01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (1586)

26. mál, heimild til sölu þjóðjarðarinnar Sauðár

Jón Sigurðsson:

Jeg þakka hv. nefnd fyrir það, að hún hefir tjáð sig fylgjandi þessu máli, en lengra nær þakklæti mitt ekki. Fyrir brtt. kann jeg henni engar þakkir. Ástæðunum til hennar hefir þegar verið lýst, og er þar helst fært fram, að rjettur leiguliða sje ekki nægilega trygður, ef Sauðárkrókshreppur eignist jörðina. Þessa staðhæfingu byggir nefndin á því, að altaf sje hægt að fá útbyggingarsök á ábúanda, sem búið hefir á jörð í nálega 40 ár. Nú skiftir það engu máli í þessu sambandi, hvernig hann hefir setið jörðina áður en eigendaskifti verða, heldur hvernig hann muni sitja hana framvegis. Um það má vitanlega ýmsu spá, en mjer er kunnugt um, að hreppsnefndin er manninum velviljuð og mun alls ekki reyna að þrengja kosti hans.

Þá var önnur ástæðan sú, að ábúandi hefði boðist til að standa upp af jörðinni fyrir ákveðið gjald. Það mun ekki hafa verið gjaldið, sem þótti svo óaðgengilegt, heldur aðrar kröfur, er hann gerði, svo sem ákveðnar nytjar til langs tíma. Og nú getur svo farið, að hann telji sig ekki skyldan til að standa við boðið, og gæti því sett afarkosti, ef honum sýndist.

Jeg vil leyfa mjer að benda hv. deild á það, hvers vegna Sauðárkróki er svo nauðsynlegt að ná eignarhaldi á jörðinni. Það er bráðnauðsynlegt að gera ýmsar umbætur á jörðinni, gera girðingar til varnar ágangi afrjettarpenings, og til þess að halda búsmala í heimahögum, og áveitu, sem sennilegt er að mjög mundi bæta kúahaga, og af því veitir ekki. En ef hreppurinn eignast ekki jörðina, má búast við, að þessar umbætur dragist, og það ef til vill í ein 20 ár. En hreppurinn getur látið gera þessar umbætur, þótt ábúandi sje kyr, fái hann eignarumráð jarðarinnar, því að oftast mun hægt að komast að samkomulagi við ábúanda um, að eigandi megi gera umbætur á jörð sinni; að minsta kosti þekki jeg ekkert dæmi til hins gagnstæða, og þá síst, þegar umbæturnar eru ábúanda til hagræðis, eins og hjer mundi verða. Fái hreppurinn aftur á móti ekki eignarhald á jörðinni, er hreppsnefndin óviðkomandi aðili, sem ekkert getur gert í þessu efni.

Jeg vona því, að háttv. deild líti á málið með sanngirni og bæti ekki þessu skilyrði við.