14.03.1922
Neðri deild: 22. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (1605)

49. mál, sérleyfi til vatnavirkjunar

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg man, að það var stundum sagt áður, þegar jeg átti sæti hjer á Alþingi, um ýms frv., sem fram voru þá borin, að þau væru bæði gagnslaus og meinlaus. Jeg skal játa, að þetta frv., sem nú er hjer á ferðinni, er gagnslaust með öllu, en þar með er ekki sagt, að það sje alveg meinlaust, þótt það virðist svo í fljótu bragði. Frv. miðar nefnilega til þess að slá því föstu, að ríkið eigi alt fossaflið í landinu. En um það er, eins og menn vita, mikill ágreiningur, og hefir einmitt valdið því, að fossanefndin milli þinga klofnaði, og auk þess 2 nefndir aðrar á undanförnum þingum. Það er auðvitað, að Alþingi verður að segja álit sitt og skoðun um þetta atriði, en hitt er ekki rjett, að gera það í sambandi við þetta frv. En það er og auðvitað satt, að þótt þingið taki nú eða síðar fasta afstöðu til þessa máls í þá átt, að ríkið eigi alla vatnsorku í landinu, þá er það að engu leyti bindandi, því hafi einstaklingurinn áður átt vatnsorkuna í sínu landi, þá er ekki hægt að svifta hann eign sinni nema þá með eignarnámslögum, ef skilyrði þess eru fyrir hendi. Og þó að það nú yrði ofan á í þinginu, að ríkið eigi vatnsorkuna, þá er það engum efa bundið að við þann úrskurð verður eigi unað, heldur verður því skotið til dómstólanna. Undir öllum kringumstæðum tel jeg það rangt að vekja málið upp á þennan hátt og taka það til úrskurðar þingsins, fyr en álit vatnamálanefndar liggur fyrir. Jeg lít svo á, að hver maður eigi vatn fyrir sínu landi, og þurfi hann ekki að sækja um sjerleyfi til stjórnarinnar til þess eins að virkja það. Öðru máli væri að gegna, ef veg þyrfti að leggja eða síma, til að koma þessu í framkvæmd. Þá þarf að sækja um leyfi til stjórnarinnar. Þetta frv. er því ekki rjett orðað. Ef það vildi leggja tálmanir í veg vatnavirkjunar, þá hefði það átt að koma með einhver ákvæði þessu viðvíkjandi.

Annars þykir mjer undarlegt, að þetta frv. skuli einmitt vera fram borið af þessum mönnum, en ekki frá vatnamálanefndinni. Lít jeg því svo á, að því hljóti að vera stefnt til mín, af ótta við, að jeg myndi vera fús á að veita sjerleyfi til vatnavirkjunar, ef það stæði í valdi stjórnarinnar að veita það. En jeg skal nú lýsa yfir því, að ef farið verður fram á við stjórnina að veita sjerleyfi til vatnavirkjunar, sem nemur meiru en 1000 eðlishestorkum og hún að lögum hefði leyfi til að veita, þá dytti mjer aldrei í hug að misbeita valdi mínu svo, að veita slíkt leyfi. Því jeg tel með öllu rangt, að stjórnin taki sjer slíkt vald í máli, sem einmitt liggur undir aðgerðum þingsins.

Jeg vona svo, að hv. flm. frv. (B. J.) verði mjer samdóma um, að frv. þetta sje með öllu óþarft. — Jeg gæti annars spurt, hvers vegna flm. hafa bundið sig við 1000 eðlishestorkur, hvort það stafar af því, að þeir eigi von á, að einhver sjerstök beiðni til sjerleyfis sje á leiðinni, eða bara sökum þess, að 1000 er svo áferðarfalleg tala. (B. J.: Þessi tala er hámarkið. Fram úr henni má, eftir frv., ekki fara). Það kemur heldur ekki til, að sjerleyfi verði einu sinni veitt til svo mikillar virkjunar.

Jeg vil að lokum vekja athygli háttv. deildar á því, að í ástæðunum fyrir þessu frv. stendur, að vatnamálið muni ekki útkljáð á þessu þingi. En þá verð jeg að benda á það, að þetta er nú 3. þingið, sem hefir þetta mál til meðferðar, — og einhvern tíma finst mjer þó að það ætti að verða tekið alvarlega til aðgerða og útkljáð. Ætti það því fremur að takast, sem fá mál í þinginu hafa fengið svo ítarlegan og góðan undirbúning sem þetta.