27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Jónsson:

Jeg er að vísu þakklátur forseta fyrir að hafa veitt mjer orðið. En mjer þætti þó gott, að fleiri þm. væru í sætum sínum. Deildin virðist öll vera eins og fje á afrjetti, og sýnir það best, hve gagnslausar umr. eru. Jeg á hjer eina brtt., og þó litla, á þskj. 153, XXVI. lið, við 19. gr., um greiðslufrest á skuld Ólafs Hvanndals. Jeg bar fyrst fram till. um að fella þessa skuld niður, en það fann nú ekki náð fyrir augum háttv. deildar. Jeg vil þó þakka háttv. fjvn. fyrir tillögur sínar eins langt og þær náðu.

Nú kem jeg með þessa tillögu aftur en mjög svo breytta, því nú er ekki um að ræða nema svo örlitla upphæð að jafnvel, hinir þefvísustu munu naumast finna af þessu eyðsluþef.

Og nú er orðin úr þessu í raun rjettri sparnaðartillaga, því það er sparnaður að verða af nokkrum krónum í 2 ár til þess að varna því að fje það, sem varið er til myndagerðar fari út úr landinu. Auk þess vinnur það bókmentunum mikið gagn.

Þá get jeg ekki stilt mig um að minnast á till. um að fella niður styrkinn til útgáfu Alþingisbókanna, Landsyfirdóma og Jarðabókar Árna. Þetta er lítil upphæð og bjóst jeg ekki við, að neinn mundi álíta, „að ættjörðin frelsaðist þar“. Saga vor er afarmerkileg, en vanrækt. Og vanrækslan liggur í því að heimildirnar liggja í söfnum, óaðgengilegar fyrir flesta. Það er því nauðsynjamál að koma þessum ritum út, og þessi rit eru öll í tölu verðmætustu heimilda. Dómarnir og Jarðabókin er hálfnað verk og ónýtt nema því sje lokið. En þó eru Alþingisbækurnar langmerkastar.

Í rauninni eru það tvö heimildarrit, sem taka öllu öðru langt fram, en það eru Fornbrjefasafnið og Alþingisbækurnar. Þau mega heita mænirás sögunnar. Og nú er svo komið, að útgáfa Fornbrjefasafnsins er komin mjög nærri þeim tíma, þegar Alþingisbækurnar byrja, en svo má að orði kveða, að eigi sje hægt að rannsaka söguna fullkomlega, nema hafa þessar bækur.

Viðvíkjandi því, að fella megi niður útgáfu þessara rita um stund, er það að segja, að vinna að útgáfu slíkra rita er ekkert áhlaupaverk. Til þess þarf þrautseigju og elju. Þar á móti þurfa þau eigi nema lítinn stuðning, en sá stuðningur má eigi niður falla.

Hjer er um svo smáar upphæðir að ræða, að litlu munar um þær, hvort sem gott eða vont er í ári, og býst jeg við, að formaður sparnaðarnefndar, sem sjálfur er söguelskur maður, hafi flutt þessa sparnaðartillögu með þungu hjarta.