18.04.1922
Neðri deild: 49. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (1765)

86. mál, vöndun umbúða undir útflutningsvöru

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefi ekkert á móti því, að slík till. sem þessi komi fram, því hún gerir líkast til hvorki til eða frá til umbóta. En jeg vildi aðeins leyfa mjer að koma fram með gleggri skýringu á tildrögum till., að því er snertir umbúðir um kjöt. Jeg skal þá fyrst geta þess, að hjer hefir um hríð legið frammi í lestrarsal erindi frá tunnusmið nokkrum hjer í bænum, sem smíðar mikið af tunnum. Þetta erindi bendir á dæmi, er gerst hafi á Vesturlandi 1919, um slæman frágang þessara umbúða, og talið er mjög viðsjárvert. Þar er gefið í skyn, að sökin sje hjá matsmönnum. Ekkert slíkt hefir þó komið fyrir þar, þá eða síðan. En ári fyr höfðu komið á þennan sama stað tunnur ónothæfar, en ætlaðar undir kjöt, og voru þær frá höfundi erindisins sjálfum. Tel jeg ræðu hv. frsm. (J. A. J.) að sumu leyti brjóta í bága við þetta og stinga ekki á rjettum stað á kýlinu. Mjer er kunnugt um það, að kjötmatsmenn, að minsta kosti á Suður- og Vesturlandi, hafa látið sjer mjög ant um, að allra sjálfsagðra reglna væri gætt, og gert sjer alt far um að stuðla að því, að varan yrði sem best vönduð. Tel jeg yfirleitt litla eða enga ástæðu til að vefengja áhuga þeirra og samviskusemi í starfinu, en það virðist till. gera. Hins vegar skal jeg geta þess, að þetta erindi, er jeg gat um, er einmitt komið frá þeim manni, sem engin fyrirmynd hefir þótt í tunnugerð. Hafa tunnur einmitt frá honum þótt mjög misjafnar, og sumar ónothæfar með öllu. Hafa matsmenn haft í hyggju að koma fram með ákveðna till. í þá átt, að ekki verði flanað að því að taka tunnur af þessum manni, að minsta kosti ekki án öruggrar tryggingar fyrirfram um nothæfi þeirra. Vildi jeg aðeins vekja athygli manna á því, að ekki er heppilegt, að slík till. sem þessi beinist í öfuga átt við það, sem vera ber, þannig, að of mikið traust verði borið til þessarar verksmiðju, en sökinni kastað á matsmenn, sem vitanlega hafa gætt allrar varúðar. Vona jeg, að hæstv. stjórn taki þetta til athugunar.

Annars held jeg, hvað það snertir að tryggja vöndun umbúðanna, að þá geti hvorki þessi till. nje afskifti hæstv. stjórnar af matsmönnum áorkað meira en matsmenn gera og hafa gert.

Jeg get ekki stilt mig um að geta þess, að vottorð, sem jeg hefi hjer fyrir framan mig og borist hafa mjer í tilefni af þessu máli, eru alveg gagnstæð málstað þess manns, sem hið margnefnda erindi hefir samið. Er jeg og þess fullviss, að matsmenn eru nú alráðnir í að láta einskis ófreistað til þess að tryggja það, að óvöndun vörunnar eða illur frágangur verði ekki til þess að spilla markaðinum.

Á þetta vildi jeg aðeins benda, með því að mjer virðist till. þessi bera með sjer, að um sljólegt eftirlit matsmanna sje hjer að ræða. þætti mjer og vænt um að heyra frá hæstv. stjórn eitthvað um þetta, og hvort ekki liggi fyrir hjá henni tillögur um þetta mál, fram komnar frá matsmönnum sjálfum, sjerstaklega þó yfirmatsmönnunum við kjötmatið. Annars ber ekki að skilja orð mín svo, að jeg sje á móti þessari till., en jeg vildi aðeins vekja athygli manna á því, að hættan kemur ekki æfinlega úr þeirri áttinni, sem menn vænta helst.