27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Þorláksson:

Jeg á hjer tvær brtt. á þskj. 157. Hefir sú fyrri þegar verið gerð að umtalsefni af hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.) og háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.). Það er 1. till. á nefndu þskj., breyting við 2. gr. 19. lið fjárlagafrv., um að fella niður bifreiðaskatt úr tekjudálki frv.

Það hefir nú verið gerð grein fyrir þessari brtt. við 2. umr. af mjer og hæstv. atvrh. (Kl.J.), þar sem við höfum tekið fram þau augljósu sannindi, að eigi geti komið til mála, að liður þessi standi sem tekjur, nema því aðeins, að hann sje þá færður hinumegin sem útgjöld, ef reikningurinn á að sýna rjetta niðurstöðu.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) hefir lagt á móti þessari brtt. og færir fram þau rök til stuðnings sínu máli, að gjaldliðir til vegagerða komi á móti þessum tekjulið. Ber hann vegamálastjóra að einhverju leyti fyrir þessu áliti sínu.

Jeg rengi ekki, að háttv. þm. fari hjer með rjett mál, en jeg álít, að tilvitnun hans sýni ekki það, sem hann ætlast til að hún sýni. Hjer er sem sje um fje að ræða, sem samkvæmt gildandi lögum á að nota á sjerstakan, ákveðinn hátt. Þess vegna er rangt að blanda bifreiðaskattinum saman við aðrar fjárupphæðir, sem lagðar eru til vegagerðar eða vegaviðhalds.

Bifreiðaskattinum á samkvæmt bifreiðaskattslögunum að verja til þess að setja slitlag á vegi utan kaupstaða, með því að setja á þá grjótmulningslag og tjörusteypu, eða með því að setja slitlag úr öðru bifreiðahæfu efni. Frá þessu ákvæði verður eigi gengið.

Jeg get eigi kannast við, að fjárupphæð sú, sem stjórnin hefir í frv. sínu ætlað til viðhalds vega, geti nægt, ef af henni á að taka þær 30 þúsundir, sem hún áætlar bifreiðaskattinn, og nota þær lögum samkv.

Enn betur sjest þó þetta, ef áætlunarupphæð stjórnarinnar fyrir 1923 til viðhalds vega er borin saman við þá upphæð, sem veitt var í sama skyni yfirstandandi ár í gildandi fjárlögum, því hún er hærri en áætlunarupphæðin fyrir 1923.

Jeg geri nú máske ráð fyrir því, að svarað verði, að þá megi taka bifreiðaskattinn 1922 og nota hann. En þá er því að svara, að það er til skjalleg sönnun um, að honum á að verja til að bæta veg, sem hvorki er þjóðvegur nje flutningabraut. Er það vegurinn fyrir sunnan Hafnarfjörð, sem á að endurbæta fyrir þetta fje, og fer þá bifreiðaskatturinn í það. (M.G.: Já, að einum þriðja). Jeg veit eigi hve mikið fer til þess, en það er ógætilegt að taka þessar 30 þúsundir af þessari fjárveitingu, því þá verður of lítið eftir af henni til viðhalds þjóðveganna og flutningabrautanna.

Þetta má auðvitað laga, hvort heldur vill með því að setja tilsvarandi gjaldalið í fjárlögin fyrir bifreiðaskattinum, eða þá að fella hann burt tekjumegin.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) sagði, að þessi brtt. mín væri í ósamræmi við þá skoðun mína að taka Landsverslunina inn í fjárlögin. En þetta er ósambærilegt. Sú till. mín var til þess að fyrirbyggja það, að Landsverslunin sækti fje í vasa landsmanna eftirlitslaust af hálfu löggjafarvaldsins. En með bifreiðaskattinn er öðru máli að gegna. Vona jeg að allir háttv. þm. sjái, að það er einungis gert til þess, að landsreikningurinn verði rjettari, því það er lögákveðið, hvernig verja skuli bifreiðaskattinum, og honum verður varið eftir því.

Þá kem jeg að hinni brtt., sem jeg á á þskj. 157, IV. lið, við 14. gr. B II, um námsstyrk stúdenta erlendis. Breytingin, sem jeg fer fram á, er sú, að í stað 8000 komi 30000. Um þessa brtt. er sama að segja og hina, að hún er bara leiðrjetting. Upphæðin, sem stúdentar fá, er ákveðin og er uppbót fyrir Garðstyrkinn, sem þeir mistu 1918. Nú eru komnir 3 árgangar, eða alls 19 menn, sem njóta þessa styrks, og er 4. árgangurinn hefir bæst við, má gera ráð fyrir, að þeir, sem styrksins njóta, verði 25 alls. Styrkupphæðin er ákveðin 1200 kr. og 25X1200=30000 kr. Þetta er því eins og hitt leiðrjetting, sem gerir enga breytingu á landsreikningnum.

Jeg vil segja það, að jeg fyrirverð mig ekki fyrir þessa brtt., því jeg tel þessu fje miklu betur varið en ýmsum upphæðum, sem veittar eru til að halda uppi kenslu innanlands, og get jeg þar tekið sem dæmi heimspekideild háskólans.

Af öðrum brtt., sem hjer liggja fyrir og eru til umr., skal jeg aðeins minnast á eina, tillöguna um að fella niður styrk til iðnskólans. Mestur hluti þessarar upphæðar snertir Reykjavík.

Jeg býst nú við, að háttv. flm. þessarar brtt. hafi eigi verið kunnugt um ástæður þær, sem fyrir hendi eru. Iðnskólinn stendur nú með blóma og hefir á annað hundrað nemendur. Er þar auk ýmsra almennra námsgreina sjerfræðikensla í 6 iðngreinum.

Að skólinn kemst af með svona litla fjárupphæð, stafar af því tvennu: Fyrst að nemendur borga há skólagjöld og annað, að Iðnaðarmannafjelagið bygði skólahúsið fyrir stríð, og hefir auk þess tekjur af því, að annar skóli er haldinn þar á daginn.

Ef ætti að fella skólann niður í 1–2 ár, þá gæti það orðið til þess, að húsinu yrði ráðstafað einhvernveginn öðruvísi, og yrði þá naumast til taks að þeim tíma liðnum, og tel jeg víst, að skólanum yrði þá eigi komið upp aftur, nema fyrir miklu meira fje.

Og samkvæmt þeirri stefnu, sem þingið virðist hafa tekið um ungmennafræðsluna, þar sem það hefir komið til tals að auka hana á kostnað barnafræðslunnar, þá vænti jeg þess, að það vilji ekki leggja niður þá ungmennafræðslu, er iðnskólinn veitir.