12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (1643)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jón Þorláksson:

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) og háttv. frsm. frv. (Sv. Ó.) gerðu tilraun til þess að skipa mjer í flokk í þessu máli og ljetu svo um mælt, að jeg mundi vera haftamaður. Þetta var algerður óþarfi af þeim, því að á síðasta þingi gerði jeg mitt til þess, að byrjað væri að fella úr gildi þær þvingunarráðstafanir, sem leiddu af heimsófriðnum. Þótt jeg hafi þá ekki kostað kapps um að afnema þær allar, þá verður mín afstaða aldrei önnur en sú, að afnema þær smám saman, eða allar í einu, eftir því hvernig ástandið er. Slíkt öfugstreymi sem það, að vilja nú innleiða þessar stríðsráðstafanir, þegar svona langt er frá liðið og ástandið er komið í það horf, sem nú er, geta þeir fundið annarsstaðar en hjá mjer. Þeir verða að líta sjer nær, er þeir leita að slíkum hugsunarhætti.

Þá hafði hv. þm. Ak. (M. K.) rangt eftir mjer eitt atriði, sem að vísu skifti ekki miklu máli. Hann kvað mig hafa sagt, að framleiðendurnir mundu hætta að framleiða, ef hömlur yrðu lagðar á atvinnurekstur þeirra. En jeg sagði, að það mundi draga úr vilja þeirra og áhuga til að færa út kvíarnar, ef slíkt yrði gert. Þetta veit jeg að er rjett, a. m. k. hvað snertir þróttmestu grein sjávarútvegarins, togaraútgerðina. Útgerðarmenn láta sjer ekki á sama standa, hvort löggjafinn bætir nú gráu ofan á svart, með því að leggja hömlur á atvinnurekstur þeirra, í viðbót við það að sjúga út úr þeim háa skatta, sem eru ærið nóg byrði fyrir þá.

Ef einhverjir halda því fram, að það skifti ekki miklu máli, að þessi atvinnugrein aukist á næstunni, vil jeg minna þá á, að á hverju ári, og ekki síst á þessu síðasta, hafa farið margir tugir ungra og efnilegra manna í sjóinn af smábátum og mótorbátum, af því að útbúnaðurinn var of ljelegur, en togaraútgerðin er hin eina grein útgerðar, sem nokkurn veginn hefir verið laus við þessar hörmulegu slysfarir.

En það er nú þessi framleiðslugrein, sem verður fyrst og mest fyrir barðinu á gjaldeyrisráðstöfunum þeim og innflutningshöftum, sem nú á að smeygja inn, af því að hún er rekin í svo stórum stíl, að hún er þess umkomin að annast sjálf útflutning á afurðum sínum.

Þá vefengdi hv. þm. (M. K.), að það hefði verið nauðsynlegt að afljetta aðflutningsbanni á nauðsynjavöru á síðasta þingi, til þess að ljetta undir með framleiðendum, og vitnaði til þess, að nokkru eftir afnám innflutningshaftanna hefði togaraflotanum verið lagt í lægi; hlyti það því að hafa haft aðrar orsakir. En hann hefir gleymt því; að það liggur skjallega fyrir frá síðasta þingi, í brjefi frá togaraeigendum, að þeir sjái sjer ekki fært að halda úti togurunum sökum dýrtíðar, og meðal annars vegna hafta á innflutningi nauðsynjavöru. Þetta varð upphaf þess, að samkomulag komst á um að fella niður innflutningshöftin, en það átti einna drýgsta þáttinn í því, að hægt var að byrja aftur að gera út togarana, er mánuður var liðinn af vertíðinni, eða um 20. mars. Hitt er þessu máli óviðkomandi, að árferði var þannig, að ekki var hægt að halda skipunum úti nema á vertíðinni, en vegna innflutningshaftanna hjelt við borð, að eigi væri hægt að gera út þá heldur.

Það fer mjög á huldu, hver meining sje með gjaldeyrisráðstöfunum frv. Jeg hefi hlustað með athygli, hvort engin skýring kæmi fram um þetta atriði í umr., en jeg verð að játa, að fátt hefir komið fram í þá átt. Ræða hæstv. fjrh. (Magn. J.) flutti aðeins röksemdir móti því, að nauðsynlegt væri, að þær kæmust á, og það gladdi mig. En háttv. þm. Ak. (M. K.), sem er sennilega ekki síður kunnugur hugsun frv. en aðrir hv. þm., viðhafði í ræðu sinni í gær þau orð, sem varpað geta nokkru ljósi á þetta mál. Hann bar að vísu á móti því, að taka ætti erlendan gjaldeyri af framleiðendum fyrir ekki neitt, en það datt heldur engum í hug. Hinu mótmælti hann ekki, að það ætti að gefa þeim minna fyrir hann en þeir gætu fengið annarsstaðar. Jeg vil nú gefa honum hlje, til þess að hann geti mótmælt þessu. (M. K.: Jeg fæ tækifæri til þess síðar). Hv. þm. (M. K.) viðhafði þau orð, að það ætti að greiða framleiðendunum í innlendum gjaldeyri þegar í stað, eða í sömu mynt, þegar um hægðist. Þetta varpar nýju ljósi á málið. Er það meiningin að fara eins að nú og um árið, þegar togararnir voru seldir og tekið þvingunarlán hjá seljendunum? Er það meiningin að taka vörurnar af framleiðendunum að láni og borga þær seinna, er um hægist? Mjer skilst, að hv. þm. (M. K.) eigi hjer við það, að hjer eigi að taka erlendan gjaldeyri að láni hjá seljendunum, og ef það er gert án þess, að þeir kæri sig um það, er lánið nauðungarlán. Jeg hygg, að heimildin til gjaldeyrisráðstafana sje svo rúm og óákveðin, að það sje mjög athugavert að hleypa þeim til stjórnar, sem hv. þm. Ak. (M. K.) ræður jafnmiklu hjá og þeirri, sem nú situr að völdum.