25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (1549)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J.M.):

Frv. þetta er lagt fyrir hæstv. Alþingi til þess að uppfylla loforð það, sem stjórnin gaf Spánverjum, eftir að það þótti sýnt, að íslenskur saltfiskur myndi lenda undir refsitoll þar að öðrum kosti.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafði spánska stjórnin í byrjun fyrra árs sagt upp, að því er virðist, öllum verslunarsamningum sínum við önnur ríki. Stóð þessi uppsögn í sambandi við gagngerða breytingu á tolllögum Spánverja, þar sem sú regla er tekin upp að semja við hvert einstakt ríki eftir reglunni „do ut des“, en hætta við samninga, er veita bestu kjör.

Samninga sína endurnýjuðu þeir þó óbreytta til stutts tíma, með því að lengur stóð á undirbúningi hinna nýju tolllaga þeirra en búist var við í upphafi; þannig var t. d. íslensk-danski tollsamningurinn endurnýjaður alls til 20. júní að telja.

16. júní s. l. fjekk utanríkisráðuneytið danska skeyti frá sendiherra sínum á Spáni, sem segir, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að samningur Spánar og Danmerkur yrði endurnýjaður, en Spánverjar vildu ekki endurnýja samninginn við Ísland, nema breytingar yrðu gerðar á áfengisbannlögunum, þannig, að leyfður yrði „frjáls innflutningur“ á spönskum vínum, sem ekki innihjeldu meiri áfengisstyrkleika en 21%. Var þess jafnframt getið, að þetta skilyrði væri sett af „principiellum“ ástæðum, en ekki fjárhagslegum, vegna samninga við önnur ríki, en eins og kunnugt er, höfðu Spánverjar þá um þriggja mánaða skeið átt í tollstríði við Norðmenn, vegna bannlaga þeirra á áfengi, og var tollur á norskum saltfiski á Spáni 72 gullpesetar pr. 100 kg. en 36 gullpesetar á saltfiski þeirra ríkja, er höfðu samninga við Spán.

Jafnframt var því lýst yfir, að ísland gæti fengið að njóta lægri tollsins í þriggja mánaða tíma, ef íslenska stjórnin skuldbyndi sig til að hafa komið fram í þinginu innan 20. sept. s. l. breytingu á aðflutningsbannlögunum, þeirri er fyr segir.

Samningurinn fjekst þó framlengdur um mánaðartíma óbreyttur, til 20. júlí, og á drengileg ákvörðun dönsku stjórnarinnar, um að láta eitt yfir Danmörku og Ísland ganga í samningsmálinu, veigamestan þátt í þessu, því Danir hafa sjerstaklega sterka aðstöðu á Spáni, þar sem útflutningur þeirra þaðan er 14 sinnum meiri en innflutningur þeirra til Spánar.

Voru nú hafnar samningsumleitanir við Spánverja, með aðstoð utanríkisráðuneytisins, og tók danski sendiherrann á Spáni, Bernholt, og Gunnar Egilson, umboðsmaður íslensku stjórnarinnar, þátt í þeim á Spáni. Voru gerðar ítarlegar tilraunir til að fá Spánverja til að falla frá kröfu sinni um takmörkun bannlaganna, en það reyndist árangurslaust.

Með því að íslenska stjórnin áleit og álítur enn, að það mundi stofna íslenska sjávarútveginum í voða, og þar með öllum fjárhag ríkisins, ef hinn hærri tollur yrði lagður á íslenskan saltfisk á Spáni, varð það úr, eins og segir í ástæðunum fyrir frv., að hún lofaði að leggja fyrir Alþingi frv. í þá átt, er hjer er nú fram borið, þótt hún annars telji, að æskilegast væri og heppilegast, að bannlögin hjeldust óbreytt, af haglegum ástæðum og heilbrigðis.

Sem skilyrði af sinni hálfu fyrir framlagning frv. setti íslenska stjórnin, að gefin væri trygging fyrir því, að íslenskur saltfiskur sætti ekki óhagkvæmari kjörum á Spáni en saltfiskur nokkurs annars ríkis, bæði meðan á bráðabirgðasamningi stæði, og með fullnaðarsamningi, og að gera mætti ráðstafanir innanlands gegn misbrúkun víns, sem þó ekki mættu vera svo víðtækar, að þær gerðu takmarkanir á aðflutningsbannlögunum þýðingarlausar.

Með þessu loforði íslensku stjórnarinnar fjekst því framgengt, að íslenskur saltfiskur hefir notið lægsta tolls á Spáni hingað til og nýtur framvegis, ef frv. verður samþ.

Jeg vil ljúka þessum fáu orðum mínum með því, að hver sem verður dómurinn um framkomu mína í máli þessu, þá getur ekki orðið um það deilt, að danska stjórnin í heild, utanríkisráðherrann sjerstaklega, og erindreki Dana á Spáni, Bernhöft sendiherra, eiga hinar bestu þakkir skildar af oss Íslendingum fyrir allar aðgerðir þeirra í málinu.