11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (1639)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jón Baldvinsson:

Það hefir verið sagt, að best mundi að koma með athugasemdir þær, er gera þyrfti við frv., nú við 1. umr. þess, því að það mundi ekki eiga langt líf fyrir höndum. Nú heyrist mjer samt helst, að fremur muni eiga að lappa upp á það og láta það svo lafa; en jeg ætla þó að segja nokkur orð þegar.

Jeg hefi enn þá sömu skoðun og jeg lýsti hjer í fyrra, að innflutningshöft sjeu ekki til bóta. Vjer vitum, hvernig gekk um framkvæmd þeirra meðan viðskiftanefndin var, og var hún þó skipuð helstu viðskiftaforkólfum þessa bæjar. Árangurinn varð nauðalítill. Aftur er það víst, að höftin auka dýrtíð á þeim vörum, sem bannaðar eru, en það kemur niður á neytendum varanna, og mundu það einkum verða kaupstaðarbúarnir. Þeim ákvæðum frv., sem um höftin fjalla, er jeg því gersamlega andvígur.

En það er annað í þessu frv., sem komið gæti til mála að halda i, og þó því aðeins, að það yrði lagað. Það eru gjaldeyrisráðstafanirnar. Ef hægt væri að koma því til vegar, að allur gjaldeyrir erlendur, sem til fellur, færi um bankana, þá væri það áreiðanlega mikil úrbót. Það er eitt skilyrði þess, að koma lagi á fjármál vor út á við og bæta gengi peninga vorra. En þar eru nú voldug öfl, sem toga á móti. Framleiðendur hafa nú sjeð það, sem vitanlegt var, að þeir mundu eiga fleiri krónur í haust, ef krónan fjelli. Og jafnvel hjer í hv. deild hefir því verið haldið fram, að þetta væri hagur þeirra. En hitt er áreiðanlegt, að þetta er ekki hagur fjöldans, því að vörur hljóta þá að stíga og dýrtíð að magnast af nýju. Og gróði framleiðenda er óviss líka, því að kaupgjald hlýtur að stíga með vöruverðinu, nema menn sjeu látnir vinna fyrir minna en þeim ber. Og mörgu krónurnar eru ekkert mætari en hinar fáu, þegar ekki fæst meira fyrir þær af raunverulegum verðmætum. Þó er nú sennilegt, að þeir meti stundarhag sinn mest og vilji því láta krónuna falla. Þá taka þeir að bralla með gjaldeyrinn utan hjá bönkunum og reyna að koma honum sem hæst. Ef bankinn selur sterlingspund á 26 kr., en getur ekki fullnægt eftirspurninni, þá bjóða þeir það ekki lægra en 27 kr. Það eykur enn meira eftirspurn eftir sterlingspundum hjá bönkunum, af því að þau eru lægri en aðrir bjóða, og það endar með því, að bankinn neyðist til að kaupa af útflytjendum fyrir 26 kr. hvert pund sterling, en þá hækkar hann um leið útsöluverðið upp í kr. 26.50 eða svo. Þessu líkt hefir víst gengið undanfarið, því að krónan hefir fallið talsvert þrátt fyrir góðar horfur um framleiðslu og sölu. Sterlingspund hafa nú á allstuttum tíma hækkað úr 26 kr. upp í 27,50 í bönkunum. Og bankarnir virðast hafa verið alveg máttlausir gagnvart þessu.

Að vissu leyti má nú víst segja að þetta sje bönkunum að kenna, en samt sem áður er jafnnauðsynlegt að hefta það, ef nokkur tök eru á, og koma því lagi á, að landsmenn fái gjaldeyrinn, sem fæst fyrir sameiginlega framleiðslu þeirra, við sanngjörnu verði. Jeg kannast ekki við forrjettindi hinna svonefndu „framleiðenda“ til þess að bralla með gjaldeyrinn, sem fyrir framleiðsluna fæst, öllum almenningi til böls.

Nei, þá kýs jeg heldur, að höfð sje „umsjón“ með gjaldeyrinum, en jeg veit ekki, hvort það næst með frv., sem þarf að nást. Hygg jeg, að betra hefði verið, að alt væri selt sameiginlega; landið hefði einkaútflutning og sölu. Það hefir þann mikla kost, að þá þarf ekki að vera að braska við að ná í gjaldeyrinn, og ekki þarf heldur að deila um verð á honum.

Þótt jeg sje algerlega á móti innflutningshöftunum, þá mun jeg samt greiða frv. atkv. til 2. umr., en koma þá með brtt. í þá átt, sem jeg hefi lýst, til þess að náð verði þeim tilgangi, sem frv. á að hafa. Annars var það slysalegt að rugla saman þessum tveimur atriðum í frv., en koma ekki með hvort um sig sjerstakt, því að annað gat vel gengið fram, þótt hitt fjelli.