12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (1644)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Það er nú ekki sjerlega margt, sem jeg hefi að taka fram að þessu sinni. Þó vildi jeg leyfa mjer að víkja að nokkru að ýmsum atriðum í ræðum hv. þm. um þetta mál.

Hæstv. fjrh. (Magn. J.) hjelt, að jeg væri einna gramastur gjaldeyrisráðstöfunum frv. af því, hve lítið var þar að ráðast á. Þetta er að vissu leyti rjett. Það er einn meðal annara ókosta við frv., hve það er óákveðið og froðukent, en það, sem er þannig, er ekki ætíð sem best viðureignar, eins og t. d. Beigur í Pjetri Gaut, sem alstaðar þvældist fyrir honum, án þess þó að hann gæti yfirstigið hann.

Hæstv. fjrh. (Magn. J.) sagði, að frv. væri ofur einfalt. Jeg er nú hræddur um, að hann hafi lesið sína eigin skynsemi inn í það, en það er ekki nóg, þegar frv. ber ekki þá skynsemi með sjer.

Það hefir verið sýnt fram á það, af mjer og öðrum, hve mál þetta sje víðtækt. Það er því ekki hægt að hugsa sjer hver ókjör mætti bjóða mönnum, ef þetta frv. yrði að lögum, og vil jeg ekki endurtaka rök mín fyrir því.

Þá vil jeg snúa mjer að háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.). Það kom nú fátt nýtt fram í ræðu hans, enda var þess ekki að vænta, því að hann hafði talað tvisvar áður, og mun röksemdasjóður hans hafa verið þorrinn með öllu. En hann lýsti yfir því, að hann óskaði þess, að veðrunum færi að slota í þessu óveðrahorni. Jeg er þessu samþykkur, en jeg kannast þó ekki við, að jeg sje sá Hræsvelgur, er hefi komið þeim stormi af stað, því að eins og hv. þdm hafa heyrt, hjelt jeg mjer við málefnið í framsöguræðu minni og gaf ekki tilefni til persónulegrar deilu. Það mun því reynast þessum hv. þm. (Sv. Ó.) torvelt að koma sökinni af sjer.

Hv. þm. (Sv. Ó.) gladdist yfir brtt., sem var útbýtt hjer í deildinni í gær, og fanst honum, að nú mundu hugirnir renna saman í sætan samhreim. Það virðist nú vera að draga sig saman, sem saman á, en þó get jeg ekki borið á móti því, að mjer þykir nokkuð kynlegt, ef flm. frv. geta gert sig ánægða með brtt., svo mikið sem hún þó sníður af frv., og minnir það helst á manninn, sem vildi fá 100.000 kr. lán, en þegar hann gat ekki fengið svo mikið, færði hann það niður og ljet sjer að lokum nægja að fá 2 kr.

Þá vefengdi hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.), að jafnmikið af skuldum landsmanna væru tapaðar eins og jeg hafði haldið fram. Jeg vil nú ekki þrátta við hann um það, því að ilt er að safna nákvæmum skýrslum um það, en eftir þeim gögnum, sem mjer hafa borist, og sögusögn þeirra manna, sem kunnugastir eru, verð jeg þó að halda fast við það, að þessar töpuðu skuldir sjeu alls ekki of hátt áætlaðar.

Enn þá prjedikaði hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) móti frjálsri samkepni. Jeg er nú satt að segja hálfhissa á því að heyra slík orð og hann viðhafði hjer hjá þessari þjóð, því að vjer Íslendingar höfum dýra reynslu í því efni, reynslu, sem jeg hjelt að hefði brent sig inn í þjóðarmeðvitundina. Jeg á hjer við einokunarverslunina illræmdu. Það vantaði ekki um hana, að hún var fegruð með pappírsreikningum og loforðuni um góða vöru og sanngjarnt verð. Það var og sýnt þá með skjölum og skilríkjum, að heppilegast væri, að sem fæstir kaupmenn flyttu vörur til landsins, og það var sagt mönnum, að kaupm. kæmu hingað mest af brjóstgæðum, og legðist einokunin af, mundu allir hætta að sigla til landsins. En þessi loforð, reikningar og röksemdir reyndust allar falskar. Þar vantaði hið eina, sem er bjargvænlegt, og það er frjáls samkepni.

Þegar vörurnar hækkuðu á stríðstímunum, stafaði það mestmegnis af því, að frjáls samkepni fjekk ekki að njóta sín lengur, og því meiri misbrestur sem varð á því, því meiri ókjörum urðu menn að sæta í verslun. Því er nokkuð undarlegt að heyra það, að frjáls samkepni eigi að vera verndun á einni stjett. Það er þveröfugt, hún er verndun fjöldans gegn sjerstökum stjettum.

Háttv. þm. S.-Þ. (Ing. B.) sagðist halda fast við þá skoðun sína, að nál. viðurkenni, að höftin hafi verið nauðsynleg 1920, Hann verður að fá að halda henni fyrir mjer, en jeg held aftur minni skoðun, því hin prentuðu orð nál. eru skýr.

Þá hjelt hann því einnig fram, að rangt hafi verið að draga frá þessar 4 milj. í óseldum vörum um áramót, og því sömuleiðis rangt að reikna ekki úttektina á 1. fjórðungi ársins. Jeg held, að honum takist nú aldrei að sanna sitt mál um það, því að ef fá á sambærilega upphæð við þær 34 miljónir, sem landsmenn skulduðu í mars í fyrra, verður að reyna að setja sig í spor þess nú. Ef nú hefði verið safnað í mars þetta ár líka, hefðu þessar óseldu vörur ekki komið til greina, því að þá voru þær seldar, en andvirði þeirra er komið þjóðarbúskapnum að góðu. Um veltu 1. ársfjórðungsins er sama nú og í fyrra. Þá var flutt út fullri 1 miljón kr. meira en inn var flutt. Að vísu hafa menn ekki skýrslur um verslun 1. ársfjórðungsins nú, en menn vita þó um það hjer um bil. Innflutningur á tveim fyrstu mánuðunum er sama sem enginn, en útflutningurinn talsverður, svo það er fjarri að ætla, að skuldir hafi aukist síðan um áramót fram í mars.

Jeg held, að jeg geti að mestu slept að tala um ræðu hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Hann taldi gjaldeyrisráðstafanirnar aðalkost frv. Það verður því sennilega ekki álitlegt í hans augum, þegar búið er að fella þær burtu; eins og á að gera með brtt. En jeg er honum samdóma um það, að ef þessar ráðstafanir ættu að verða að gagni, yrði ríkið að taka sölu afurðanna í sínar hendur, en jeg get sparað mjer að ræða frekar um það, því að slíkt mun nú varla til mála koma.

Þá kem jeg að hv. þm. Ak. (M. K.). Jeg held, að jeg þurfi ekki að svara honum mjög miklu, því ræða hans var fremur ljettvæg að röksemdum, en nokkuð persónuleg. Hann var hissa á því, að jeg skyldi vera valinn til þess að hafa framsögu fyrir meiri hl., og skýrði það helst á þann hátt, að mjer yrði fyrirgefið, af því að jeg vissi ekki, hvað jeg gerði. Þetta er nú ekki ákaflega sannfærandi. Jeg þekki líka ýmsa menn, sem efast um hans miklu hæfileika til að standa fyrir stóru verslunarhúsi. Jeg þykist vita, að hann taki nú ekki mikið mark á því sjálfur og virðist það lítið sannfærandi. Svo er og um mig, að jeg skifti ekki skoðun á þessu máli, þó að hv. þm. Ak. (M. K.) sje hissa á því, að jeg skyldi vera valinn frsm. í því.

En þessi hv. þm. (M. K.) er nú vanur því að segja um suma menn, að þeir hafi ekki vit á málinu, ef þeir eru honum mótdrægir og hann er kominn í röksemdaþrot, og við aðra, sem hann þorir ekki að bregða um fíflsku, segist hann vera undrandi, að jafnskynsamur maður skuli halda fram öðru eins máli. Annars sagði hann, að í ræðu minni hefðu verið óendanlega margar öfgar, og hann tók eitt atriði til dæmis, og það var, að jeg hefði haldið því fram, að vöruverð mundi hækka, ef höftin yrðu sett á. Á móti þessu færði hann eina röksemd, en hún var býsna sterk. Hann sagði, að það væri beinlínis bannað í frv. Það vissi jeg nú að vísu, og þurfti ekki að fá hv. þm. Ak (M. K.) til að segja mjer það. En það er dálítið, sem skilur á milli, hvort það er bannað á pappírnum, eða hvort hægt er að koma í veg fyrir, að bannið sje brotið, og jeg hjelt, sannast að segja, að háttv. þm. væri of kunnugt, hve farið er kringum slík bönn, til þess að vitna í það. Það er ekki deilt um það hjer, hvort bannið sje prentað í frv., heldur hitt, hvort hægt muni að framfylgja því, og jeg held, að við höfum þegar nóga reynslu til þess að sjá, að það er ómögulegt. Þetta var nú sú vitleysan í ræðu minni, sem hann valdi að sýnishorni, og úr því að rök hans voru svona sterk þar, þá má nærri geta um hitt, sem hann treystir sjer ekki til að nefna.

Þá sagði hv. þm. (M. K.), að brýn þörf hefði verið á höftum 1921, og enginn gæti brugðið sjer um það, að hann hefði skift um skoðun. Það ber honum víst enginn á brýn, að hann muni nokkurn tíma snúast á rjetta skoðun í þessu máli, því að hann hefir ekki haggast í því hingað til, og altaf haldið fram höftunum. En hitt held jeg, að það sje heppilegast, að sú skoðun hafi ekki alt of marga formælendur, ef þeir geta ekki fært fram betri rök en þau, sem hv. þm. Ak. (M. K.) hjelt að yrðu rothögg á mínar röksemdir.

Þá vildi hann loks neyða menn til þess að kaupa alt það, sem til væri í landinu. Það er hrein þvingunar-„pólitík“ og mundi síst verða til að bæta úr hag þjóðarinnar.

Er svo útrætt um þetta mál af minni hálfu.