09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (1522)

48. mál, landssjóðstekjur reiknaðar í gullkrónum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi, sem aðrir, dáðst að tillögum háttvirtrar sparnaðarnefndar Alþingis. Hún sýnir með þeim, að hún fylgir þeirri alkunnu fjármálastefnu, að hagur ríkisins sje allur undir því kominn, að sem mest sje goldið í ríkissjóð og sem minst sje látið úr honum. Mundi hún telja það best, að ríkið legði allar tekjur sínar í sparisjóðsbók, svo að ríkisbúskapurinn stæði vel.

Hitt mun að vonum, þótt nefndinni þyki landsmenn lítinn rjett eiga til þessa sjóðs, og hún telji eigi eftir þeim, þótt þeir gjaldi töluvert af launum sínum í ríkissjóðinn, svo sem hinar óvinsælu dýrtíðarbætur, eða þótt þeir legði á sig 16 tíma vinnudag, er starfa fyrir ríkið, þótt aðrir vinnuveitendur heimtuðu eigi meira en 8–10 stunda vinnu fyrir hið umsamda kaup. Hefir nefndin að þessu fylgi ýmsra blaða, sem vilja eigi þola það, að verkamenn ríkisins fái aukaborgun fyrir aukavinnu. Og það fer að vonum, að hún telji það ekki nema sjálfsagt, að menn leggi niður atvinnu sína og sýni þá sjálfsafneitun að lifa við vind og snjó, til þess að bjarga landinu. Jeg dáist sem sagt að tillögum háttvirtrar sparnaðarnefndar, er byggjast á þessari heilbrigðu skoðun. En þó undrast jeg, að nefndinni hefir eigi hugkvæmst að láta þetta koma víðar niður. Þess vegna leyfi jeg mjer að leggja fyrir fætur henni þá sparnaðar- og gróðahugsjón, er felst í þessu frv.

Hjer eru ekki fáeinir menn ætlaðir til þess að fylla ríkissjóðinn, heldur alþjóð manna. Og þetta væri enginn smásparnaðar, heldur verulegur gróði. Ef gullverð krónunnar er það, sem jeg geri ráð fyrir í athugasemdunum, þá væri gróðinn töluvert meira en hálf sjötta miljón, miðað við fjárlagafrv., og yrði þá tekjuáætlun 1923 hátt á þrettándu miljón. Og væri samtímis skorið vel niður, þá yrði töluverð upphæð í sparisjóðsbók ríkisins, þegar upp væri staðið. Og með þessum hætti fengi allir leyfi til að leggja sitt fram. Allir skattar yrði hartnær tvöfaldir, og fengi þá hver skattþegn tækifærið, allir tollar slíkt hið sama, og næði þá fórnfýsi hvers manns, sem eitthvað kaupir, að njóta sín. Og á öllum tekjum landssjóðs yrði sami hagnaður, nema þeim, sem goldnar eru í landaurum. Til dæmis væru reiknaðir á sama hátt þeir vextir, er rynni í landssjóð af seðlafúlgu Íslandsbanka, er væri úti fram yfir hámark, og slíkt hið sama það, er landsbankinn á að gjalda í landssjóð. Þó að nú bankarnir yrðu þess vegna að hækka vexti eða gæti lækkað þá seinna en ella, þá væntir mig, að hv. sparnaðarnefnd væri sjálfri sjer og stefnu sinni trú og liti á hag sparisjóðsbókarinnar, en teldi ekki eftir almenningi að borga. Einkum mun hún sjá, að þetta fyrirkomulag alt er þjóðráð til þess að ná sjer niðri á útveginum.

Jeg hefi nefnt þessa nefnd svo oft sakir þess, að frv. er gjöf frá mjer til hennar. En áður en jeg afhendi henni það til fulls vildi jeg mega vara hana við einni hættu, og þó tveim. — Hin fyrri er sú, að einhver kynni að segja, að þessi ráðstöfun kæmi í bága við ýms önnur lög, sem Alþingi hefir sett um þessi efni. En þar til getur nefndin svarað, að sjer vaxi það eigi meira í augum en að Alþingi geri annað árið nafngreindan mann að háskólakennara, og leggi embættið síðan niður næsta ár, í sparnaðarskyni. — Hin síðari hættan er sú, að hjer væri á þingi nógu margir svo grunnhygnir menn, að þeir vildi gera breytingar á frv. í þá átt að láta gullið verða mælikvarða á gjöld landssjóðs líka, og gera auk þess gullverslunina frjálsa, og draga með því úr gengismun, og enn láta bankana kaupa erlendan gjaldeyri af mönnum sama verði sem þeir selja. En þetta mundi verða til þess, að útgerðin græddi meira en ella, og væri þá viðbúið, að krónan hækkaði fljótar í verði, og yrði þetta því til þess að rýra ágóða landssjóðs af þessari ráðstöfun. Við slíku mundi háttv. sparnaðarnefnd mega sjá með viturlegum fortölum sínum og þingríki, en ekki mundi jeg bera gæfu til þess. Fel jeg því nú hv. sparnaðarnefnd forgöngu málsins alla og framhald. Væntir mig, að henni muni endast mannvit og góðgirni til að koma fram þessari gróðaráðstöfun óskemdri, og auk þess að leggja niður miklu fleiri embætti en hún hefir enn þá lagt til að afnema. Skal jeg þar leyfa mjer að benda henni á, að vel mætti komast ódýrt að biskupsembætti, ef það væri fengið í hendur einhverjum meðhjálparanum í Reykjavík, og vafalaust yrði landlæknisembætti miklu kostnaðarminna, ef einhver hjúkrunarkonan tæki það að sjer í hjáverkum, og enn að hæstarjett mætti hreint leggja niður og ætla það dómarastarf stúdentum í lagadeild, því að það hlyti að vera ágæt æfing fyrir þá að fella hæstarjettardóma, og þyrfti auðvitað ekki að launa, fremur en aðrar æfingar.

En til þess nú að sýna, að jeg ann hv. sparnaðarnefnd alls heiðursins, tek jeg þetta frv. aftur, til þess að þeir deildarmenn, sem eru í henni, fái tækifæri til að taka það upp.