01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1588)

26. mál, heimild til sölu þjóðjarðarinnar Sauðár

Fjármálaráðherra (M. G.) Jeg sje ekki betur en alveg sje ástæðulaust að fara að bæta við þessu nýja skilyrði, sem nefndin leggur til. Rjettur ábúanda getur ekki orðið skertur, þótt eigandaskifti verði. Og það er alls ekki tilgangurinn að hrekja manninn burt af jörðinni. En kauptúnið langar til að fá eignarráð yfir jörðinni, til þess að geta bætt hana, eins og hv. samþingismaður minn (J. S.) gat um.

Ef hv. þm. trúa því, að illa megi fara með manninn, þá má benda þeim á, að skilyrði nefndarinnar bætir síður en svo úr fyrir honum. Svo stendur á, að umráðamaður jarðarinnar er einmitt hreppstjórinn á Sauðárkróki, og gæti hann því alveg eins leitast við að finna sakir á manninn, þótt brtt. nefndarinnar yrði samþykt. Hún gerir hag hans engu tryggari, nema síður sje. En mjer er alveg óhætt að lýsa yfir því, að það er alls ekki tilgangur hreppsins að þröngva kosti hans.