03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (1744)

73. mál, lánveitingar úr Ræktunarsjóði

Jakob Möller:

Jeg vil taka það fram, að jeg lít svo á, að þó að þessi þál. yrði ekki samþykt, þá er ekki þar með stjórninni á nokkum hátt bannað að lána úr Ræktunarsjóðnum. En þó teldi jeg ráðlegra að láta þál. ekki koma undir atkvæði. En hins vegar, ef till. yrði samþykt, þá óttast jeg, að stjórnin skilji það svo, sem þinginu sje ekkert fast í hendi að koma veðbankanum á fót.

Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að jeg hafi gefið það í skyn, að fyrv. atvrh. (P. J.) hefði viljað draga bankastofnunina á langinn. Hitt sagði jeg, sem satt var, að fyrv. stjórn hefði ekkert gert til þess að koma bankanum á fót, nema ráða bankastjórann, og hann mun þegar hafa verið ákveðinn um þinglok í fyrra. Er því ekki hægt að færa það atriði fram sem sönnun þess, hvað fyrv. atvrh. (P. J.) hafi ætlað sjer í þessu máli.

Að því er snertir ræðu hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), þá skal jeg ekkert fullyrða um það, hve mikið hefir verið selt erlendis af íslenskum verðbrjefum. Þó veit jeg, að af slíkum brjefum var selt fyrir 100 þús. krónur erlendis nú nýlega. En ef lítill markaður er erlendis fyrir íslensk verðbrjef, þá stafar það af því, hve lítið hefir verið gert til þess að greiða fyrir sölu slíkra brjefa á erlendum markaði. En úr því slík sala, sem jeg gat um áðan, hefir getað átt sjer stað nú, þá efast jeg ekki um, að meira mætti selja af slíkum brjefum, ef beint væri að því unnið.

Á gengið má allmjög líta frá tveim hliðum í þessu sambandi. Bæði getur það verið hagstætt til þess að skapa markað fyrir verðbrjefin erlendis, en á hinn bóginn mundi sala verðbrjefanna hefja gengið. Og jeg hygg, að mjög hefði mátt koma í veg fyrir gengishrunið, ef bráður bugur hefði verið undinn að því að selja íslensk verðbrjef erlendis.