27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1923

Einar Þorgilsson:

Jeg á brtt. á þskj. 153, VIII. lið, við 13. gr. E, sem fer fram á, að Keflavíkurhreppur fái greiddar kr. 3000 af ríkissjóði upp í byggingarkostnað Vatnsnesvitans. Ástæður fyrir styrkbeiðninni eru þessar:

Keflavíkurhreppsbúum hefir verið tilfinnanlegt, hve lengi þeir hafa mátt búa við það að vera leiðarljóslausir á svæðinu milli Garðskaga og Vatnsleysustrandar, og það því fremur, sem þeir hafa verið og eru enn sjósóknarar í fremstu röð. Þó hefir það aldrei verið þeim eins tilfinnanlegt eins og á síðasta áratug, eftir að farið var að stunda fiskiveiðar á mótorbátum, því jafnframt hefir sjósóknin og langræði aukist, þannig, að sjómenn þar verða að fara frá landi um miðnætti og leita lands í myrkri, eins oft í stríðu sem blíðu veðri. Það er því ekki að furða, þó að þeim mönnum, sem við þau lífskjör eiga að búa, finnist nauðsyn á því að hafa leiðarljós til þess, ekki síst þegar af hafi er komið, að geta áttað sig á landinu, enda virðist það eitt af þeim nauðsynlegu skilyrðum fyrir sjófarendur og viðurkent af öllum, er til sjóferða þekkja.

Síðastliðið sumar hófust Keflvíkingar handa, í samráði við vitamálastjóra landsins, að fá vita bygðan á Vatnsnesi innanvert við Keflavík. Vitamálastjórinn rjeði til, hvar vitinn skyldi byggjast, gerði kostnaðaráætlun og rjeði formi og fyrirkomulagi hans.

Jafnframt því sem vitamálastjórinn skrásetti vitann, trygði hann hreppsbúum rekstrarkostnað af ríkissjóði, ef hreppsbúar gætu komið honum upp í bráðina. Nú er svo komið, að vitinn hefir verið bygður og hefir verið starfræktur í vetur. En til þess að geta bygt hann, hafa Keflavíkurhreppsbúar orðið að taka bráðabirgðalán.

Jafnvel þó vitamálastjórinn gæfi hreppsbúum ekki vissu um, að hann, síst í svipinn, gæti mælt með því við stjórnarráðið, að ríkið legði fram byggingarkostnaðinn, þá hafa hreppsbúar skilið það svo, að þeir mættu vænta styrks af ríkisfje til fyrirtækisins á sínum tíma. Vitabyggingin hefir kostað 8250 krónur, samkvæmt reikningi, sem forstöðunefnd vitabyggingarinnar hefir lagt fram, og lýsir hún jafnframt yfir, að ýmislegt smávegis sje ógert enn, þar á meðal að mála vitann, svo að hann muni kosta sem næst 10000 kr., þegar hann er fullgerður.

Þótt hreppsbúar hafi í svipinn getað komið þessu nauðsynjaverki til framkvæmda, þá kreppir að þeim sem öðrum, er í verklega framkvæmd ráðast nú á þessum fjárhagsþröngu tímum, og fyrir því hafa þeir nú snúið sjer til hins háa Alþingis með styrkbeiðni þá, sem brtt. fer fram á og falið okkur þingmönnum kjördæmisins að fylgja fram styrkbeiðninni, með það fyrir augum, að Alþingi líti svo á, að hjer sje um þá framkvæmd að ræða, sem skylda beri til að styðja framar en margt annað, sem þó að einhverju leyti mætti kallast þarflegt.

Þess ber að gæta, að þó viti þessi komi Keflavíkurhreppsbúum að mestu liði, þá er hann jafnframt leiðarljós fyrir alla þá, sem sjóleið eiga um sunnanverðan Faxaflóa.

Engum blandast hugur um það, að leiðarljós og lendingarbætur eru hvorttveggja í senn til að vernda líf sjómannanna, það sem það nær, og atriði til aukinnar framleiðslu, sem allir, og þá ekki síður þing og stjórn, vilja styðja að. Í þeirri von og vissu, að háttv. deild samþykki þessa sanngjörnu styrkbeiðni, og sýni þar með að hún virði að verðleikum dáð og djörfung þeirra manna, er ráðist hafa í að hrinda af stað jafn hjeraðs- og þjóðþörfu verki sem þetta er, læt jeg máli mínu lokið að sinni.