04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (1699)

42. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Mjer var ekki vel ljóst, hvað hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) átti við, er hann var að tala um uppgjöf rjettinda. Vænti jeg þess, að hann hafi ekki beint því að till. okkar. (J. Þ.: Nei, því var ekki þangað stefnt). Það er alt annað, sem okkar tillaga fer fram á, sem sje að komast á skynsamlegan hátt að hagkvæmum samningum við Dani um lendhelgisgæsluna.

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. þm. Dala. (B. J.). Ræða hans gaf ekki mikið tilefni til þess. Vil þó taka það fram, að það er rangt hjá honum, að við afsölum okkur með þessu íhlutunarrjetti þeim, sem við höfum samkvæmt sambandslögunum. Það er barnaskapur að halda slíku fram.

Sami hv. þm. (B. J.) sagði, að jeg vissi ekki, hvað jeg væri að tala um. Jeg vissi það fyr, að hann hafði ekki mikið álit á mínu viti. Það er kunnugt, að hann álítur, að aðrir hafi ekki vit á neinu, en sjálfur þykist hann vita alt. Hvað svona gífurlegt sjálfsálit ætti að kallast, ætla jeg að láta aðra dæma um. Alt hjal þessa sama þm. (B. J.), um tilboð var úti á þekju, og ætla jeg því að sneiða hjá því. Þetta ómerkilega tilboð hans hafa víst fáir tekið alvarlega. Þessi dallur var alls ekki nothæfur til strandvarna, og því alt of dýr. Það var einróma álit sjávarútvegsnefndar, að ekkert væri á tilboðinu að græða. Svo það er lítil uppbygging í að ræða það lengur.