10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (1623)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Magnús Guðmundsson:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er jeg meðmæltur skynsamlegum innflutningshöftum. Hins vegar hefi jeg ekki getað fylgt þessu frv., og tel jeg því nauðsyn að skýra afstöðu mína í nokkrum orðum.

Frv. þetta fer fram á þrennskonar heimildir handa landsstjórninni, sem sje:

1. Heimild til innflutningshafta.

2. Heimild til gjaldeyrisráðstafana.

3. Heimild til lántöku.

Jeg mun nú fara nokkrum orðum um hverja tegund þessara heimilda.

Um innflutningshöftin er það að segja, að jeg get enga nauðsyn sjeð á því að samþykkja þessi ákvæði frv., því að þau eru síst betri en ákvæði laganna frá 8. mars 1920, og mjer er það alger ráðgáta, hvað hv. minni hl. viðskiftanefndar hygst að vinna við að lögleiða fyrri hluta 1. gr. frv., í stað nefndra laga. Hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl. J.) taldi þessi ákvæði víðtækari. Þar er jeg ekki á sama máli. Alt er í hvorttveggja lagt á vald stjórnarinnar, bæði um framkvæmdir og val þeirra vörutegunda, sem bannið tæki til. Jafnvel þótt með sjeu talin ákvæðin í 2. gr. frv., um nefndarskipun, þá er þar engu við bætt, því að slík heimild hefir einnig verið talin liggja í lögunum frá 1920, enda hafa þau verið framkvæmd svo.

Þótt jeg sje meðmæltur innflutningshöftum, sje jeg því alls enga ástæðu til að greiða atkv. með þessu frv. Hitt virðist mjer fremur þarflaust, og alt að því hlægilegt, að prenta þannig upp gildandi ákvæði, óbreytt að efni til, þótt orðum sje vikið við, og þykjast þar vera að setja ný lög.

Þá skal jeg snúa mjer að seinni hluta 1. gr. Það er annað atriðið, sem jeg nefndi, gjaldeyrisráðstafanirnar. Það er vissulega ekki hægt að segja, að þessi ákvæði sjeu skýr. Þar segir, að heimilt sje að hafa umsjón með erlendum gjald eyri landsmanna og með gjaldeyri fyrir útfluttar vörur, og ef nauðsyn krefur að ráðstafa slíkum gjaldeyri. Hvorki hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) nje hæstv. atvrh. (Kl. J.) mintust á þetta einu orði, og hefði þó síst veitt af að skýra þessi ákvæði. (Atvrh. Kl. J.: Það heyrði ekki undir mig). Mjer virðist nú hv. frsm. (Sv. Ó.) segja, að frv. væri borið fram að beiðni hæstv. stjórnar, og þá er jeg viss um, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) getur skýrt þetta fyrir mjer og fleirum, þótt það heyri ef til vill ekki beinlínis undir hann. Þetta er áreiðanlega ónákvæmlega orðað, því að hvað felst í þessum orðum? Hverskonar umsjón og ráðstöfun á erlendum gjaldeyri er hjer um að ræða? Jeg skil varla, að umsjónin geti verið annað en að safna skýrslum um erlenda gjaldeyrinn og fá vitneskju um, hvað af honum verður. En ef svo er, virðist mjer þetta frekar vera verk hinnar væntanlegu gengisnefndar. Og hví er þetta þá ekki sagt skýrum orðum, því í umsjón getur falist miklu meira en þetta? Mjer er líka ekki vel ljóst, hvernig stjórnin á að hafa „umsjón“ með gjaldeyri fyrir þær útfluttar vörur, sem erlendir menn flytja út, og því síður hvernig hægt er að „ráðstafa“ honum. Og hverskonar ráðstöfun er hjer átt við? Það getur þó ekki verið tilætlunin að taka gjaldeyrinn af innlendum eða erlendum mönnum án fulls endurgjalds. En hvað vinst þá? Þetta virðist mjer svo þokukent, að jeg verð að beiðast skýringar á því, betri skýringar en þegar hafa komið fram. Annars verð jeg að segja það, að ef þessi umsjón eða ráðstöfun á gjaldeyrinum á að vera til nokkurs, ætti hún helst að vera til þess að sjá um, að útflytjendur leggi ekki peningana fyrir í útlendum bönkum, og svo værum vjer gjaldeyrislausir heima fyrir; en jeg hefi aldrei orðið þess var, að nokkur hætta væri á slíku svo að neinu nemi, allra síst þegar gengi fer hækkandi, eins og okkar gengi nú fer og hlýtur að fara, ef ekkert alveg óvænt kemur fyrir. Nei, á þessu er alls engin hætta, því að það mundi geta orðið stórskaði fyrir hlutaðeigendur. Ef sjeð er fyrir því, að meira verðmæli sje flutt út en inn, held jeg, að engar aðrar ráðstafanir þurfi, því þá getur eftirspurnin eftir erlendum gjaldeyri ekki orðið meiri en að hægt sje að fullnægja henni og þá fellur hann í verði, eins og hver önnur vara, sem nóg er af, eða með öðrum orðum, okkar gjaldeyrir hækkar í verði. Um það þarf ekki að hugsa. Þá umsjón, sem ræðir um í þessu frv., með erlendum gjaldeyri, væri miklu nær að fela gjaldeyrisnefndinni, sem um ræðir í öðru frv., sem hjer er á ferðinni.

Jeg get því ekki sjeð, að nokkur vinningur sje í því að lögleiða þessi ákvæði. Ráðstöfunin á gjaldeyrinum býst jeg við að hljóti að vera í því fólgin, ef til kemur, að taka erlendan gjaldeyri af framleiðendum og útflytjendum og láta þá fá íslenska peninga í staðinn, en hver á þá að meta verðið á hvoru um sig, svo að bindandi sje? Gengisnefndin hefir ekki slíkt vald, og getur nokkrum dottið í hug, að jafnan verði samkomulag um verðið? Það mun verða sagt, að úr þessu verði bætt með reglugerð, en aðallínurnar má og á að draga í lögum; á því eiga borgarar þjóðfjelagsins heimtingu.

Þá kem jeg að 3. atriði frv., og það er lántökuheimildin. Jeg hafði, satt að segja, ekki hugsað mjer, að lán þyrfti að taka í ár. Jeg hefi áður bent á það hjer, að allar líkur sjeu á því, að á yfirstandandi ári þurfum vjer, til þess að fá greiðslum ríkissjóðs lokið, að fá um 1 miljón króna, auk tekna ríkissjóðsins, og þessa miljón hafði jeg hugsað mjer að landsverslunin mundi greiða af skuld sinni við ríkissjóðinn, og ef þetta yrði, þyrfti væntanlega ekkert lán. Samt viðurkenni jeg, að fyrir geti komið, að nauðsyn sje á, eða hagkvæmt þyki, að taka bráðabirgðalán á árinu, en til þess þarf stjórnin enga lánsheimild. Vegna lánsheimildarinnar þarf því ekki að samþykkja þetta frv.

Mjer er sagt, að hæstv. stjórn, eð í einhver úr henni, hafi látið það í ljós við viðskiftanefnd, að allmikið fje sje ógreitt til útlanda, sem fallið hafi verið í gjalddaga, er jeg fór frá. Þætti mjer gott að fá að heyra, hvaða fje þetta er, því jeg kannast ekki við slíkt að neinum mun. Að vísu veit jeg um eina smáskuld, 11 þús. kr., sem fallin mun í gjalddaga. Má og vera, að hjer sje átt við afgjaldið til Stóra norræna símafjelagsins, en um hana var ekki kominn reikningur, þegar jeg fór úr stjórninni, svo að ekki var von, að þetta væri borgað.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara hjer neitt að ráði inn á nál. hv. meiri hl. vegna þess, að jeg er samþykkur honum í meginatriðum. Þó þykir mjer hann ganga of langt í sumum ástæðum sínum, t. d. þar sem hann segir, að innflutningshöftin sjeu þýðingarlaus, en þó tapi ríkissjóður á þeim stórfje. Jeg viðurkenni það, að ríkissjóður tapi á innflutningshöftunum en jeg er þeim fylgjandi þrátt fyrir það. Og ekki nær neinni átt að áætla það tap 1 miljón króna; það ætti þá að samsvara öllum vörutollinum á árinu.

Hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) talaði mest um gengismálið. Það mál kemur ekki þessu frv. beint við, og því rjettara að setja þær umræður í samband við gengisfrv. Auðvitað neita jeg því ekki, að innflutningshöftin hafi áhrif á gengið, en mín skoðun á þeim er gersamlega óbreytt.

Hv. frsm. talaði um, að eitthvert enskt firma hefði ekki trúað bönkunum hjer fyrir lítilfjörlegri upphæð. Tók hann þetta sem dæmi um fjárhagsástand vort. Jeg held, að það sje allvarhugavert að draga fram svona dæmi og álykta af þeim, að bankarnir hjer njóti sáralítils trausts erlendis. Landsbankinn hefir nú nýlega fengið allstórt lán í Englandi, og það sannar miklu meira í þessu efni, heldur en þó eitt firma vilji af einhverjum orsökum ekki láta fje sitt liggja í bönkum hjer.

Út af orðum hæstv. atvrh. (Kl. J.) vil jeg taka það fram, að samkvæmt lögum er ekkert því til fyrirstöðu að auka tölu bannaðs varnings. En ástæðan til þess, að ekki var á síðastliðnu ári bætt við þá tölu, var eingöngu sú, að fyrv. atvrh. (P. J.) taldi sig bundinn við vilja þingsins í fyrra. En ef hæstv. atvrh. (Kl. J.) veit nú, að hann hefir meiri hl. þings með sjer í þessu efni, þá er honum fyllilega heimilt að fjölga þeim vörutegundum, sem bannaður er innflutningur á.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) sagði, að enginn árangur hefði sjest af starfi innflutningsnefndarinnar. Þar get jeg ekki verið honum sammála. Jeg er ekki í minsta vafa um, að innflutningshöftin hafa sparað okkur marga peninga.

Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg vænti þess að fá skýringu á því frá hv. frsm. (Sv. Ó.), hvernig nefndin hafi hugsað sjer framkvæmd gjaldeyrisráðstafananna, og frá hæstv. stjórn um það, hvernig hún hafi hugsað sjer það framkvæmt, þegar til hennar kasta kemur.