08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (1619)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Minni hl. viðskiftamálanefndar ber fram þetta frv. eftir samráði við hæstv. stjórn. Hefði mátt vænta þess, að fleiri háttv. nefndarmenn hefðu aðhylst frv., vegna þess, að nefndin mun að mestu sammála um það, að eitthvað þurfi þó að gera til þess að bæta úr þeim viðskiftaerfiðleikum, sem þjóðin nú er stödd í. En meiri hl. nefndarinnar hefir heldur kosið að fara aðra leið að þessu marki, og þess vegna kom hann hjer fram í gær með örlítið frv. um mat á íslenskri krónu, meinlítið og, að því er best verður sjeð, fremur gagnslítið. En vel má vera, að eitthvað meira sje í vændum frá hv. meiri hl., þótt mjer sje ekki um það kunnugt. En hv. meiri hl. hefir nú tekið upp það bjargráð, sem ekki hefir þekst hjer áður. Hann hefir komið hjer fram með sjerstakt nál., á þskj. 206, um frv. okkar minni hl. manna, og gengst gegn því. Skal jeg ekki ræða um það sjerstaklega að svo komnu, en minnist þess líklega síðar.

Þegar frv. eins og þetta kemur fram, þá er óhjákvæmilegt að gera sjer grein fyrir nokkrum spurningum í sambandi við það, og hversu þeim skuli svara.

Fyrsta spurningin er, hvort þörf sje á þeim ráðstöfunum, sem frv. heimilar. Þeirri spurningu munu sumir vafalaust svara játandi, en aðrir neitandi. En hvort sem svarið verður, þá er það jafnvíst, að viðskiftaástand vort þarf að batna, erlendu skuldirnar að greiðast og gengið að hefjast. En sje þetta viðurkent, þá sýnist ótvírætt vera þörf á svipuðum ráðstöfunum og frv. stefnir að. Það er að vísu rjett, að gott árferði til lands og sjávar getur mikið bætt úr erfiðleikum þjóðarinnar, en ef það góða árferði bregst og ekkert er aðhafst, þá hljóta afleiðingar aðgerðaleysisins að verða illar, þegar fram í sækir, því það efar enginn, að ef lággengið helst, þá koma afleiðingar þess fram á þann veg, sem vjer síst mundum kjósa, og þannig, að efnalegt jafnvægi mundi raskast milli borgaranna í landinu. Lággengið getur að vísu auðgað stöku menn, en aðeins á þann veg, að aðrir þokist að sama skapi nær örbirgð og efnalegu ósjálfstæði. Yfirleitt geta áhrif þess aldrei verið holl eða heillavænleg.

Vjer flytjendur frv. úr viðskiftanefnd höfum fyrir okkar leyti svarað þessari fyrstu spurningu játandi með frv., og í raun og veru annari spurningu líka, sem sje þeirri, hvort rjett sje að grípa fram í rás viðburðanna í þessu efni með opinberri ráðstöfun.

Margir líta að vísu svo á, að sparsemdarhugur þjóðarinnar og ástundun hennar og elja við skyldustörfin og að auka framleiðsluna muni bjarga þessu öllu við. Virðist þetta vera hreint og beint trúaratriði fyrir hv. meiri hl. viðskiftan. En jeg get ekki neitað því, að mjer finst þetta nálgast allmikið oftrú; að minsta kosti gefur Reykjavíkurlífið, eins og það kemur mjer fyrir sjónir, lítið tilefni til þeirrar trúar. Þúsundir vinnufærra karla og kvenna streyma hjer daglega um göturnar, án þess að nokkurt vinnusnið sjáist á þeim, þyrpist að skemtistöðum, eins og kríur, og hvar sem einhverja tilbreytingu er að sjá eða heyra. Það liggur næst að halda, að markmið þessa fjölda sje það eitt, að fullnægja skemtanafýsn sinni og glysgirni, ef þá eigi öðrum enn lakari hvötum. Sömu söguna má segja úr öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins, með þeim einum mun, sem leiðir af því, að fólk er þar færra. Jeg hygg því, að vonin um það, að þessi sparnaðareiginleiki og iðjusemi fólksins bjargi oss, sje harla stopul. Iðjusemi og nægjusemi er ef til vill hægt að tala um í sveitunum og hjá tiltölulega fáum starfandi mönnum í bæjum og kauptúnum, en það nær engri átt að tala um þessa eiginleika sem þjóðardygðir; þvert á móti. Framleiðslan til lands og sjávar hvílir á lúnum höndum fárra manna, sem í góðu árferði geta hamlað upp á móti eyðslu hinna, en sjálfir verða að bita á beiskjunni, þegar í ári versnar, af því að eyðslu þeirra iðjulausu og áhugalausu verða engin takmörk sett.

Jeg kem þá að þeirri spurningu, hvort takmarkinu, að fá verslunarjöfnuð og laga gengið, verði náð með þeim ráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir, og hvort aðrar leiðir að þessu marki mundu verða betri eða heppilegri. Frá sjónarmiði minni hl. er ekki um ágreining að ræða að því er fyrra atriði spurningarinnar snertir, en meiri hl. telur ráðstafanir frv. lítils verðar. Þó hygg jeg, að enginn geti með sanngirni neitað því, að ef þjóðin færði þá sjálfsfórn, hvort heldur væri af fúsum vilja eða eftir lagaboði, að neita sjer árlangt um allrar innfluttrar vöru, og það getur hún sjer að meinalausu, þá mundi sparast svo mikið fje af andvirði framleiðslunnar, að nægði til að greiða þær lausu og reikandi skuldir, sem nú þrýsta niður gengi krónu vorrar, og þótt þær skuldir sjeu ekki eina orsökin að gengisrýmuninni, þá mundi þó gengið lagast af þessu tiltölulega fljótt.

Um síðari lið spurningarinnar er nokkuð öðru máli að gegna, því sitt sýnist hverjum um leiðirnar. Margir telja sjálfsögðustu leiðina að albanna þegar í stað með upptalningu allan þann varning, sem hægt er án að vera, aðrir vilja aðeins albanna nokkrar óþörfustu vörutegundirnar, en takmarka innflutning annara tegunda; enn aðrir vilja fresta öllum viðskiftahöftum að sinni, en taka þau upp síðar, og haga þeim þá eftir þörfinni og árferðinu. Allar styðjast aðferðir þessar við nokkur rök, en allar hafa þær líka sína annmarka, og versti annmarkinn er og verður jafnan mótþrói og viðsjár þeirra, sem fjárvonir eiga í auknum innflutningi, og hinna, sem geta gert innflutningshöftin sjer að fjeþúfu.

Þessir annmarkar valda því, að höftunum verður aðeins að beita eftir brýnni þörf, og þau verður að hafa svo víðtæk, að fult lið megi að þeim verða. Viðskiftahöft einskorðuð og ákveðin af þinginu verða að miðast við ástandið á þeirri stundu, sem þau eru sett, og geta því eðlilega átt illa við, þegar ástæður breytast. — Fyrir því höfum vjer flm. frv. álitið rjettast að fá stjórninni heimild til að ákveða höftin, víðtæk eða langæ, nú þegar, eða síðar á árinu, eftir því sem þörfin og horfurnar gefa tilefni til.

Því hefir verið barið við, að einstakir menn geti haft innflutningshöftin að fjeþúfu. Það er satt, að fram hjá þessum örðugleikum verður ekki algerlega komist. En þeir mega þó ekki verða þess valdandi, að menn fyrir þá eingöngu leggi árar í bát.

Vjer flm. álítum, að höftin, ef til kemur, þurfi að ná til hvorttveggja, innflutningsbanns og eftirlits með útlendum gjaldeyri, ef tilganginum skal ná, viðskiftajöfnuði út á við og gengisjöfnuði.

Ýmsum fleiri spurningum mætti varpa fram, svo sem þeirri, hvort stjórninni væri trúandi til að geta farið með þær heimildir, sem frv. vill veita henni, svo að gagni komi. Þvílíkum spurningum hefi jeg heyrt varpað fram, en jeg verð að segja, að mjer þykja þær nokkuð nærgöngular. Að vísu býst jeg ekki við, að stjórnin gæti beitt þeim öllum til hæfis — slíkt væri ekki á menskra manna færi — en jeg treysti því, að hún hafi þá glöggskygni, einbeittleik og nærgætni til að bera, sem fullkomlega tryggir oss það, að heimildunum verði ekki misbeitt, enda er þetta trúnaðarstarf stjórnarinnar engu ábyrgðarmeira en margt annað, sem henni er falið, og má í þessu sambandi minna á lögin 8. mars 1920, sem heimila henni að miklu leyti sömu ráðstafanir og þetta frv. vill heimila.

Jeg veit að vísu, að ýmsum er vel sem vart, þótt lággengið haldist og dýrtíðin. Það er svo sem engum blöðum um það að fletta, að lággengið auðgar einstöku menn og jafnvel flokka manna, en á það ber ekki að líta. Heldur ekki má ráða gróðavon útgerðarmanna af lággengi fram til þess, að ársframleiðslan er seld. Það væri að láta öðrum blæða þeirra vegna á meðan. Lággengið er eitur í beinum þjóðarinnar og á að hverfa sem fljótast, eins þótt einhverjir kunni að missa við það gróðavon.

Annars verð jeg að segja það, að kenning sú, sem hjer hefir heyrst, um hættu af hastarlegri verðsveiflu krónunnar upp á við, er ekki margra fiska virði. Slík verðsveifla mundi í rauninni aðeins kollvarpa nokkrum rjettlágum gróðavonum fárra manna, en um slíka verðsveiflu er það annars að segja, að hún er nær óhugsanleg sem afleiðing hastarlegra viðskiftahafta, vegna þess, að orsakir lággengisins liggja ekki einvörðungu í viðskiftahallanum út á við, heldur jafnframt á öðrum sviðum, svo sem af of mikilli umferð ótryggilegra brjefpeninga, sem seðlabanki landsins illu heilli hefir sent á markaðinn.

Algeng mótbára gegn viðskiftahöftum er það, að þau skapi dýrtíð meðan þau standa á þeim varningi, sem bannaður er eða takmarkaður. Þessi mótbára hefir við nokkur rök að styðjast, þótt ekki megi alla áherslu á hana leggja.

Reynslan hefir sýnt, að verðlagsnefndir og lögskipað hámarksverð hefir eigi nægt til að verja almenning fyrir ásælni seljenda. En þetta á ekki og þarf ekki að koma mjög að sök, þegar látinn er frjáls allur nauðsynjavarningur, og kaupendum er neyðarlaust að neita sjer um dýrtíðarvarning. Þennan agnúa viðskiftahaftanna verður að skoða eins og lítilfjörlegan sársauka, sem óumflýjanlegur er meðan verið er að lækna illkynjaða meinsemd eða afstýra miklu alvarlegri hættu.

Um skipun innflutningsnefndar og gjaldeyrisnefndar eru skoðanir nokkuð skiftar, meðal annars um það, hve margir og hverjir eiga að skipa hana, og hvernig hún eigi að beita eftirliti sínu, einkum á fjarlægum stöðum.

Þetta er alt fyrirkomulagsatriði, og varða minna en aðalmálið. En vjer álítum engan ávinning að fjölmenni í þessari nefnd, og teljum sjálfsagt, að stjórnin fái henni til fulltingis í starfinu aðstoð lögreglunnar á hverjum stað.

Með lánsheimild þeirri til handa stjórninni, sem 3. gr. getur, vildum vjer aðeins gera skýrt, að lántökuheimild síðasta þings vegna viðskiftakreppunnar ætti að takmarkast við þörf ríkissjóðs eins eftirleiðis, og þess vegna leggjum vjer til, að lög nr. 76, 27. júní 1921, falli úr gildi.

Það er varla ástæða fyrir mig að minnast mörgum orðum á nefndarálit meiri hlutans. En þó get jeg ekki annað en vakið athygli hv. þdm. á því, að þar virðast vera settar fram fullyrðingar, sem ekki eru alls kostar sannleikanum samkvæmar. Kemur þar ljóslega fram, að meiri hluti nefndarinnar hyggur og byggir á því, að ósjálfráð atvik muni færa alt viðskiftaástandið í lag. Telur hann einkum þrent, sem muni af sjálfu sjer bæta úr kreppunni. Í fyrsta lagi sparnaðarviðleitni hjá þjóðinni, í öðru lagi kaupgetuleysi og í þriðja lagi lækkandi verðlag á vörum. Um þessa 3 liði segir meiri hluti nefndarinnar, að þeir sjeu eðlileg og heilbrigð lausn á vandamálinu. En jeg efa stórlega, að hjer hafi meiri hluti nefndarinnar við rök að styðjast.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að sparnaðarviðleitni manna yfirleitt er meira í orði en á borði; má þar minna á jólaútsöluna síðustu o. fl. Og langt má kaupgetuleysið ganga, ef það á að verða til þess að bæta úr vandræðunum. Líst mjer það læknismeðal einna fráleitast, enda er kaupgetuleysi rjett skilið sama og örbirgð. Verðlækkunin á útlenda markaðinum nær heldur ekki til almennings hjer, vegna gengismunarins. En það er einmitt það, sem verið er að keppa eftir með innflutningshöftunum, að laga gengið og gera þannig almenning hluttakandi í verðlækkun þeirri, sem orðin er á erlendum markaði, en lággengið nú bannar oss að njóta.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar eru dregnar fram ýmsar tölur, sem eiga að sanna, að alt muni lagast með hægu móti og án opinberra ráðstafana. Út í þessa reikninga skal jeg ekki fara, en vil aðeins benda á, að sumar af þessum tölum eru hreinar og beinar ágiskanir. Og líkurnar virðast benda til, að hið raunverulega ástand sje mun verra en álitið sýnir. Mun það innan skamms koma betur í ljós. Samningsbundnar skuldir hafa og áhrif á gengið, þótt ekki komi það eins ljóslega fram eins og um þær lausu og kræfu. Það er heldur ekki úr vegi að minna á það, að traustið í nágrannalöndunum til bankanna hjer er ekki meira en svo, að nýlega ráðstafaði banki nokkur í Englandi inneign sinni hjá „firma“ hjer í Reykjavík á hendur „privat“-manni, sökum þess, að hann þorði ekki að láta það ganga gegnum bankana hjer. Þvílík dæmi, þótt slæm sjeu, tala miklu skýrar en ágiskaðar tölur í nál. meiri hl., eins þótt hjer sje vitanlega að ræða um ókunnugleika enska bankans.

Jeg vænti þess fastlega, að þeir, sem hlyntir eru máli þessu og hafa líkan skilning á því og minni hl. nefndarinnar, láti ekki smávægileg ágreiningsatriði verða málinu að fótakefli eða til tafar, svo að um það þurfi að bítast fram á sumar. Get jeg svo látið staðar numið að sinni. Býst jeg við, að jeg síðar þurfi að taka til máls.