03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (1741)

73. mál, lánveitingar úr Ræktunarsjóði

Jakob Möller:

Það er dálítið erfitt að taka afstöðu til till., þar sem hæstv. stjórn hefir ekki tekið ákvörðun um það, hvort hún stofnar Ríkisveðbankann eða ekki. En þar sem mjer er ljóst, að það ljettir undir við stofnun bankans, ef fje nokkurt er handbært, og þar sem jeg líka vil, að stjórnin geri gangskör að því að stofna bankann sem fyrst, þá get jeg ekki fylgt till. Hins vegar er auðvitað stjórninni fullkomlega heimilt að veita lán úr Ræktunarsjóði, þó að till. yrði ekki samþykt, og dragist það lengi úr þessu að stofna bankann, þá tjáir vitanlega ekki að þvertaka fyrir allar lánveitingar úr Ræktunarsjóði um óákveðinn tíma.

Það er ein ástæða, sem jeg vil benda á, og mælir mjög með því, að bankinn verði stofnaður sem fyrst. Hún er sú, að töluverðrar eftirspurnar hefir orðið vart erlendis eftir íslenskum verðbrjefum. Ef nú hefði verið búið að koma bankanum á laggirnar, þá er jeg viss um, að talsvert mikið væri þegar selt, og hefði það getað bætt hag landsins eigi alllítið.