04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (1693)

42. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður, því að ræður hv. þm. hafa ekki gefið mjer veruleg tilefni til andmæla.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) lýsti því, hvað fyrir sjer hefði vakað og knúð sig til þess að bera fram brtt. á þskj. 66. Jeg efa það ekki, að þessi hv. þm. muni vilja málinu alt hið besta, en í þetta sinn hygg jeg till. hans ekki vera til bóta, og því mun jeg ekki ljá henni atkvæði mitt.

Þessi hv. þm. (P. O.) taldi till. nefndarinnar þannig orðaða, að til mála gæti komið að taka þátt í kostnaði beggja skipanna. En þetta er misskilningur, enda yrði það samningi bundið, að við aðeins tækjum þátt í kostnaði við annað skipið. En orðalagið átti að tákna það, að ekki kæmi til mála fjárframlag af vorri hálfu, nema annað skip yrði sent hingað til viðbótar því, sem fyrir er.

Annað atriði hjá þessum sama hv. þm. (P. O.) var það, að fult svo heppilegt væri, að hluti af sektarfjenu gengi til rekstrar aukaskipsins. En mjer finst slíkt fremur óviðfeldið, því þá gæti litið svo út, sem öll áherslan lægi á því að handsama sem flest skip. En það er ekki aðalatriðið við strandvarnirnar, heldur miklu fremur hitt, að varna því, að nokkurt skip veiði í landhelgi.

Enn fremur taldi sami hv. þm. (P. O.) það óheppilegt að semja til langs tíma, því slíkt tálmaði því, að við tækjum sjálfir strandgæsluna. En mjer finst þessi ástæða, satt að segja, fremur veigalítil. Þrjú ár eru ekki langur tími, og mun okkur eigi af þeim tíma veita til undirbúnings. Jeg held, að við ættum ekki að hrapa að því að kaupa gamla skipskrokka til strandvarna, heldur ættum við fremur að reyna að eignast nýtt skip, með góðum útbúnaði, þótt dýrara kunni að verða. Það er ekki ávalt spámaður að kaupa það ódýrasta. Auk þess er það vitanlegt, að við höfum ekki mönnum á að skipa nú til þess að starfrækja slíkt skip. Og þó að till. nefndarinnar verði samþykt óbreytt, þá er ekki þar með sagt, að stjórnin þurfi endilega að semja til þriggja ára. Hún er alls ekki bundin við að nota heimildina út í æsar.

Jeg get verið stuttorður í garð hv. þm. Dala. (B. J.). Hann gat þess, að það væri hreinasta frágangssök að semja við Dani á þennan hátt, því þá værum við sjálfir útilokaðir frá því að taka þátt í strandvörnunum. En þetta er helber misskilningur. Þó að samið sje um tvö skip, útilokar það alls ekki, að við sjálfir getum aukið gæsluna, ef okkur sýnist. Þessi ástæða er því gersamlega þýðingarlaus.

Þá var þessi sami hv. þm. (B. J.) eitthvað að tala um reifarakaup á skipi og um síld í Eyrarsundi. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvað síld í Eyrarsundi kemur þessu máli við. En viðvíkjandi hinu atriðinu vil jeg geta þess, að sá er ekki ávalt hygnastur, sem ódýrast kaupir, heldur sá, sem bestan hlut fær. Vjer þurfum að eignast gott skip og traust; hitt er aðeins málamyndakák.

Jeg vil ekki geta þess til eða halda því fram, að hv. þm. Dala. (B. J.) sje yfirleitt fjandsamlegur öflugum strandvörnum, af því að hans kjósendum má það mál í ljettu rúmi liggja. En það má vera, að sumum finnist sú hugsun ekki liggja mjög fjarri. En þeir menn, sem eiga alt sitt undir sjávarútveginum, munu ekki verða hv. þm. Dala. (B. J.) þakklátir, ef honum nú tekst að spilla þessu máli hjer á þinginu. En jeg ber það traust til hv. deildar, að honum takist það ekki.