27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1923

Eiríkur Einarsson:

Jeg þarf ekki að lengja umr. mikið, því það eru aðeins fáar brtt., sem jeg þarf að gera aths. við. Það er þá fyrst II. brtt. á þskj. 157, við 13. gr. C. 2, sem jeg vildi drepa lítið eitt á. Jeg get ekki látið því ómótmælt, að ástæða sje til að áskilja sjerstaka upphæð til nokkurra vissra bátaferða. Þetta má ekki skilja svo, að jeg sje því mótfallinn, að styrkur sje veittur til þessara Grímseyjar-bátaferða, heldur hinu, að þingið taki það að sjer að ráðstafa þessum styrk að nokkru. leyti. Mjer finst það og meiningarlaust að veita einni eða tveimur bátaferðum nokkurskonar forgang með því að tilgreina þær. Með því að tilgreina ferðirnar til Grímseyjar sjerstaklega, ætti það að vera meiningin að tryggja það, að þær leggist eigi niður, en þó svo væri, þá er óþarft að viðhafa þessa aðferð. Ætti að vera óhætt að treysta landsstjórninni til að sjá um, að þeir, sem þar eiga hlut að máli, verði ekki afskiftir. Því hefir verið haldið fram í því sambandi, að vafi gæti leikið á því, hvort Grímseyjarsundið geti heyrt undir orð þau, sem talin eru upp í fjárlagagrein þeirri, sem um þetta fjallar. En jeg býst nú við, að þótt þar sje talað um firði og flóa, en ekki minst á sund, að stjórnin sje ekki svo þröngsýn að láta orðalagið villa sjer sýn. Þykist jeg þeirra hluta vegna öruggur um, að eitthvað af þeim 100 þúsund krónum, sem veittar verða til þessara samgangna, renni til þess að ljetta undir með flutningum hjer til kauptúna austanfjalls, þótt sjávarsvæðið, er þar kemur til greina, sje opið haf, og heyri því ekki undir beint orðalag greinarinnar. Finst mjer þessi ákvörðun yfirleitt algerlega óþörf, og ætti að fella hana burt. Vona jeg, að háttv. þingdm. taki í sama strenginn með það og jeg, að ekki beri að skýra lögin eða skilja svo þröngt.

Annars tel jeg það mjög óviðfeldið og óeðlilegt að lauma þannig inn sjerstökum ákvæðum eða forrjettindum, og verða slíkar handahófsráðstafanir sjaldan til neins góðs, enda eiga þær litlum vinsældum að fagna.

Þá skal jeg í þessu sambandi minnast á brtt. frá háttv. þm. Ísaf. (J.A.J.), sem miðar að því að fækka strandferðum og færa styrkinn til þeirra niður um 100 þúsund krónur, eða helming. Jeg vil ekki beint mæla með brtt. þessari, en vil þó minna á það, að ef það er tilætlunin að fara að klípa úr því, sem veitt er til samgöngubóta á landi, svo sem nú virðist efst á baugi, þá er full ástæða til að gæta fullkomins samræmis í þessum úrdrætti milli lands og sjávar, því það verður að gæta þess, að heildin en ekki einstöku menn eða sveitir komi til að bera á herðum sjer þá þungu bagga, sem þessir erfiðu tímar binda mönnum á herðar, svo að hvort sem vel gengur eða illa, þá komi í rjettum hlutföllum niður á landsmönnum bæði hlunnindi og kvaðir. Menn segja og fullyrða, að ekki sje rjett að leggja þennan eða hinn vegarspotta niður, en öðru máli sje að gegna um sjóferðir. Það getur verið, að öðruvísi standi á um þær, en hins vegar getur það verið álitamál, hvort einni strandferðinni á að vera fleira eða færra og hvort sleppa á þessari eða hinni. Auk þess er þess að gæta, að þessum strandferðum er haldið uppi svo óhaganlega og af því handahófi, að auk þess, sem komið gæti til greina að draga úr þeim í sparnaðarskyni, er spurning, hvort nokkurt óhagræði að öðru leyti væri að því, þótt takmörkun yrði.

Vil jeg þá fám orðum minnast á þær tillögur, er síðast hafa komið fram um símalagningar, og láta þess getið, að mjer finst þessi aðferð, að vera að skapa einum eða tveim símalínum forrjettindi, ekki heppileg. Ef háttv. Alþingi í hvert skifti ákveður, hvaða línur skuli ganga fyrir, er þar með loku skotið fyrir, að álit sjerfræðinga og mat eftir eðlilegri þörf komi til greina.

Úr því að símalínurnar voru feldar úr fjárlögunum fyrir 1923, ætti að vera þögn um þær, því ef einn biður, biðja fleiri, og mjög vafasamt, hvort sá frekasti á bestan rjett. En nú koma þær aðeins öfuga boðleið. (H.K.: Var ekki rætt við 2. umr.). Málið hefir ekki verið rætt á rjettum grundvelli. Jeg segi þetta ekki af því að jeg álíti Króksfjarðarlínuna óþarfa, en þetta er handahófsaðferð og ekki viðunandi. Símalögin eru grundvöllurinn, sem fara á eftir í þessu efni. Í því sambandi skal jeg geta þess, að jeg man ekki betur en að þar sje gert ráð fyrir símalínu austur um sveitir. Jeg ætla mjer ekki að fara út í neina hreppapólitík eða hampa þessu, en skal aðeins taka fram, að landssímastjórinn telur þessa línu með allranauðsynlegustu og sjálfsögðustu línunum, og jeg hefi orð hans sjálfs fyrir, að hún myndi áreiðanlega borga sig, að minsta kosti nokkur hluti hennar. Þessi atriði eiga líka að koma til greina þegar ákveðið er, hvar eigi að leggja símalínur.

Jeg vil því mæla á móti því, að þingið sje sjerstaklega að veita einni eða tveimur væntanlegum símalínum forgangsmeðmæli; slíkt er handahófsverk og kák og getur hæglega stofnað til versta misrjettis.