03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (1683)

42. mál, landhelgisgæsla

Pjetur Ottesen:

Mjer hefir skilist, að helst ætti að taka þessa till. til síðari umr. líka í dag. Nú vildi jeg skjóta því til nefndarinnar, eða hv. frsm. (M. K.), hvort ekki væri óhætt að láta það dragast til morguns. Mjer er kunnugt um, að allmargir þdm. eru eins og jeg óánægðir með orðalag till., einkum síðari hlutann, sem öldungis er ótækt að samþykkja eins og hann er. En til þess er ekki tóm, ef reka á af síðari umræðu þegar á eftir þessari.

Úr því jeg stóð upp, þá vildi jeg líka leiðrjetta misskilning þann, sem fram kom hjá hv. þm. Dala. (B. J.). Hann virtist halda, að einu gilti, hvort landhelgin væri varin eða ekki, þar sem ekki væri stunduð veiði úr landi. Jeg vil nú aðeins benda honum á fiskigöngurnar hjer við suðurströndina. Nálægt Ingólfshöfða gengur fiskurinn af hafi og upp að landi, og síðan kemur gangan vestur með. Og þótt ekki sje hægt að veiða úr landi þar fyrir söndunum eystra, eða sjaldnast, þá gengur fiskurinn alveg upp við landsteina, en utan landhelgi, og jafnvel þótt ekki sje utar en á 10–15 faðma dýpi, fæst engin branda. Ef botnvörpungar gætu neytt sín þarna uppi við land og fylgt göngunni alla leið með söndunum, þá er víst, að það hefir mjög mikil áhrif á fiskigöngurnar og aflann alstaðar austan fjalls, og hjer í Faxaflóa líka.