03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (1681)

42. mál, landhelgisgæsla

Jakob Möller:

Jeg held, að jeg þurfi ekki að taka til mín þau orð, sem hjer hafa fallið um óviðurkvæmileg ummæli, er blöðin eiga að hafa flutt um strandvarnir Dana hjer. Það er þó ekki af því, að mjer hafi eigi verið sent ýmislegt af því tæi til birtingar, og eigi heldur af því, að ekkert hafi mátt að strandgæslunni finna síðastliðið ár, þó að svo virðist, sem ýmsir hv. þm. sjeu nú í sjöunda himni yfir henni. Er mjer einmitt vel kunnugt, að strandvörnunum var mjög ábótavant, bæði norðan lands og sunnan, þetta ár. Svo mikið er víst, að „Fylla“, skipið sem var hjer syðra, lá lengst af hjer inni á Reykjavíkurhöfn.

Um leið verð jeg þá að vekja athygli hv. þm. á því, að eigi fer altaf saman góð gæsla landhelginnar og há tala tekinna botnvörpunga. Hitt er miklu meira um vert, að botnvörpungum sje haldið burt frá landhelginni. Þótt annað danska skipið hafi „veitt vel“, þá er það engin sönnun þess, að það hafi rækt vel vörnina.

Eitt íslenskt skip, „Þór“, varði suðurströndina í fyrra á vertíðinni. Þar var sú gæsla, sem vjer þurfum. Skipið lá oftast nær úti og var á sveimi á þeim stöðvum, þar sem helst var hætt við, að botnvörpungarnir gerðu usla innan landhelginnar, og þegar botnvörpungarnir urðu varir við það, þorðu þeir ekki að reyna. Slíka vörslu þurfum vjer að fá, en hana fáum vjer ekki fyr en vjer tökum málið í vorar eigin hendur. Og þegar skipin halda sig þannig á þeim slóðum, sem verja á, þá er þess eigi þörf, að þau sjeu mjög hraðskreið. En hitt er satt, að þegar skipin liggja oftast inni, og skreppa aðeins út öðru hverju, þá er betra að hafa þau hraðskreið, ef veiðifarir þeirra, þá sjaldan þær eru farnar, eiga ekki líka að verða árangurslausar.

Jeg mun greiða atkvæði á móti þessari till. Hún gengur í öfuga átt við það, sem stefna ber. Hún er tilraun til þess að sveigja oss frá þeirri braut, að taka strandvarnirnar í vorar hendur sem fyrst. Auk þess er í till. gert ráð fyrir að leigja dönsk varðskip til strandvarnanna, svo að ekki þarf að láta það fæla sig frá því að ráðast í að annast þær sjálfir, þó að nokkur kostnaður verði við það. Hygg jeg, að því mætti koma svo fyrir, að kostnaðurinn yrði oss ekki ofviða. Vjer getum notað „Þór“ fyrir sunnan, og þá dettur mjer í hug, hvort ekki mætti fyrst í stað nota þau skip, sem ríkissjóður á. Þau hafa víst fremur lítið að gera, og þá virðist vera nær að nota þau heldur en að láta þau liggja við garðinn og hafa mennina í landi á fullum launum. Og þótt þau sjeu skriðminni en varðskip alment gerast, þá hefi jeg nú bent á, að minni hraða er þörf, ef skipin eru höfð á varðbergi á þeim slóðum, sem verja á.

Mjer heyrðist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) vera að tala um einhverja samninga um sektirnar. Þar er aðeins sá hængur á, að þingið neitaði að viðurkenna þá samninga. En það skil jeg vel, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sje um það hugað, að samningar þessir við Dani, um strandvarnirnar, sem gert er ráð fyrir í till., gangi fram. Það er í samræmi við fyrri aðgerðir hans í þessu máli, einmitt að girða sem tryggilegast fyrir það, að landsmenn taki þær að sjer sjálfir, og þykist jeg vita, að þessi tillaga sje frá honum komin, sem einskonar kveðja.