03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (1679)

42. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Það er fjarri mjer að ætla að fara að vekja deilur út af þessu máli. Mjer virðist það öldungis óviðeigandi, enda enginn gefið tilefni til þess, nema hv. þm. Dala. (B. J.), og mun jeg víkja að því nokkrum orðum síðar.

Þá ætla jeg með fáum orðum að svara athugasemdum þeirra hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hv. þm. Borgf. (P. O.). Hvað snertir orðalagið, að viðkunnanlegra sje að setja „ríkisstjórn“ í stað „flotamálastjórn“, þá er jeg ekki þeirrar skoðunar, því þótt það sje þingið, sem hefir hið endanlega úrskurðarvald í þessu efni, þá mun þó eingöngu vera farið eftir áliti flotamálastjórnarinnar. Finst mjer því þessi breyting síst til bóta, enda mundi hún tefja tímann, en eins og áður er tekið fram, ríður á að hraða þessu máli sem mest.

Þá er hitt atriðið, að „ef nauðsyn krefur, bjóða fjárframlag úr ríkissjóði upp í kostnað þann, er af rekstri tveggja gæsluskipa leiðir“.

Orðalag þetta er valið með tilliti til þess, að það kemur auðvitað því aðeins til mála að veita fje úr ríkissjóði, að skipin verði tvö. Mjer finst þetta því nægilega skýrt og engin ástæða til að breyta því.

Annars get jeg að ýmsu leyti verið hv. þm. Borgf. (P. O.) sammála. Það væri miklu betur farið, ef við af eigin ramleik gætum haldið úti skipi til strandgæslu. En af praktiskum ástæðum og í samræmi við þá sparnaðarstefnu, sem nú ríkir í hv. Alþingi, álít jeg þetta fyrirkomulag skynsamlegast.

Hvað snertir fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), þá má líta á það mál frá ýmsum hliðum, og er mjer ekkert kappsmál, hvernig því verður hagað, en jeg hygg þó, að allflestir sjeu þeirrar skoðunar, að það sje betur farið, að þessi sjóður aukist sem hraðast, svo sem allra fyrst verði auðið að ráðast í að gera út skip, sem sje eign ríkisins og stjórnað af innlendum mönnum. Jeg álít því tiltækilegast að veita þetta fje úr ríkissjóðnum.

Jeg sje ekki nokkra ástæðu til að fara að eiga orðakast við hv. þm. Dala. (B. J.) um þetta efni. Jeg hefi lýst yfir því áður, og ekki skift um skoðun síðan, að hann yrði naumast tekinn alvarlega, er um praktisk mál væri að ræða. En ummæli hans koma venju fremur undarlega fyrir sjónir, er maður athugar afstöðu hans í ráðgjafarnefndinni.

Jeg er annars ekki í miklum vafa um, að mál þetta nái fram að ganga. Enda væri mikið ólán, ef á annan veg færi, því þetta virðist eina rjetta leiðin til að ráða málinu farsællega til lykta.