04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (1689)

42. mál, landhelgisgæsla

Pjetur Ottesen:

Jeg lýsti yfir því í gær, að jeg gæti alls ekki fallist á till. þá, er hjer um ræðir, eins og hún er orðuð, og á jeg þar þó einkum við síðari hluta hennar. Var mjer hið sama kunnugt um nokkra hv. þdm. Það, sem fyrir mjer vakti, var einkum það, að óheppilegt væri að semja um þetta til þriggja ára. Hag okkar er tvímælalaust best borgið með því, að við tökum landhelgisgæsluna í okkar hendur sem fyrst, og virðast allir vera sammála um, að svo eigi að vera. En nú óttast jeg, að það mundi ef til vill draga úr áhuganum fyrir þessu, ef gerðir væru slíkir samningar við Dani, sem í till. er ætlast til, til þriggja ára. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 66, og er þar ekki gert ráð fyrir svo löngum samningi. Nú vildi jeg einkum spyrja hæstv. forsætisráðherra. (J. M.), hvort hann hyggur eigi, að samningar gætu tekist á þann hátt, að samið væri til aðeins eins árs í senn.

Þá er annað atriði, sem einkum, eða ekki síður, olli því, að jeg get ekki fallist á till. Það er það, sem sagt er í síðari lið till., að bjóða megi fjárframlag til rekstrarkostnaðar tveggja skipa. Hv. frsm. (M. K.) upplýsti nú raunar, að eigi væri tilætlunin að greiða nema fyrir það skip, sem við væri bætt. En eins og þetta er orðað í till., þá verður þetta helst eigi skilið á annan veg en þann, að verið sje beinlínis að bjóða fram fje til greiðslu á öllum þeim kostnaði, er leiðir af landhelgisgæslu Dana hjer við land. En slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt, að vera að gefa Dönum undir fótinn með slíkt, því að þeir eru lagalega skyldir til að hafa hjer að minsta kosti eitt landhelgisgæsluskip, og eigi verður því heldur neitað, að fulla sanngirniskröfu eigum við á því í rauninni, að Danir ljetu hjer meiri landhelgisgæslu í tje, án sjerstaks endurgjalds, svo vanrækt sem landhelgisgæsla þeirra hefir verið að undanförnu, og stundum með öllu fallið niður. Og ef þessu orðalagi er haldið, þá held jeg, að danska stjórnin gæti ekki varið það fyrir sínu þingi, að ganga ekki eftir þessu framlagi, sem Alþingi þannig byði fram. Og ef til kæmi, og ekki yrði hjá því komist að greiða eitthvað, þá virðist mjer liggja næst að ákveða þeim einhvern hluta sektarfjárins.

Hv. frsm. (M. K.) mintist ekki á mína brtt., heldur talaði um það ógagn, sem af því hlytist að fella till. sjávarútvegsnefndar. Jeg vona nú einmitt, að ná megi fullum árangri með því að samþykkja mína brtt., án þess að binda hendur sínar um fjárframlag og annað alt um of.