14.03.1922
Neðri deild: 22. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

49. mál, sérleyfi til vatnavirkjunar

Flm. (Bjarni Jónsson):

Þetta frv. er fram borið í því skyni, að hjálpa stjórninni til að tregðast með að veita sjerleyfi til vatnavirkjunar, þar til þingið hefir gengið frá vatnalöggjöfinni. Eftir þeim lögum, sem nú eru til, er hægt að veita sjerleyfi eftir vild. En sje þetta borið undir þingið, þá er það ekki hægt umfram það, sem þingið ákveður. Þetta er því aðeins gert í varnaðarskyni, og mest sökum þess að í ráði er að stytta þingtímann nú eins mikið og unt er, og mun þá ekki vinnast tími til að fullgera vatnalögin, sem eru deilumál og taka því langan tíma.

Verði þetta frv. nú samþykt, þá er þar með fengin trygging fyrir, að ekki verða veitt sjerleyfi til stærri virkjunar en hjer er ákveðið, og stjórninni auk þess gert hægra fyrir að neita slíkum beiðnum.

Leyfi jeg mjer svo, ef frv. þetta nær samþykki deildarinnar, að leggja það til, að því verði vísað til fossanefndar.