komið fram til þessa.

Bankarnir selja nú sem stendur ekki danskar krónur, heldur aðallega sterlingspund, enda berst mest til þeirra af þeim, en það hefir komist á sú tíska, að þeir selja pundin miklum mun dýrara en þeir kaupa þau. Mismunurinn er aldrei minni en 50 au. á pundi, en oft meiri. Þetta er gróðavegur fyrir bankana, og var ekki svo mikið við það að athuga, því þeir þurftu mikils við til þess að vinna upp þann halla, sem þeir höfðu orðið fyrir. En þetta fyrirkomulag hefir líka aðrar afleiðingar. Það miðar beint til að hækka útlendan gjaldeyri í verði. Bankarnir eiga því ekki lítinn þátt í hækkun á verði erlends gjaldeyris.

Þegar útsöluverð bankanna hefir náð vissu marki, t. d. 27 kr., og þeir hafa gefið 50 aurum til 1 kr. minna fyrir pundið, þá er þetta eftir nokkurn tíma orðið alment vitað og viðurkent verð á pundinu. Seljandinn kýs því heldur að selja öðrum pundið fyrir 27 kr. heldur en bönkunum fyrir 26 kr. Þegar svo hefir gengið um tíma, vilja seljendur ekki lengur láta bankana hafa gjaldeyrinn með hinu lægra verði, og neyðast bankarnir þá til að kaupa hann við sínu upprunalega útsöluverði og selja hann svo aftur dýrara. Svo gengur koll af kolli, og þetta verður einskonar stigi, sem gjaldeyririnn gengur upp eftir.

Jeg skal geta þess, að jeg álít, að hæstv. stjórn eigi ekki að hafa neitt atkvæði um, við hverju verði bankarnir selja þann gjaldeyri, sem þeir hafa orðið að taka til láns. Með hann verða þeir að versla eins og þeim gott þykir. En um þann gjaldeyri, sem er frá landinu sjálfu, verður hæstv. stjórn að setja ákveðnar reglur, svo að eigi verði lagt um of á hann.

Aðferð bankans, að taka fyrst umboðslaun og hækka síðan gjaldeyrinn að auki, getur varla talist heiðarleg. Að minsta kosti er það ekki talið rjettmætt á öðrum sviðum viðskiftalífsins.

Mismunurinn er svo mikill, að ekki tíðkast hjá erlendum bönkum, og nær ekki nokkurri átt, að haldið verði áfram í sama horfið, eftir að bankarnir hafa rjett sig við eftir áföll þau, sem þeir hafa orðið fyrir.

Matið á hlutabrjefum Íslandsbanka sýnir, að hann hefir rjett við, og svo mun einnig vera um Landsbankann.

Jeg skýt því þess vegna til hæstv. stjórnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að taka í taumana í þessu efni, svo að gengisfallið stöðvist, að svo miklu leyti sem það er að kenna þessum orsökum.