10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (1630)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Magnús Guðmundsson:

Jeg þarf að svara hæstv. atvrh. (Kl. J.) nokkrum orðum. — Hann sagðist geta fallið frá frv., ef hægt væri að sannfæra hann um það, að nægileg heimild sje í lögunum frá 1920. Jeg á hægt með að sanna hæstv. ráðh. þetta. Skal jeg þá benda honum á, að 11. maí 1920, þrem dögum eftir að lögin öðluðust gildi, þá var skipuð nefnd sú, sem hafði með innflutningshöftin að gera. Hún starfaði í eitt ár. En svo tók þingið í taumana og ljet í ljós, að innflutningshöftin skyldu ekki ná til nauðsynjavara. Lögunum var annars ekki breytt, svo að ef nýr þingvilji er með höftum á öllum vörum, þá er næg heimild í lögunum til þess að hægt sje að framfylgja honum.

Jeg skal líka benda á, að hæstv. atvrh. hefir lýst yfir því, að þessi lög komi því aðeins til framkvæmda, að ekki rætist hinar góðu vonir, sem menn gera sjer um hið yfirstandandi ár. Þar af leiðir, að augljóst er, að lögin frá 1920 eiga að falla úr gildi, án þess að nokkuð komi í þeirra stað, og hjer er því um afturför að ræða.

Hæstv. fjrh. (Magn. J.) sagði, að vitaskuld væru innflutningshöftin aðalatriði frumvarpsins. — Má vera, að honum sýnist svo, en eins og jeg hefi skýrt lögin frá 1920, þarf alls ekki að lögleiða þetta frv. vegna innflutningshaftanna. Sagði hann, að síðasta gr. frv. væri óljóst orðuð; þar væri átt við gróðabrall í lággengi íslensku krónunnar (baisse). En orð greinarinnar eru miklu víðtækari en það.

Þá ætla jeg að svara hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) nokkrum orðum. Það er leitt, að hann skuli ekki geta orðið nefndinni sammála um, hve mikið hafi verið afborgað af skuldum á síðasta ári. Annars get jeg þakkað háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) fyrir orð hans í minn garð í byrjun ræðu hans, en hann sneri við blaðinu, er hann fór að segja, að jeg hefði horfið frá minni fyrri stefnu. — Hvernig er hægt að segja, að jeg hverfi frá minni stefnu, er jeg held fram lögunum, sem jeg bar fram 1920? Mjer þykir æði undarlegt að kalla það stefnuskifti.

Afstaða hans aftur á móti er sú, að hann greiddi atkvæði móti frv. 1920. (Sv. Ó.: Jeg kannast ekki við það.) Hann talaði að minsta kosti á móti því, það er mjer kunnugt um, því jeg las það í gær, og hygg jeg því, að hann hafi einnig greitt atkv. á móti því. í fyrra vildi hann, að sumar vörutegundir væru frjálsar, sumar skyldu hafa innflutningsleyfi með undanþágu, en á öðrum algert bann. En hvers vegna gerist hann þá formælandi þessa frv. nú, sem fer fram á alt annað? Það er því þessi hv. þm. (Sv. Ó.), sem hefir snúist tvisvar í málinu síðan 1920, en jeg held því fram enn, sem jeg hjelt fram bæði 1920 og 1921.

Jeg verð að endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að lánsheimildin er gersamlega óþörf, af því að hún er þegar til, enda á þessu ári engin ástæða til að taka nema bráðabirgðalán, sem stjórninni er ávali heimilt að taka.

Jeg held, að það verði erfitt fyrir hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) að víta framkomu mína í þessu máli, því hún er alveg hin sama nú og í fyrra og hitt eð fyrra.

Þá var það eitt atriði í ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem jeg þurfti að svara. Hann sagði, að ekkert hefði sparast á þeim höftum, sem verið hefðu. En það var reiknað út í fyrra, að miðað við verðlag árið 1917 og innflutning á því ári hefði sparast upp undir 2 milj. kr. á innflutningshöftunum. (J. Þ: Jeg hafði þetta eftir hæstv. atvrh.). Það er rangt samt, og það sýna gögn þau, sem til eru um þetta efni síðan á þinginu í fyrra; og þessi upphæð er alls ekki svo lítil, er tekið er tillit til þess, yfir hve lítið svið höftin náðu.