04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (1599)

43. mál, leggja jarðirnar Árbæ og Ártún í Mosfellshreppi og Breiðholt, Bústaði og Eiði í Seltjarnarneshreppi

Flm. (Jakob Möller):

Mjer finst hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) vera nokkuð veiðibráður, er hann vill ekki, að þetta mál komi í nefnd.

Í fyrsta lagi neita jeg því, að leita þurfi samþykkis sýslunefnda eða hreppsnefnda í máli sem þessu, þar sem aðeins er að ræða um það, að stækka lögsagnarumdæmi Reykjavíkur með eign bæjarins, sem hann nauðsynlega þarf til afnota.

Jeg hygg, að það sje ekki venja að leita álits sveitar- nje sýslufjelaga, er svo stendur á.

Í öðru lagi vill nú svo vel til, að vel má verða við þessu, þótt málið fari í nefnd, þar sem aðiljar eru svo nærri, að harla auðvelt er að ná tali af þeim. Jeg tel því gersamlega ástæðulaust af hv. þm. (E. Þ.) að leggjast á móti því, að frv. verði vísað til nefndar, og vona fastlega, að deildin vísi því áfram.