10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (1626)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Ingólfur Bjarnarson:

Frv. þetta, sem minni hl. hv. viðskiftamálanefndar ber fram, á þskj. 194, hefir verið ítarlega skýrt og nauðsyn þeirra ráðstafana, er það ræðir um, bæði af hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) og hæstv. atvrh. (Kl. J.). Ætla jeg eigi við það að bæta, en lítillega snúa mjer að þeim andmælum, er komið hafa fram gegn frv.

Í nál. meiri hl. viðskiftamálanefndar, á þskj. 206, er gengið inn á það, að því er skilið verður, að innflutningshöft hafi verið rjettmæt og nauðsynleg, er þau voru sett 1920, en eftir tæpt ár hafi þörfin mikið verið horfin fyrir það, meðal annars, og einkum vegna þess, að ástæður almennings hafi þá verið orðnar svo slæmar, að kaupgetan hafi verið lítil orðin. Því hafi verið rjettmætt að afnema hömlur þessar á þinginu 1921, eins og gert var. Og úr því það hafi verið gert, þá sje óhugsandi að taka höftin upp aftur nú, og enda tekið fram, að samkvæmt rjettri hugsun ættu þeir, sem aðhyltust innflutningshöft á síðasta þingi, að snúast á móti þeim nú.

Þessa röksemdaleiðslu er dálítið erfitt að skilja. Ef ástæður almennings voru orðnar svo slæmar um þing 1921, að kaupgetan var mjög á þrotum, virðist það einmitt allgild sönnun fyrir því, að hömlunum þurfti að halda áfram, hafi þær verið rjettmætar árinu áður, og að frekar hefði þurft að herða á þeim, svo þær gætu komið að haldi, til hjálpar og lagfæringar viðskiftunum. Enda sýndi reynslan, að þessa var síst vanþörf, því að árið reyndist hið erfiðasta viðskiftaár fyrir almenning. Er gengisfall ísl. krónunnar á síðasta ári talandi vottur um viðskiftaörðugleikana. Vil jeg telja víst, að hefði þingið í fyrra hert á viðskiftahöftunum, í stað þess að upphefja þau, mundu viðskiftaástæður þjóðarinnar hafa orðið stórum mun betri við síðustu áramót en raun varð á. Til sönnunar þessu má taka fram, að báðir bankarnir munu ótvírætt hafa látið þá skoðun uppi, bæði síðastliðið haust og eins nú, að þeir teldu mjög nauðsynlegt, til viðreisnar fjárhagsástandi þjóðarinnar, og þá sjerstaklega til viðreisnar peningagengi okkar, að öflugar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að hefta innflutning á óþörfum varningi. Verð jeg að telja skoðanir þeirra í þessu efni mjög mikilsvert atriði. Og þar sem draga verður þá ályktun af því, sem jeg hefi hjer sagt, að það hafi verið mjög misráðið að afnema innflutningshöft á þinginu 1921, leiðir þar af, að beint liggur við að taka þau upp aftur nú, eða gera ráðstafanir til, að hægt verði að grípa til þeirra, ef nauðsyn krefur, eins og frv. þetta ætlast til.

Skal jeg að vísu játa það, að sem stendur eru horfur um árgæsku góðar, og hugsanlegt er að rætist þær eftir bestu vonum, og verslunin reynist þolanleg, þá geti þetta komið viðskiftaástandinu á rjettan kjöl. En takist svo til, koma heimildarlög þessi vitanlega ekki til framkvæmda. Engin hætta er á, að til þeirra verði tekið nema brýna nauðsyna beri til, eins og hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir tekið fram.

Í nál. hv. meiri hl. er gert ráð fyrir því, að viðskiftaskuldirnar hafi minkað á árinu 1921 um 10 miljónir króna. Þar er það óábyggilegt og villandi, að frá skuldunum í árslok eru dregnar óseldar innlendar afurðir, sem áætlaðar eru 4 milj. kr. En ekki dregið neitt frá skuldunum í ársbyrjun fyrir óseldum afurðum, og hafi þær verið jafnmiklar sem við árslok, sem jeg fyrir mitt leyti verð að álíta, meðan annað er ekki upplýst, skakkar þarna um 4 miljónir, sem afborgun skuldanna er oftalin. Einnig má benda á, að ekki eru í þessu yfirliti taldar nema 6 miljónir af enska láninu sem viðskiftaskuldir, en þar sem lánið var 10 miljónir, hefir þjóðin þó aukið skuldir sínar um þær 4 miljónir, sem ótaldar eru, og því rjett að taka tillit til þessa, þegar verið er að gera upp afkomu ársins.

Þegar þessa hvorttveggja er gætt, fer að verða minna um þessar miklu skulda greiðslur, sem svo mjög hefir verið hampað með, enda sýnist það ekki sem líklegast, að um mjög miklar raunverulegar afborganir geti verið að ræða, þar sem um endilangt landið heyrast einróma skýrslur um það, að almenningur hafi stórtapað og skuldir aukist feikilega. Veit jeg ekki, hver hefir átt að greiða þessar miklu skuldalækkanir. Vera má þó, að þolanlega hafi gengið fyrir nokkrum útgerðarmönnum og þeir hafi máske sumir eitthvað á unnið um skuldalækkanir. En hitt er aftur víst, að hjá landbúnaðarmönnum og verkamönnum hafa skuldir aukist mjög mikið síðastliðið ár.

Jeg held því, að skuldir þjóðarinnar í heild sinni hafi mjög lítið lækkað á árinu, og álit hv. meiri hl. viðskiftamálanefndar ekki á rjettum rökum bygt hvað þetta atriði snertir.

Þá heldur hv. meiri hluti því fram í áliti sínu, að innflutningshöft mundu auka dýrtíð í landinu, örva kaupalöngun fólksins og meina einstaklingunum að spara. Enn fremur muni þau baka þjóðinni álitshnekki út á við. Þetta virðist alger öfugmæli. Aðalætlunarverk haftanna er það vitanlega, að hefja gengið, og auðsjeð, að við það mundi dýrtíðin einmitt minka, og sjálfsagt, að fólkið mundi af fremsta megni takmarka kaup sin og fresta þeim, bæði vegna væntanlegrar verðhækkunar sem og þess sparnaðaranda, er alment mun ofarlega hjá þjóðinni, og álit hv. meiri hl. færir þetta atriði sem rök í öðru sambandi, fyrir því, að innflutningshöft eða yfir höfuð aðrar ráðstafanir sjeu óþarfar. Jú, það mun óhætt að segja það, að almenningur vill gjarnan spara. En það vill reynast örðugt í framkvæmdinni, og því æskir þjóðin eftir aðstoð löggjafarvaldsins í þeirri viðleitni, sem sjá má af hinum mörgu áskorunum um, að komið sje á öflugum innflutningshöftum, sem koma fram í þingmálafundargerðum víðs vegar frá.

Þá þarf varla að taka það fram, sem bersýnilegt má vera, að ráðstafanir til viðreisnar fjárhagsástæðum okkar hljóta að auka okkur traust út á við, en ekki hið gagnstæða, t. d. með því að hefja gengi ísl. krónu.

Þá vill hv. meiri hluti telja óþarft að leggja hömlur á innflutninginn í því skyni að rjetta við gengi ísl. krónu. Telur hann, að það eigi að vera komið í sæmilegt horf um næstu áramót án nokkurra slíkra ráðstafana. En hvernig kemst hann að þessari niðurstöðu? Jú, í fyrsta lagi, að af áætluðum 10 milj. kr. lausaskuldum muni vafalaust mega telja allmikið tapaðar skuldir, t. d. 2 milj., og af þeim 8 milj., sem þá sjeu eftir, muni um helmingurinn vera þannig vaxnar, að „ekki ætti að vera ómögulegt að samningsbinda þær“. Þá sjeu eftir 4 milj. kr. lausaskuldir, er ekki ættu að hafa veruleg áhrif á gengið. Í öðru lagi segir meiri hlutinn, að árið muni ekki bregðast vonum manna um gott árferði.

Við þetta er nú það að athuga, að eftir margra manna áliti eru lausaskuldir meira en 10 milj. kr. Engin vissa er um þessar töpuðu skuldir, og ekki virðist álitlegt að byggja mikið á því, að samningar fáist um að festa skuldirnar, þar sem nál. kveður ekki ríkara að orði um það atriði en svo, að „ekki ætti að vera ómögulegt“ að samningsbinda þennan hluta þeirra. Þá virðist og hugsanlegt, að vonirnar bregðist um árgæskuna. Að minsta kosti eru rök þessi svo veik, að tæplega er verjandi að leggja allar öryggisráðstafanir til hliðar þeirra vegna.

Jeg skal svo ekki eyða mikið fleiri orðum um málið. Jeg held því eindregið fram, að þjóðin sje nú svo tæpt stödd efnalega og skuldum hlaðin, að þingið hljóti að gera ítrustu tilraunir til þess að beina ástandinu í batnandi horf með þeim ráðum, er best kunna að verða fundin.

Tel jeg heimildarlagafrv. þetta líklegustu leiðina, sem fyrir hendi er, þó að annmarka megi sjálfsagt á því finna, enda er það aðeins komið fram vegna þess neyðarástands, sem nú er, og kann að verða, viðskiftalega sjeð. Frv. kemur vitanlega ekki til framkvæmda, ef þær góðu vonir rætast, að viðskiftavandræði okkar lagist af sjálfu sjer, vegna viðvarandi árgæsku, hagstæðari verslunar, sjálfkosnum sparnaði almennings o. fl.

En jeg tel það alveg óverjandi að byggja svo mjög á þessum vonum, að þingið geri engar öryggisráðstafanir til að ráða bót á því fjárhagsöngþveiti, sem þjóðin er nú stödd í. Það væri sannarlega „að fljóta sofandi að feigðarósi“.