27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1923

Sveinn Ólafsson:

Jeg held nú reyndar, að þeim tíma sje illa varið, sem fer til að halda hjer ræður í kvöld, því þingmenn virðast lítinn gaum gefa þeim. Væri ef til vill snjallast að slíta fundi.

Jeg á hjer tvær brtt. og hefir önnur þeirra verið rædd áður, sú við 15. gr. 20 a. Jeg flutti svipaða brtt. við 2. umr. fjárlaganna og vildi þá láta hluta orðabókarstyrknum milli tveggja, þannig, að annar fengi 3500 kr., en hinn 1500 kr. Þessi till. mín, sem átti að miða til sparnaðar, fjell og í stað þess, að jeg ætlaði að spara 2000 kr. af þessum 7000 kr., þá bættust 1500 kr. við 7000 kr., sem fyrir voru, og varð þetta aukin eyðsla, en enginn sparnaður.

3500 kr. þóttu of lítið fyrir aðalmanninn, og var nokkur von til, að svo yrði á þetta litið, með hliðsjón af fjárveitingunni undanfarið. En þó er á það að líta, að margir uppgjafaembættismenn — en þannig verður að skoða þann mann, sem hjer á í hlut — og þótt fjölskyldumenn sjeu, fá minna, t. d. sumir uppgjafaprestar, er njóta eftirlauna að 1/6 eða 1/8 við þennan mann, og er honum þá eigi gert lægra undir höfði.

Frsm. fjvn. (B. J.) segir reyndar, að hjer sje um vísindamann að ræða, sem eigi hið besta skilið. Um það segi jeg ekkert, en set stórt spurningarmerki við þessa staðhæfingu frsm. (B. J.: Það er best að láta það standa í Firði!). Jeg hygg líka að orðabókin komi seint út með þeim vinnubrögðum, sem notuð hafa verið síðustu árin, og jafnvel megi á sama standa verksins vegna, hvort maðurinn fær 1 þúsund eða 7. Enda mun skorta margt til þess að verkið vinnist vel, og þá ekki síst það, að vísindamaðurinn svonefndi mun naumast vera starfsfær. Allir vita, að þetta er bitlingur og ekkert verkkaup. Jeg verð því að telja sanngjarnt, að þessi maður fái jafnt öðrum uppgjafaprestum, og hvað sem þar fer fram yfir verður að skoða eins og gjöf eða sjerstaka ívilnun. Að hann hafi slept öðru starfi og verið keyptur til að vinna þetta verk er ekki rjett hermt. Hann sótti eftir því. Háttv. frsm. fjvn. kannaðist við það við 2. umr. fjárlaganna, að þetta væri bitlingur, en neitar því í kvöld. En þeir eru fleiri bitlingarnir, og mun háttv. frsm. álíta að eigi saki, þótt þessi fljóti með. En þótt úi og grúi af þeim og þeir sjeu misjafnlega rjettmætir, þá tel jeg þennan einna ómaklegastan.

Þá er hjer till., sem jeg, ásamt háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefi borið fram. Hún er um lánsheimild til stofnunar tveggja klæðaverksmiðja, 50 þúsund kr. til hvorrar, eða 100 þúsund alls, þegar að því kemur að þær verði stofnaðar.

Jeg vil stuttlega lýsa undirbúningi þessa ullariðjumáls í Suður-Múlasýslu.

Á síðastliðnu vori var kosin undirnefnd af sýslunefnd Suður-Múlasýslu til að undirbúa stofnun klæðaverksmiðju við Reyðarfjörð. Þetta var gert í samræmi við þál.till. þá, er samþykt var hjer á þingi í fyrra og laut að stofnun ullariðnaðar og opinberum styrk við hann.

Nefndin starfaði í sumar að því að safna fje, afla upplýsinga um kostnað við áhöld og tæki og virkjun vatns í þarfir fyrirtækisins. Lóð var útveguð í Bakkagerðislandi við Reyðarfjörð og leyfi til að nota Búðará, sem er að hálfu eign hins opinbera, en að hálfu eign Bakkagerðismanna. Sótt hefir verið um virkjunarleyfi á ríkishluta árinnar, og mun stjórnin hafa veitt greið svör um það.

Þá hefir nefndin leitað álits Halldórs rafvirkjafræðings Guðmundssonar um virkjunarmöguleikana, og hefir álit hans, sem mjög mælir með staðnum, legið hjer frammi frá þingbyrjun.

Eftir þennan bráðabirgðaundirbúning ritaði nefndin Alþingi í janúar og fór í því brjefi fram á það, að það veitti styrk til fyrirtækisins, annaðhvort með láni eða hlutakaupum.

Þessi skjöl liggja hjer á lestrarsalnum og háttv. þingdeildarmenn hafa haft færi á að kynna sjer þau. Eystra hefir verið safnað um 80 þús. kr. til þessa fyrirtækis og er magnið af þessu fje fengið í sveitum þeim sem liggja að Reyðarfirði.

Jeg fór við 2. umr. fram á 80 þús. kr. lán til þessa fyrirtækis, sem búist er við að muni kosta fullgert 300–400 þús. krónur. En jeg geymdi þá till. til 3. umr., með því að ekki var fengið samkomulag í fjvn. um það, hvernig með þetta mál skyldi fara. Bjóst jeg við, að samkomulag næðist síðar.

Háttv. frsm. (B. J.) hefir nú lýst áliti sínu, og gat þess að meiri hluti fjvn. væri meðmæltur því að veita alt að 60 þús. kr. lán, þegar reynt væri, að fyrirtækið væri arðvænlegt og myndi borga sig. En ef bíða á eftir því, að reynslan leiði í ljós arðvænleik þessa fyrirtækis, þá getur það dregist nokkur ár, og má líta á slíkan stuðning við málið eins og óbeint afsvar.

Þingsályktunartillögu síðasta þings má vitanlega ekki skilja svo, að stuðningur ríkisins við ullariðjufyrirtækin eigi að koma eftir dúk og disk, heldur þegar greinileg áætlun er fengin um líkur fyrir arðvænlegum rekstri og aðstöðu til vatnsvirkjunar o. fl.

Um aðstöðuna á viðkomandi stað til vatnsnotkunar er það víst, að í fjörðunum, Reyðarfirði, Eskifirði, Mjóafirði og Seyðisfirði, er hver staðurinn öðrum betri til þeirra hluta. Aðstöðuþægindin eru framúrskarandi góð, og skal jeg í því sambandi, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp niðurlagsorð úr brjefi frá Halldóri Guðmundssyni raffræðingi um rannsókn hans á Búðará:

„Það er skoðun mín, að Reyðarfjörður eigi þarna góða námu eða aflsuppsprettu, sem geti hafið bygðarlagið upp til meiri hagsældar, ef rjett er með farið. Jeg hefi ekki víða sjeð eins góða staðhætti fyrir svona stóra stöð“.

Þetta atriði þarf eigi frekari úrlausnar eða vitna við um. Allir þeir, sem nokkuð þekkja til minniháttar vatnsvirkjunar, vita, að þarna er hver staðurinn öðrum betri, þar sem tiltölulega vatnsmiklar þverár falla úr bröttum fjöllum í alla firðina.

Þá er annað atriði, sem jeg verð að leggja mikla áherslu á og frsm. kom nálægt í ræðu sinni. En það eru önnur aðstöðuþægindi til ullariðnaðar þarna, sem hafa það í för með sjer, að fyrirtækið ætti að notast vel og verða mikið aðsótt og má þar til nefna samgöngur á sjó og landi. Það blandast nú engum, sem þekkir staðhætti á Austurlandi, hugur um það, að einnig í þessu efni er Reyðarfjörður heppilegasti staðurinn. Þar er eini akfæri vegurinn í hjeraðinu, og tengir hann fjarðsveitirnar við Fljótsdalshjerað.

Í öðru lagi er Reyðarfjörður og 3 næstu firðir fólksflestu sveitir þar um slóðir. Þar býr hartnær helmingur allra íbúa Múlaþings. Í þessum fjörðum er um 3½ þúsund manna, en íbúar beggja sýslnanna eru um 9 þúsundir.

Jeg hefi borið þessa till. fram ásamt hv. 1. þm. Árn. (E. E.), sem er mikið áhugamál að koma á fót ullarverksmiðju á Suðurlandsundirlendinu. Þetta mál er að vísu eigi eins vel á veg komið þar eins og fyrir austan, en þó mun nokkur viðbúnaður þar gerður.

En nú hefir það kynlega fyrirbrigði gerst, að eftir að við flm. þessarar till. bárum hana fram, hafa háttv. þm. N.-M. fengið hana að láni á skrifstofu þingsins, umritað hana og felt úr henni eitt orð, sem sje staðbindinguna við Reyðarfjörð, og síðan borið hana fram sem sína tillögu. Þeir hafa sagt, að þeir álitu málinu betur borgið á þennan hátt, að staðbinda ekki, og láta á sjer skilja, að þeir með því vilji bjarga málinu. Jeg verð víst að trúa því, að þetta sje af velvild til málsins gert, þótt jeg eigi hinsvegar næsta bágt með að skilja það. En jeg er samt þess fullviss, að þetta spillir fyrir fyrirtækinu, en bætir ekki.

Það var um aldamót, að tilraun var gerð í sömu átt og þessa á Seyðisfirði. Þar var safnað fje og staður ákveðinn. En það strandaði á því, að hluttaka fjekst langt of lítil nyrðra, en syðri hluti Múlaþings skarst úr leik. Það var aðeins Seyðisfjörður og hjeruðin þar í kring, sem fáanleg voru til hluttöku.

Þegar það er nú athugað, að síðan hefir fólki fækkað á Seyðisfirði og næstu sveitum, útvegur minkað þar, en færst suður á bóginn til Norðfjarðar, Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, þá hygg jeg, að líkurnar sjeu orðnar litlar fyrir því, að fje fáist til stofnunar fyrirtækisins á Seyðisfirði, en að því stefnir till. háttv. N.-M. þingmanna. Það yrði aðeins til að ala á reipdrætti þeim, sem átt hefir sjer stað milli staða þessara, Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar, og gæti þá leitt til þess að eyðileggja fyrirtækið á báðum stöðum.

Með það fyrir augum, að þetta er nauðsynjafyrirtæki, vil jeg því fara fram á, að þessir hv. þm., sem virðast vilja fyrirtækinu vel, þótt velvildin sje misskilin, taki sína till. aftur. Eins og jeg tók fram áðan, mun hún aðeins ala á reipdrætti milli hjeraðanna og spilla fyrir málinu, því að mjer er kunnugt um það, að lítið eða ekkert af því fje, sem nú er búið að safna, fæst til fyrirtækisins á Seyðisfirði. En ef háttv. þm. sjá sjer ekki fært að taka till. aftur, þá vil jeg mælast til þess, að allir þeir, sem vilja þessu þarfa fyrirtæki vel, greiði atkvæði á móti þessari fleygtillögu háttv. þm. N.-M. og samþykki till. okkar háttv. 1. þm. Árn. (E. E.).

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira. Jeg læt skeika að sköpuðu, hvernig fer, en vænti þess þó í lengstu lög, að þessir háttv. þm., sem af misskildri hjálpsemi hafa ætlað að hlaupa undir bagga, sjái hvað við liggur, ef spilt er þessu máli.