03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (1673)

42. mál, landhelgisgæsla

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal fara að loflegu dæmi háttv. frsm. (M. K.) og vera stuttorður, jafnvel þótt ástæða væri til þess að fara nokkrum orðum um þetta mál af hálfu stjórnarinnar.

Jeg er háttv. nefnd þakklátur fyrir tillögur hennar og skal taka fram, að mjer þykir vænt um, að háttv. frsm. (M. K.) fór loflegum orðum um framkvæmd landhelgisgæslunnar síðasta ár. Það hafa komið fram ónot og aðfinslur út af strandgæslunni, bæði í blaðagreinum og víðar, nú upp á síðkastið, en það er samt áreiðanlegt, að síðasta árið hafa þeir menn haft hana með höndum, sem höfðu áhuga á að rækja hana af alúð og með dugnaði. Þá er og rjett hjá hv. frsm. (M. K.), að það þarf að flýta þessu máli sem mest, ef gagn á að að verða á þessu ári.

Jeg vil aðeins geta þess, að heppilegra mundi vera að setja „ríkisstjórn“ í stað „flotamálastjórn“, því þetta er fjárhagsmál, ekki síður en flotamál.

Ekki er rjett, að það hafi komið afturkippur frá Dana hálfu í þessu efni. Dönsku stjórninni finst, að ummæli hafi komið fram í þá átt, að óvíst sje, að Alþingi kæri sig um frekari aðgerðir í því.

Jeg hygg ekki, að til þess hafi verið ætlast frá Dana hálfu, að vjer leggjum fram fje til aukinnar strandgæslu frá þeim, enda væri það varla fært sem stendur, svo að um munaði.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta mál meira, en vona, að það verði afgreitt sem fyrst. Best væri, að það yrði afgreitt svo fljótt, að hv. Ed. gæti afgreitt það á morgun, því að fjárlagafrv. Dana er sagt komið til 3 umr., og í því þarf að gera ráð fyrir aukinni strandgæslu hjer, ef verða á í ár.