12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (1645)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Magnús Kristjánsson:

Það gleður mig sannarlega, að þessi fáu orð, sem jeg talaði í gær, hafa vakið eftirtekt nokkurra hv. þdm. og sannfært suma þeirra, Að minsta kosti er jeg mjög þakklátur háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fyrir hans hlýju orð í minn garð, því hann sagði, að jeg hefði komið með það eina skiljanlega og varpað ljósi yfir málið. Jeg vil nú vanalega tala umbúðalítið og ljóst og er honum því þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. (J. Þ.: Jeg þakka fyrir þakklætið!).

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) bar á móti orðum, sem jeg hafði eftir honum, nefnilega „að togaraeigendur myndu ekki sætta sig við, að lagðar væru neinar hömlur á gjaldeyri þeirra.“ Þessi orð hafði jeg skrifað eftir hv. þm. (J. Þ.), svo það er ekki til neins fyrir hann að mótmæla þeim. En svo bætti hann við, að búið væri að útsjúga togaraútgerðina með háum og ranglátum sköttum og íþyngja henni á margskonar hátt, en þessu er kastað fram óhugsuðu og án nokkurra minstu röksemda, svo því þarf ekki mörgu að svara.

Það er líklega nokkuð mikill vandi að gera upp á milli togaraeigenda og annara atvinnurekenda, enda óvíst, hvort þyngra er á þeim en öðrum. Þess vegna þýðir ekki að taka eina stjett út úr og hamra og glamra á því, að hún sje órjetti beitt og henni einni beri að bjarga.

Þá voru það gamlar orðahnippingar milli mín og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), út af afnámi viðskiftanefndarinnar í fyrra. Sú deila er hv. þdm. kunn, svo um hana þarf ekki mikið af fjölyrða frá minni hlið. Þó verð jeg að mótmæla í því sambandi einni af mörgum kórvillum hv. þm. (J. Þ.) í þessu máli. Hann sagði, hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að það lægi skjallega fyrir, að togaraeigendur hefðu ekki sjeð sjer fært að halda útgerðinni áfram, nema viðskiftanefndin væri afnumin.

Vitanlega átti þetta að vera rothögg á mig og það, sem jeg hafði haldið fram. En þó að þetta liggi nú fyrir frá öðrum aðilja þessa máls, þá er það ekki mikils virði. Það, sem hv. þm. (J. Þ.) ætlaði því að sanna, er jafnósannað enn, og alt hans hjal í þessu efni órökstuddar fullyrðingar.

Það vill nú svo vel til, að annað hefir komið í ljós á eftir, og skal jeg þá byrja þar, sem hv. þm. (J. Þ.) hóf sögu sína, að tapast hefði af vertíðinni í fyrra um mánaðartími, af því að þessir háttvirtu herrar, sem að togurunum stóðu, sáu sjer ekki fært að leggja út á djúpið á meðan viðskiftanefndin var ekki aftekin. En þetta er eintóm blekking, eins og sjálfur háttv. þm. (J. Þ.) veit. Togaraeigendur hjeldu skipum sínum inni í höfn, vegna þess, að þeir töldu sjer hag í því að byrja seinna. Þeir þóttust nokkurn veginn vissir um, að sú fisktegund (upsinn), sem fylla mundi vörpurnar, yrði í svo lágu verði, að veiðin borgaði sig ekki. Þess vegna betra að bíða, þangað til víst væri um, að þorskurinn ljeti ekki á sjer standa. Það sanna í þessu máli er, að einmitt þegar búið var að afnema viðskiftahöftin eða gera þau máttlaus, þá hættu togararnir veiðum og lágu í höfn mikinn hluta ársins, að minsta kosti sumir þeirra.

Þá er eitt enn, sem jeg þarf að leiðrjetta. Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sneri út úr orðum mínum og rangfærði það, sem jeg sagði í gær um gjaldeyrismálið. En jeg gaf þó þar svo ljósa og glögga skýringu á málinu, að hver meðalgreindur maður átti að geta skilið, ef hann þá vildi það, enda stend jeg við alt, sem jeg sagði, og skal nú stikla aftur á aðalefninu:

Eins og við horfir nú, getur það orðið stórum erfiðleikum bundið fyrir ríkisstjórnina að standa í skilum með greiðslur þær, er hún þarf að inna af höndum á þessu ári, og yrði hún neydd til þess að nota þann innlenda gjaldeyri, sem hún gæti fengið, þá væri það í reyndinni sama sem að greiða tvo peninga fyrir einn.

Nú geri jeg ráð fyrir, að ýmsir stærri framleiðendur og kaupendur hafi erlendis fjárhæðir afgangs þörfum sínum, og ætti það fje þá að geta komið þjóðinni til gagns. Þess vegna ætti ríkisstjórnin að hafa íhlutunarrjett og fá að nota þetta fje, sem þeir þyrftu ekki á að halda í bili, vitanlega eftir samkomulagi við þá, sem eiga það, og greiða með því erlendar skuldir. Þetta ætti að vera framleiðendunum útlátalítið, en heildinni stórgreiði. Fjárhæðir þessar mætti greiða hjer strax eða þá síðar, enda finst mjer sennilegt, að sumir þessir fjáreigendur erlendis gætu beðið nokkurn tíma með að eyða þessu fje, og væri það landinu fyrir bestu.

Að þetta sje heppilegasta leiðin, vona jeg að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sjái, og sannfærist því um, að jeg hafi á rjettu að standa. Get jeg svo horfið frá þessu atriði, en vænti, að háttv. þm. geti fallist á eitthvað af því, sem jeg hefi sagt, og greiði svo að lokum atkv. með frv.

Þá finst mjer, að jeg verði að snúa fáeinum orðum til hv. frsm. meiri hl. (M. J.). Jeg hafði búist við, að hann tæki dýpra í árinni en hann gerði. Því honum hættir við að vera stórorður og margmáll, þó um smámuni sje að ræða, en að þessu sinni held jeg, að hann hafi nokkurn veginn ratað meðalhófið, og er það mikil framför.

En auðvitað var ræða hans krydduð með rangfærslum á orðum annara, staðlausum fullyrðingum hans og röksemdaþroti. Hann sagði t. d., að með höftunum yrði verslun okkar færð í sama horfið og á einokunartímunum. Þetta er auðvitað fjarstæða, sem engri átt nær og engum dettur í hug að leggja trúnað á, jafnvel ekki honum sjálfum, þó að hann kasti því fram óhugsuðu, eins og svo mörgum öðrum fullyrðingum sínum, það er mikill munur, hvort þing og stjórn gera bráðabirgðaráðstafanir til þess að hafa hönd í bagga með verslun landsmanna, svo viðunandi sje, eða þegar öll verslun þjóðarinnar var ofurseld erlendum auðfjelögum, sem skömtuðu vöru og verð úr sínum hnefa.

Aftur á móti væri ekki ástæðulaust að hugsa sem svo, ef þessi marglofaða og ágæta frjálsa verslun fengi að halda áfram og leika lausum hala án íhlutunar ríkisins, að hún yrði með tímanum litlu betri en á blómaöld einokunarinnar. Að minsta kosti hefir ýmislegt það komið í ljós nú á síðari árum, sem bendir í þessa átt, þó jeg hins vegar sleppi að nefna einstök dæmi, enda vil jeg ekki gefa neitt sjerstakt efni til, að umr. þessari verði haldið öllu lengur áfram.

En hitt þótti mjer óþarft af hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að taka mjer svo óstint upp, þó jeg benti á, að á meðal samherja hans í nefndinni myndu vera einhverjir honum fremri og færari til þess að flytja þetta mál í deildinni. Hann mætti þá vera fjölhæfari en margur hafði búist við, ef hann, auk aðalstarfs síns og kennimensku, væri svo vel lærður í verslunarfræðum, að enginn meðnefndarmaður hans stæði honum þar á sporði. Jeg hafði haldið annað, og því hafði jeg orð á því, að mjer kæmi undarlega fyrir sjónir, að sá maðurinn, sem hlyti að hafa einna minsta þekkingu á þessu máli, skyldi valinn frsm.

Jeg neita harðlega, að í þessum orðum mínum felist nokkur móðgun, enda þarf ekki annað en lesa nál. og ræðu frsm. (M. J.), sem nú er að koma út í blöðunum. Þar fæst sönnun fyrir því, að jeg hafi ekkert ofmælt, svo hv. þm. (M. J.) getur ekki ætlast til, að mjer sje mögulegt að afturkalla hið minsta af því, sem jeg sagði.

En svo var enn eitt, sem mjer kom undarlega fyrir í ræðu hv. frsm. meiri hl. (M. J.). Hann sagði, að ekkert gerði til, þó að frv. yrði samþykt og hitt og þetta stæði í lögunum. Engum kæmi til hugar að gera neitt með það sem í lögunum stæði. Sje hægt að slá þessu föstu fyrirfram, þá held jeg, að við ættum að hætta þessum leik. Hann er þá búinn að kosta nógu mikið. En ætli þetta sje ekki síðasta hálmstráið, sem gripið er til. Hv. frsm. (M. J.) sjer, að innflutningshöftunum hefir aukist fylgi með öllu hans skrafi á móti þeim, og hann er að búa sig undir að taka á móti þeim, með því að reyna að trúa því, að þau komi ekki að neinu gagni.

Hann sagðist heldur ekki búast við, að sjer tækist að sannfæra mig, eða „að jeg mundi ekki komast til sannleikans viðurkenningar í þessu máli,“ eins og hann orðaði það svo mjög prestslega.

Hann um það. En jeg veit með fullri sannfæringu, að mín skoðun er hollari þessari þjóð, en sú, sem hann hefir barist fyrir af miklu kappi, en litlum rökum.

Og jeg get bætt því við, hv. frsm. (M. J.) til huggunar, að jeg er sannfærður um, að mín skoðun sigri á sínum tíma, þótt það verði máske ekki nú þegar.