27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. Bjarni Jónsson):

Einn hv. þm. (J.A.J.) hefir beðið mig að vera stuttorðan, en þar eð jeg hefi ekki haldið nema eina ræðu, og hana stutta, þykir mjer það til nokkuð mikils mælst, einkum þegar sami háttv. þm. er nýkominn með till. um 100 þús. kr. bitling handa sínu kjördæmi. Hann heldur því fram, að fjárveitinganefnd í fyrra hafi lofað styrk til að byggja þetta sjúkrahús. Mun það vera rjett, en það var ekki ætlast til þess fyr en byggingin gæti orðið ódýrari. En eins og háttv. þm. veit, er enn þá ekki komið neitt jafnvægi á í því efni. Að minsta kosti ætti honum sem bankastjóra að vera það kunnugt og reynsla síðasta árs átt að færa honum heim sanninn um, að ekki væri vert að hrapa að hlutunum.

Auk þess er fjárveitinganefnd nú önnur en í fyrra; í henni eru nú fjórir nýir menn, og býst jeg ekki við, að háttv. deild blöskri eða telji óhaldinyrði af háttv. Alþingi, þó þessi styrkur verði ekki veittur nú, þar sem hún hefir í heitingum að rjúfa heit við 3 eða 4 menn og álíka margar stofnanir.

Jeg tek það fram í nafni nefndarinnar, að hún er á móti þessari till. Framburður hennar er ástæðulaus og órjettmætur á þessum tímum, bæði með tilliti til landssjóðs og kjördæmisins sjálfs.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) hefir tekið að sjer að skifta niður fje á milli tveggja kvennaskóla á landinu og reiknað út, að hlutfallið á milli þeirra væri rangt ákveðið af nefndinni. En það er ekki gott að koma auga á, hvernig háttv. þm. fær þessa útkomu, eða að hún sje rjett.

Hann talaði um, að skólinn á Blönduósi ætti hús sitt sjálfur, og þyrfti því ekki að borga húsaleigu, en honum ætti að vera kunnugt um, að húsaleiga er reiknuð eftir því, hvað viðhald hússins kostar. Það mun kosta Blönduósskólann um 3 þús. kr., því húsið er ekki þannig bygt, að það geti haldið sjer við sjálft án þess að nokkru sje til þess kostað.

Þá fór hann nokkrum orðum um nemendafjöldann; en þar sem nemendur voru í fyrra 60 á Blönduósskóla, held jeg að flest af því, sem hann sagði þar um, hafi verið skakt. En úr því að honum finst, að hjeraðsskólar eigi meiri rjett á sjer en aðrir — sem og er rjett — þá ætti hann að sýna það í verkinu með því að taka till. sína aftur.

Háttv. sami þm. kvaðst hallast að flestum till. háttv. sparnaðarnefndar, öðrum en till. um afnám styrks til fjallvega. Var það að vonum, að hann væri á móti því, enda er fjárveitingin til fjallvega eitt af því fáa, sem ekki má falla niður nokkurt ár. Það getur tæplega staðið svo illa á um vegi innansveitar, að stórtjón verði að því, þótt fjárframlag til þeirra falli niður eitt ár, en um fjallvegi vita allir, að það er bráðnauðsynlegt að halda þeim við til þess að ekki verði beinlínis manntjón að. Þar erum við háttv. 1. þm. S.-M. þá sammála, en annars þykir mjer sorglegt, að hann þarna skyldi fara að skilja við þessa ágætu búkonu, sem honum hefir búnast svo vel með.

Þá talaði háttv. 1. þm. Árn. (E.E.) um símalínur. Er það rjett, að síminn hans stendur ásamt öðrum 3. flokks símum í símalögunum, og verður sjálfsagt einhvern tíma byrjað á honum. En hann getur þó tæplega ætlast til, að hann verði fyr tekinn fyrir en Króksfjarðarsíminn, sem fimm þing í röð hafa gefið loforð um að skuli verða lagður.

Þá heyrði jeg tvo háttv. þm. deila um, hvort Grímsey væri á flóa eða firði og hvort hæstv. stjórn mundi takast að finna hana á landabrjefinu. — Jeg verð að hallast að skoðun háttv. 1. þm. Árn. (E.E.), að Grímsey sje á flóa að minsta kosti ekki síður en Eyrarbakki. Annars held jeg, að það mætti treysta hæstv. stjórn til að finna út, með landfræðisþekkingu sinni, að Grímsey lægi við flóa.

Mjer finst annars ástæðulaust að vera að fárast um að við, sem verið er að skera niður, eyðum þingtímanum, er þeir gera það engu síður, sem eru sparnaðarmenn af guðs náð, i. e. sparnaðarmenn fyrir alla aðra en sín eigin kjördæmi.

Jeg sagði að engin skynsamleg mótmæli hefðu komið fram gegn því, sem jeg sagði um fjárhag landsins, og til að sanna mál

mitt, stóð hv. þm. N.-Ísf. (S.St.) upp. Talaði hann á móti því og sagði, að alt væri að fara í kaldakol; við hefðum ekki efni á að gjalda einum eða tveim mönnum kaup, og hnitmiðaði svo niður tekjur og gjöld landssjóðs, að fjárhagurinn þyldi alls ekki, að einum námssveini yrði veittur skólastyrkur; það væri frágangssök, af því að hagur landsins væri svo bágur.

Annað eins hjal væri landinu til stórskaða, ef það kæmi frá málsmetandi manni. En þessi mótmæli eru af engu viti sögð.

Jeg hefi aldrei sagt, að fjárhagurinn væri góður; jeg hefi heldur viljað spara, þar sem það er hægt að skaðlausu; en jeg hefi ekki viljað grípa til þess óyndisúrræðis að láta háttv. Alþingi svíkja gefin loforð. En búkonunni verður ekki skotaskuld úr því.

Þetta tal mundi skaða landið um margar miljónir, ef nokkursstaðar væri tekið mark á því.

„Búkonan dillaði börnunum sínum öllum“. Hann óskaði þess líka heitt og innilega, að sem flestir háttv. þdm. ættu sjer slíka búkonu. En honum hefir þá sjest yfir það, að við eigum allir þessa háttv. búkonu. Hún er „allragagn“ í deildinni.

Jeg hverf þá frá þessu máli að sinni. Það hefir lítið verið talað gegn mjer eða nefnd inni, og get jeg þakkað háttv. þdm. góðar undirtektir, sjerstaklega háttv. þm. Ak. (M. K.), sem las vel yfir búkonu deildarinnar.