07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (1712)

42. mál, landhelgisgæsla

Halldór Steinsson:

Jeg hefði helst kosið, að ekki hefði verið ástæða til að flytja þessa till., og sú ástæða hefði að líkindum ekki verið fyrir hendi, ef þetta mál hefði verið rætt með meiri stillingu og gætni en raun varð á á síðasta þingi. En eitthvað verður að gera í þessu máli, ef fiskiveiðar vorar eiga að haldast við og heil þorp eiga ekki að leggjast í eyði vegna þess, að botnvörpungar hafa þurausið fiskimiðin. Undanfarin ár, fram að árinu 1921, hafa strandvarnir verið í hinu mesta ólagi, og vil jeg ekki kenna það Dönum einum, heldur eiga íslensk stjórnarvöld hjer mikla sök á máli. Fram að 1921 hafa þau sýnt lítinn áhuga á því að halda fram kröfum og rjetti Íslendinga í þessu efni, og jeg geri ráð fyrir, að Dönum hefði engu að síður verið ljúft að bæta úr vörninni þá, sem nú, þetta síðasta ár, og við það hefði sparast mikið fje, sem hefir beinlínis verið rænt af fátækum íslenskum fiskimönnum, vegna yfirgangs erlendra og innlendra botnvörpunga. En það tjáir ekki að harma það liðna, enda hafa bæði Danir og stjórnin reynt að bæta af þessu með áhuga þeim, sem þau hafa sýnt á síðasta ári. Vörnin hefir verið margfalt betri en undanfarið, þó að hún sje enn langt frá því að vera fullkomin, enda er ekki hægt að búast við slíku af einu skipi. Við höfum verið svo hepnir að fá fyrir foringja á Islands Falk ágætan mann, sem kunnugur er högum Íslands og hefir sýnt staka árvekni í starfi sínu. Hann hefir altaf verið til taks þegar á hefir þurft að halda, eftir því sem unt var, en eitt skip getur ekki komist yfir að verja alla landhelgi Íslands.

Það er tekið fram í 8. gr. sambandslaganna, að Danir skuli annast hjer strandvarir, en í athugasemdum við þá grein er það tekið fram, að þeir skuli haga þeim svo, sem verið hefir áður en sambandslögin gengu í gildi. Það getur því verið álitamál, hvort Danir telji sjer skylt að annast aukna gæslu, en ef það ætlar að verða málinu til falls, þá tel jeg illa farið, að seinni hluta till. var slept í hv. Nd. Við verðum að fá þessu kipt í lag, þó að það verði ekki með öllu kostnaðarlaust. Jeg veit, að allir þeir, sem sjeð hafa blómleg þorp og kauptún verða að eyðistöðum, með öreigalýð, vegna yfirgangs botnvörpunga, eru mjer sammála í þessu efni. Þeir hljóta að hugsa og tala eins og jeg. Jeg vil því skora á stjórnina, að hún beiti sjer fyrir því, að Danir auki strandgæsluna, og ef þeir verða ekki við þeim tilmælum vorum, vona jeg, að það svar komi nógu tímanlega til þess, að þetta þing geti tekið til sinna ráða. Það er sjerstaklega áríðandi, að lipur samvinna eigi sjer stað milli Dana og Íslendinga í þessu máli. Eins og það er sjálfsagt, að við höldum fast við þann rjett, sem við höfum samkvæmt sambandslögunum, eins er það fjarstæða, og aðeins til að spilla málstað okkar, að halda fram með uppblásnum þjóðernisrembingi ímynduðum kröfum, sem hvergi eiga heima nema í skýjunum. Jeg segi þetta af því, að því miður hefir áður hjer á þingi verið sagt ýmislegt í þessu máli, sem betur hefði verið ósagt.