03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (1682)

42. mál, landhelgisgæsla

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að jeg hafi sagt, að samið hafi verið eða hálfsamið um nokkurt tillag til Dana af sektunum, og er það rjett. Hitt veit jeg líka, að þingið neitaði þessu, og er það mál nú afgert fyrir löngu.

Samanburður hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) á „Þór“ og dönsku skipunum var ekki heldur allskostar rjettur. „Þór“ gætir aðeins lítils svæðis, aðallega þess svæðis, þar sem veiðarfæri Eyjamanna eru í hættu. Ef verja ætti á sama hátt alla strandlengjuna, þá þyrfti mörg skip. En um það, hvort hægt sje að láta varðskip liggja úti, og nota til þess skip, þótt ekki sjeu hraðskreið, eru skiftar skoðanir meðal sjerfræðinga, og skal jeg engan dóm á það leggja.

Jeg tel ekki heldur vert að fara að vekja hjer upp gamlar deilur, og vil jeg ekki taka þátt í því, með því að málið er nú komið á rjettan rekspöl, samkvæmt því, er jeg fyr og síðar hefi haldið hjer fram.