18.04.1922
Neðri deild: 49. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1764)

86. mál, vöndun umbúða undir útflutningsvöru

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það hefir þótt vera misbrestur á því, að umbúðir undir útflutningsvörur væru eins vandaðar og nauðsynlegt er, til að tryggja gæði vörunnar. Á Alþingi 1920 kom fram till. til þingsályktunar þess efnis að skora á stjórnina að setja sjerstök lög um tunnugerð. Þar sem ekki eru til verksmiðjur hjer til að smíða nógar tunnur handa landsmönnum, var þetta ekki framkvæmanlegt. Hins vegar líta flm. till. þó svo á, að rjett væri að brýna það fyrir matsmönnum að hafa eins gott eftirlit með því eins og mögulegt væri, að umbúðirnar væru í sem bestu lagi. Hefir það mjög mikið að segja, að tunnurnar sjeu vel gerðar, hreinar og vel útlítandi. Þetta væntum við að náist, ef landsstjórnin, og þá sjerstaklega hæstv. atvrh. (Kl. J.), vildi senda umburðarbrjef til matsmanna, þess efnis, að þeir hafi sem best eftirlit með þessu. (Atvrh. Kl. J.: Það skal verða gert). Býst jeg við, að slík hvatning myndi hafa góð áhrif, enda er þess engin vanþörf, að þetta komist í betra horf en verið hefir, því umbúðir hafa verið mjög misjafnar og eftirlit ekki eins gott og æskilegt væri.

Vona jeg nú, þar sem hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir tjáð sig fúsan til að verða við tilmælum okkar tillögumanna, að till. hafi tilætluð áhrif og þetta komist brátt í viðunandi horf.