02.03.1922
Efri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (1649)

36. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Björn Kristjánsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með frv. þetta eftir beiðni kjósenda minna.

Ástæður þær, sem færðar eru fyrir frv., að því er laxveiðina snertir, eru teknar upp úr brjefi Mosfellshrepps til Alþingis, dags. 17. febr. þ. á. En við þær ástæður vil jeg bæta fáeinum orðum.

Eins og hv. deild þekkir, hefir laxveiði jafnan verið talin til hlunninda jarða. Og því hærra hefir jörðin verið metin, sem veiðin hefir verið meiri og betri. Því hefir sú jörð, sem hafði góða laxveiði, altaf verið hundraðafleiri en önnur, sem að öðru leyti hefir verið eins, og jafnframt betri gjaldstofn að sama skapi.

Áður var það sjaldgæft, að veiði væri seld eða leigð frá jörðum, en nú er það orðið mjög alment. Vaxandi efnahagur einstakra manna innanlands og erlendur ferðamannastraumur hefir valdið því.

Laxveiði, sem áður var einungis rekin til gagns, er nú víða rekin með stöng, ýmist til gagns eða gamans, eða hvorttveggja. Þó oft sje örðugt að greina á milli, hvort veitt sje til gagns eða gamans, hvort heldur veitt er með netum eða stöng, þá er þó ekki hægt að villast á því, að það er oftast allmikið verðmæti, sem notað er, þegar laxveiði er notuð, þó að þetta verðmæti sje notað til gamans.

Þar sem nú veiðin getur gefið arð, og hann oft mikinn, ef hún er rekin í því skyni að hafa arð af henni, þá virðist svo sem auðsætt, að þjóðfjelagið getur ekki mist hana frá því að vera tekjustofn; þó aldrei nema einhver útlendur eða innlendur auðmaður fari að nota þessa eign sem leikfang, þá verður verðmæti eignarinnar að geta haldið áfram að vera tekjustofn sveitarsjóðanna. En geti menn ekki fallist á þetta, þá hljóta líka jarðir, eða jarðahlutar, að verða útsvarsfrjálsar, ef þær væru notaðar til gamans, og jafnvel þó að þær væru notaðar til gagns og gamans. Því setjum svo, að einhver efnamaður keypti einhverja jörð og notaði aðeins tún hennar fyrir fótboltaleik eða leiki. Hann ætti því að vera útsvarsfrí, af því að hann notar jörðina aðeins til að leika sjer með hana. Á slíkan hátt nota engir veiði eða jarðir nema efnamenn. Og þeir eru sannarlega ekki of góðir til að greiða útsvar til sveitarsjóðs, úr því að þeir hafa afnot af hlunnindum í sveitinni. Og þeir hafa enga kröfu til þess að geta haft þessar tekjur af sveitarsjóðnum. Jeg segi hafa af sveitarsjóðnum, af því að áður hafði sveitin tekjur af laxveiðinni.

Jeg verð því að halda því fram, að hafi hlunnindi jarðar, svo sem laxveiði, verið verðmæti, þá getur og svo verið áfram, ef rjett er að farið, og þá líka borið aukaútsvar. Því má löggjafinn með engu móti láta viðkomandi hrepp missa þennan tekjustofn fyrir þá sök eina, að einhver aðvífandi ríkismaður finnur upp á því að kaupa hlunnindin, eða leigja þau, til þess eins að leika sjer að þeim.

Þessi skoðun mín er alls ekki ný, því jeg hjelt hinu sama fram 1903, og margir nýtir þingmenn. Og á þeirri skoðun mun 36. gr. í sveitarstjórnarlögunum frá 1905 vera bygð, að því er álag á laxveiði snertir, því að þá urðu ákvæði um það efni fyrst að lögum, og vil jeg sjerstaklega benda væntanlegri nefnd í málinu á þingskjöl frá 1903, nr. 184, og umr. í B-deild Alþt., bls. 727, og í A, bls. 444.

Þá kemur hitt atriðið:

Eins og kunnugt er, er Sandgerði eitt af bestu fiskiverum Faxaflóa. Þangað sækja útgerðarmenn úr ýmsum áttum og öðrum sýslum og reka þar útgerð frá því í febrúar og til vors. Samkvæmt ákvæði lagabreytingarinnar frá 1919 getur Miðneshreppur ekki lagt á þessa útgerð, sem virðist alveg óeðlilegt. — Ákvæði þetta getur því ekki átt heima í þessum lögum. Fyrir þá sök er hjer lagt til, að ákvæðið, sem nefnt er í ástæðum frv., verði felt burtu.

Jeg legg svo til, að málinu verði vís að til landbúnaðarnefndar.