07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1716)

42. mál, landhelgisgæsla

Karl Einarsson:

Hv. þm. Snæf. (H. St.) hefir algerlega misskilið mig, þar sem hann heldur því fram, að jeg álíti, að við þurfum að hafa 7–8 skip, eða þaðan af fleiri. Meira en 3 skip, 2 bundin við fast svæði, en 1 laust og liðugt, álít jeg alls ekki að þurfi fyrst um sinn. Hjer hagar svo til, að fiskveiðar eru mestar fyrir norðan og vestan land á sumrum, en sunnan og vestan á vetrum. Að okkur sje algerlega ókleift að vernda þessar veiðar get jeg ekki sjeð, og að senda varðskipið fram til miðanna álít jeg betra en að láta það liggja inni á höfn. Það er vitanlega rjett, að við þurfum 1 gott og vandað skip, en hin tvö þyrftu ekki að vera eins dýr eða hraðskreið. En jeg skal ekki fara nánar út í það að lýsa því, en sje ekki, að við hv. þm. Snæf. (H. St.) stöndum á svo öndverðum meið, sem hann lætur, og skil því alls ekki þennan skrípaleik hans. Jeg vil ekki fara að betla um það hjá Dönum, sem þeim ber engin skylda til að veita okkur. Jeg sagði aldrei, að strandgæslan hefði verið verst í fyrra, en það get jeg sagt, að hún hefir oft verið eins góð og betri. Jeg veit vel, að skipið leiddi oft hjá sjer strandvarnir vegna skipsins „Þórs“, og lýsti foringinn meira að segja yfir þakklæti sínu fyrir að vera laus við að fara til Vestmannaeyja eða suður fyrir. Sje mönnum það ekki ljóst áður, þá vil jeg geta þess, að Þór gerði ómetanlegt gagn með því að vera á sveimi utan við landhelgina og gefa botnvörpungunum bendingar hvar netin væru, sem þeir auðvitað vildu ekki skaða. Hefði hann ekki verið þar, hefðu botnvörpungarnir farið í netin og eyðilagt þau. Hjer er ekki beitt neinu valdi, heldur er illu afstýrt með hjálp og góðum bendingum. Auk þessa er álitið, að verið hafi ránsmenn hjer á ferðinni, en ekkert borið á þeim í fyrra eða upp á síðkastið.