11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (1634)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Aðeins fáar aths. viðvíkjandi síðustu ræðu hv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Mjer skildist á orðum hans, að honum þætti orð mín og afstaða í þessu máli ekki nógu skýr. Var auðheyrt, hvar skórinn krepti, að hann vantaði eitthvað í mitt mál til að ráðast á. En því er nú svona varið um hvert mál, sem er blátt áfram og ekki vafið neinni blekkingarvoð, að það er ekki gott að finna fangstað á því. Það, sem jeg sagði um þessi ákvæði, er nákvæmlega það, sem liggur í þeim, en ekkert meira, og verður háttv. þm. (M. J.) að afsaka það.

Háttv. þm. (M. J.) mintist á það, viðvíkjandi umsjón með gjaldeyrinum, að meira þyrfti að gera en bara vita, hvernig sakirnar stæðu þar. Þessu gerir frv. einmitt ráð fyrir, en þær frekari ráðstafanir, sem háttv. þm. (M. J.) hugsar um, þurfa engan veginn að vera gjaldeyrisráðstafanir, heldur það, sem frv. ráðgerir: takmarkanir á innflutningi. Það verður sama nefndin, sem um gjaldeyrinn á að fjalla, og sú, sem fer með heimild til að hefta innflutninginn, og verður starfi hennar í þessum efnum aðeins tvær hliðar á sama málinu. Þegar nefndin sjer fram á gott gjaldeyrisár, þá þarf hún ekkert annað að gera en sjá það. Sje útlitið aftur á móti skuggalegt, þá verður hún að taka til sinna bragða, innflutningshaftanna.

Háttv. þm. (M. J.) sagði, að það lægi í augum uppi, að enga nauðsyn bæri til gjaldeyrisheimildarinnar, því á gengis-„spekulationum“ sje nú mest hættan í Kaupmannahöfn, en þar sjeu einmitt til höft gegn þeim. Þetta er að nokkru leyti rjett, en það er að engu leyti í okkar valdi, hvort lagaákvæði eða reglugerðir í öðrum löndum standa lengur eða skemur. Finst mjer eðlilegt, að íslenska ríkið ætti íslensk lög til þess að hefta brask með íslenskan gjaldeyri, án þess um nauðsyn fram að flýja á náðir annara ríkja í þessu efni. Getur og vel komið fyrir, að slíkt brask ætti sjer stað hjer heima, og væri þá ekki verra, að heimild sje til að hefta það. Því hefir verið haldið fram af sumum hv. þm., að heimild til innflutningshafta og yfirleitt viðskiftaráðstafana geti leitt af sjer mikið tjón. En jeg vil þá benda mönnum á, að einmitt slík heimild, sem frv. fer fram á, er gott dæmi upp á það, að heimildin ein getur verið til mikils og jafnvel fulls gagns. Vitneskjan um það, að stjórnin geti á hverju augnabliki tekið í taumana, gerir einmitt alt gjaldeyrisbrask að svo fullkomnu áhættuspili, að heimildin ein getur orðið til þess, að alls ekki sje byrjað á þvílíku háttalagi.