25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (1554)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer skildist, að heldur hefði kent tortrygni í garð hins umrædda sendimanns landsins í fyrri ræðu hv. 2. þm. Reykv. (J. B). En mjer stendur á sama um þá tortrygni, sem ekki er á rökum bygð. Jeg skil ekki, hvernig stjórnin hefði átt að ganga fram hjá þeim sendimanni, sem var þarna svo að segja á vettvangi. Slíkt hefði lýst vantrausti á manninum. Annars tók jeg nú þetta ekki sem beina ásökun.

Hvað það snertir, að fella eigi frv. og taka það upp síðar, ef þarf, þá er því til að svara, að ekki má bera fram aftur frv., sem felt hefir verið í annarihvorri deildinni. (P. O.: Það má bera það fram í annari mynd.). Já, en það getur eins komið fram, þegar nefndin hefir athugað það. Og jeg held, að óvarlegt sje að ákveða nokkuð að órannsökuðu máli. Þetta er hvort sem er eitt af stærstu málum þingsins.