18.04.1922
Neðri deild: 49. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (1768)

86. mál, vöndun umbúða undir útflutningsvöru

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Það er í rauninni sorglegt, að svona löguð till. skuli þurfa að koma fram, að hv. Alþingi skuli þurfa að skora á stjórnina, að hún brýni það fyrir eiðsvörnum mönnum, að þeir geri skyldu sína. Að till. þessi er fram komin sýnir, að matsmennirnir hafa ekki samviskusamlega rækt starf sitt, því jeg geng út frá, að hún hafi ekki verið borin fram að nauðsynjalausu. En úr því að hún er fram komin, og jeg geng út frá, að hún verði samþykt, þá er ekki nema sjálfsagt að verða við henni, og mun jeg eigi láta langt um líða, áður en brýnt verður rækilega fyrir hlutaðeigandi mönnum að gæta þess vandlega, að engin vanræksla eigi sjer stað í þessu efni.

Hv. þm. Mýra. (P. Þ.) sagði, að fyrir nokkrum árum hefðu kjöttunnur reynst gallaðar, og skaut þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort eigi hefði verið kvartað undan því við stjórnarráðið, sjerstaklega út af tunnum frá einum manni hjer í Reykjavík.

Jeg hefi spurt skrifstofustjórann að þessu, en hann sagði, að það hefði aldrei verið kvartað undan umbúðum um kjöt, en aftur á móti hefðu fyrir nokkrum árum verið megnar kvartanir undan síldartunnum. Mun að miklu leyti illum umbúnaði að kenna, hve lágt verð var á síldinni þá. Þetta var þá tekið til athugunar og brýnt fyrir matsmönnunum að hafa eingöngu góðar tunnur.

Skrifstofustjórinn sagði sömuleiðis, að fyrir tveimur árum hefði verið kvartað undan, að saltið í kjöt væri ekki gott, og mun það hafa spilt fyrir kjötmarkaðinum þá.

Frekari upplýsingar um þetta get jeg ekki gefið, en mun að sjálfsögðu verða við þessari till.